26.9.2009 | 00:43
Af meintu hlutleysi fjölmiðlamanna
Nú þegar Davíð Oddsson hefur verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins hefur umræðan um hlutleysi fjölmiðla og fjölmiðlamanna verið nokkuð í sviðsljósinu.
Mín skoðun er sú að slíkt sé helber tálsýn.
Fyrrverandi þingfréttaritari Morgunblaðsins hefur til dæmis lýst því yfir að hún hafi verið flokksbundin í Vinstri grænum áður en hún tók starfið að sér. Á meðan hún hafi gegnt starfinu hafi hún hins vegar ekki verið bundin nokkrum flokk.
Örfáum vikum eftir að hún hafði látið af starfi þingfréttaritara Morgunblaðsins var hún svo ráðin aðstoðarmaður (aðstoðarkona) Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra Vinstri grænna.
Trúir því einhver að hún hafi verið algerlega hlutlaus í skoðununum sínum í millitíðinni?
Einn af þekktari fréttamönnum Stöðvar 2 er Heimir Már Pétursson. Hann bauð sig fram á sínum tíma sem varaformaður Samfylkingarinnar. Trúa áhorfendur stöðvarinnar því virkilega að hann sé ávallt hlutlaus í fréttaumfjöllun sinni. Jafnvel þegar hann er að taka viðtöl við Ingibjörgu Sólrúnu, eða Össur Skarphéðinsson?
Róbert Marshall var formaður ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, ef ég man rétt. Hann fór síðar í framboð fyrir Samfylkinguna. Í millitíðinni var hann fréttamaður á Stöð 2 og forstöðumaður á fréttarásinni sem ég man ekki hvað hét.
Halda allir að hann hafi gleymt skoðunum sínum á þeim tíma?
Heldur fólk að Gísli Marteinn hafi fyrst orðið hægrisinnaður, eftir að hann hætti að koma fram í Sjónvarpinu?
Frá því að ég sá Sigmund Erni fyrst með "palestínuklút" um hálsinn í menntaskólaárum hans og þangað til hann varð þingmaður Samfylkingarinnar, hafa allir trú á því að pólítískar skoðanir hans hafi aldrei litað þær fréttir sem hann skrifaði?
Eru flestir þeirrar skoðunar að Svanhildur Hólm hafi verið ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, vegna þess að hún hafi átt bestu umsóknina, en ekki vegna þess að hún hafi áður sínt að skoðanir hennar leituðu til hægri?
Eru allir þeirrar skoðunar að fréttafluttningur Ómars Ragnarssonar hafi verið fyllilega hlutlaus, áður en hann sagði fréttamannsstarfi sínu lausu og stofnaði pólítískan flokk?
Eva Björg Erlendsdóttir starfað á sínum tíma hjá Ríkisútvarpinu, en ritstýrir nú Smugunni, vefriti Vinstri grænna og starfar hjá þingflokki þeirra.
Standa þá allir í þeirri meiningu að skoðanir hennar hafi aldrei haft nein áhrif á fréttaflutning hennar hjá RUV?
Auðvitað er 100% hlutleysi eitthvað sem aldrei er í raun hægt að ná.
En það er auðvitað gott að vita "úr hvaða átt fjölmiðlar, eða fréttamenn" koma.
En algert hlutleysi er líklega ekki mögulegt og vafamál hvort það er æskilegt.
P.S. Til að gæta eins mikils hlutleysis og hægt er, er rétt að taka fram að sá sem skrifar þessar línur er "borgaralega þenkjandi", hefur verið í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkkinn, en hefur ekki hugmynd um hvort hann er flokksbundinn eður ei. Hann borgar ekkí árgjöld, tékkar ekki að því að öðru leiti og hefur í sjálfu sér ekkert á móti því. Það skiptir hann í raun ekki "öllu máli".
P.S.S. Svo er það auðvitað Þorsteinn Pálsson, sem er fyrrverandi formður Sjálfstæðisflokksins, sem fáum fannst athugavert að yrði ritstjóri Fréttablaðsins, nú eða Össur Skarphéðinssson, sem var þingmaður þegar hann var ritstjóri DV.
En það styrkir aðeins þá skoðun að það sé meira persónan, en hlutleysið sem fari í taugarnar á þeim sem harðast deila á nýráðningu ritstjóra Morgunblaðsins.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Fjölmiðlar | Facebook
Athugasemdir
Ég er svo innilega sammála ofanrituðaðri færslu. Að fólk sé svona skammsýnt á hlutleysi er brandari útaf fyrir sig.
Enda málflutningur margra bloggara tengt DO og hlutleysi Morgunblaðsins tengt því máli dregur meira úr trú minni um hlutleysi eirra en nokkuð annað.
Ignito, 26.9.2009 kl. 01:55
Einmitt þessir þættir sem þú telur upp gera að verkum að íslenskir fjölmiðlar eru marklaus pappír sem best eru notaðir til annarra verka en að lesa eða hlusta á. Flesta mætti leggja niður - án þess að það myndi hafa nokkur áhrif.
