1.1.2007 | 00:29
Refsing Saddams
Henging Saddams er mál málanna þessa daganna. Auðvitað sýnist sitt hverjum, og í raun er ég tvístígandi í þessu máli, er raunar ekki með mína skoðun á hreinu.
Almennt séð er ég á móti dauðarefsingum. En þó er ég efins um að slíkt eigi við undantekningarlaust. Ég er ekki viss um að "Spandau" lausn hefði verið betri í tilfelli Saddams. Ég er ekki tilbúinn til að segja að betra hefði verið að dæma alla leiðtoga nazista til ævilangrar fangelsisvistar að seinni heimstyrjöldinni lokinni.
Fangelsisvist er oftast ætlað að refsa og bæta viðkomandi einstakling. Byggja hann upp og skila honum aftur út í samfélagið. Dauðarefsing byggir auðvitað engan upp, en ævilangt fangelsi skilar heldur engum betri út í samfélagið.
Svo má sömuleiðis velta því fyrir sér hvaða skilaboð það hefði verið til almennings í mörgum arabalöndum, ef afbrot Saddams hefðu eingöngu þótt verðskulda ævilangt fangelsi, en dauðarefsing sé í gildi og framkvæmd fyrir mörgum sinnum minni afbrot?
En auðvitað bætir aftaka Saddams ekki daglegt líf eða ástandið í Írak, en ég leyfi mér reyndar að efast um að vitneskjan um að hann sæti í fangelsi einhversstaðar í landinu gerði það heldur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Fangelsi eru líka til að taka viðkomandi afbrotamenn úr umferð í því skini að koma í veg fyrir að þeir fremji fleiri afbrot. Verja þannig almenning.
Sú röksemd að segja að fyrst dauðadómur er í lögum þá sé réttlætanlegt að beita honum er anski skrítin. Þá eru lögin sett hærra en siðferðið.
Það er einnig skrítin framsetning að segjast vera á móti dauðarefsingum nema þegar um er að ræða einstaklinga sem falla manni ekki að geði s.s. Saddam og Nasista. Saddam hafði einnig skoðun á því hvaða menn féllu honum ekki að geði. Hver á að setja reglur um hvaða menn eru nógu ógeðfeldir til að það megi drepa þá.
Georg Birgisson, 1.1.2007 kl. 10:54
Að sjálfsögðu má rökræða þetta frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Gbirg hefur eitthvað misskilið það sem ég var að segja, ef hann álítur að það sé einungis um það að ræða hvort að mér falli við viðkomandi, að mér finnist að dauðarefsing sé hugsanlega ásættanleg. Persónulega lít ég allt öðru vísi á þá glæpi sem forystumenn nazista og Saddam frömdu (þó að þeir hafi ef til vill ekki drepið neinn persónulega) heldur en það sem líklega kallast "hefðbundnir" morðingjar eða glæpamenn. Menn sem leggja á ráðin um útrýmingu heilla þjóða vekja mér öðruvísi hugsanir.
Þannig hef ég meiri samúð með þeim 4 sem voru teknir af lífi í Japan á jóladag, heldur en Saddam Hussein. Ég hef sömuleiðis meiri samúð með þeim tugum sem eru teknir af lífi í Kína árlega, sömu sögu er að segja af þeim sem eru líflátnir í Bandaríkjunum.
Hvað varðar dauðarefsingu, sem er vissulega í gildi í Írak, sem og mörgum nágrannalöndum þeirra og reyndar víða um heim, þá er það auðvitað rétt að baráttan gegn þeim lögum mætti auðvitað vera harðari, en það er líka spurning sem að ef til vill er rétt að velta fyrir sér, hvers vegna aðrar aftökur valda ekki jafn mikil og sterk viðbrögð.
G. Tómas Gunnarsson, 1.1.2007 kl. 16:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.