26.10.2009 | 21:26
Hvar vilja menn hafa gengið?
Það er ekki ofsögum sagt að mikið er rætt um gengi á Íslandi. Eitthvað er rætt um glæpagengi, en mest þó um krónugengið.
Enda skiptir gengi gjaldmiðla líklega óvíða jafn miklu máli og á Íslandi, enda Íslendingar þjóð sem á mikið undir milliríkjaviðskiptum og þau gangi hratt og vel fyrir sig.
Flestir virðast þeirrar skoðunar að gengi Íslensku krónunnar sé alltof lágt um þessar mundir. Þar skeiki tugum prósenta að margra mati.
Persónulega á ég erfitt með að trúa því. Sitthvað segir mér að gengið sé á nokkuð réttu róli þessa dagana, eigi jafnvel eftir að lækka nokkuð frekar. Ástandið eigi eftir að "versna" áður en það fer að skána.
Vissulega veldur það mörgum og margvíslegum erfiðleikum þegar gengið sígur, eða hrapar eins og það hefur gert undanfarið ár á Íslandi.
En hvar finnst mönnum að gengið "eigi að vera"?
Viljum Íslendingar vera með gengið það sterkt að aftur verði halli á viðskiptum við útlönd? Nú hefur í fyrsta sinn í langan tíma verið afgangur af þeim viðskiptum marga mánuði í röð, í eina þrettán eða fjórtán. Það er einmitt það sem Íslendingar þurfa til að rétta af hallann sem hafði verið í mörg ár.
En þessi afgangur hefur ekki náðst nema vegna þess hve gengið hefur fallið, og líklega þó enn frekar vegna þess að ströng gjaldeyrishöft hafa verið við lýði. Hefði þeirra ekki notið við væri vöruskiptajöfnuðurinn líklega ekki eins hagstæður og gengið enn þá lægra.
Vissulega væri gott að hafa gengið sterkara, erlendar skuldir lægri o.s.frv. En það dugar skammt að skulda minna, ef salan á Íslenskum vörum verður erfiðari, innflutningur eyks o.s.frv.
Kaupmáttur Íslendinga í erlendum vörum myndi aukast - en aðeins þeirra sem enn hefðu atvinnu - og mjög líklegt væri að þeim myndi fækka.
Persónulega get ég ekki séð rök fyrir því að gengið eigi að styrkjast, allra síst nú þegar skuldabyrði hins opinbera er að aukast sem aldrei fyrr, með erlendum lánum og IceSave skuldbindingum. Það tekur strax þó nokkurn skerf af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og er líklegt til að fella krónuna frekar.
Óvissa um erlenda fjárfestingar eykur svo enn líkur á frekara gengisfalli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.