Til að fá trúverðugar fréttir frá Íslandi þarf að lesa erlenda miðla.
Íslenskir fjölmiðlar eru auk þess flestir í eigu klíkuflokka eða glæpamanna. Myndir þú trúa fréttum í blaði sem er gefið út af Rússnesku Mafíunni eða Talibönum, svo dæmi séu tekin?
Hvað varðar ráðninguna á Davíð, þá er það varla samanburðahæft við aðra viðtleysinga sem hafa verið ritsjórar - og flokksbundnir í einhverjum af stjórnmálaflokki. Davíð var jú arkitekt að að hruni þjóðfélagsins.
Spurning hvernig mönnum hefði orðið við ef Hitler hefði orðið ritstjóri Die Welt, ef hann hefði lifað af. Hann var jú líka arkitekt að hruni Þýskalands. Trúlega hefði það orkað tvímælis í hugum marga svo ekki sé meira sagt.
Babbitt (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 12:53
Ritstjórar Morgunblaðsins hafa aldrei verið hlutlausir, ekki einu sinni að nafninu til, í ritstjórnarskrifum (leiðurum og Reykjavíkurbréfum). Morgunblaðið hefur alltaf tekið afstöðu til deilumála og ekki farið dult með hana.
Þess vegna er mjög undarleg þessi gagnrýni á ráðningu Davíðs á þeim forsendum að hann sé ekki hlutlaus. Auðvitað ekki. Ritstjórar Moggans eru ekki hlutlausir í skrifum sínum.
En það er auðvitað ekki málið, heldur hitt, að Davíð lendir líklega í því að þurfa að ritstýra skrifum um sjálfan sig, sem einn helsta þátttakandann í efnahagshruninu. Var það ekki hann sem ákvað að ríkisvæða Glitni? Svo aðeins sé tekið eitt dæmi.
Gott og vel, það er eigenda Moggans að ákveða hvort þeir vilja hætta á að lesendur telji að með því að ráða Davíð sé trúverðugleiki blaðsins horfinn. En kannski verða fleiri til að telja að þá fyrst verði að marka Moggann. Það kemur í ljós.
Aftur á móti er ég orðinn dálítið hugsi yfir því hversu léttilega bloggarar breiða út atvinnuróg um íslenska fréttamenn. Að segja fréttamann hlutdrægan er eins og að segja að stærðfræðingur geti ekki lagt saman tvo og tvo, vegna þess að óhlutdrægni er grundvallaratriðið í fréttamennsku.
Sumir láta sig ekki muna um að fordæma á einu bretti alla islenska fréttamenn.
Líklega er það satt sem sagt er, blogg er bölvað blaður.
Kristján G. Arngrímsson, 26.9.2009 kl. 18:16
Eins og ég sagði áður held ég að hlutleysi sé í raun ekki til og hlutlausi fréttamaðurinn því varla heldur.
Hvað Davíð varðar, myndi ég ekki telja hann "arkitekt" hrunsins, þó að vissulega hafi hann komið að gríðarmörgum ákvörðunum. Það var þó ekki hann sem "ríkisvæddi" Glitni, heldur var það ríkisstjórnin sem ákvað það.
Ég lít svo á að um róg sé að ræða þegar farið er með ósannindi, og ég tel Íslenska fjölmiðlamenn almennt ekki hlutlausa, sjálfsagt ýmist meðvitað eða ómeðvitað. Reyndar gildir það sama um fjölmiðlamenn hér í Kanada, en fjarlægðin er meiri og gjarna vita lesendur lítið eða hreinlega ekki neitt um það sem er verið að skrifa um.
En hér eru blöð líka órög við að lýsa yfir stuðningi við t.d. ákveðna stjórnmálaflokka fyrir kosningar. Koma hreinlega til dyranna eins og þau eru klædd, ef svo má að orði komast.
En ég held að hér í Kanada hafi "samruni" fjölmiðlafólks, stjórnmálastéttarinnar annars vegar og óskilgreindra "auðmanna", aldrei verið eins greinilegur og á Íslandi.
Hvað blaðrið varðar, þá er bloggið auðvitað mikið blaður, það liggur í hutarins eðli þegar um er að ræða nokkurs konar beina útsendingu frá heimilum, kaffistofum o.s.frv.
En það sama má líklega segja um flesta Íslensku fjölmiðlana, þeir eru að stórum hluta "bölvað blaður" undir oki auðmanna svo vitnað sé í einn alþingismanninn/fjölmiðlunginn.
G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2009 kl. 00:18
Þú hittir naglann á höfuðið nafni. Góð grein.
Tómas Ibsen Halldórsson, 27.9.2009 kl. 00:22
Þótt fjölmiðlafólk hafi pólitískar skoðanir prívat er ekki þar með sagt að þær skoðanir liti það sem fólkið gerir í vinnunni.
Eða ertu að segja að svo hljóti að vera?
Hvað gerir að verkum að slíkt er óhjákvæmilegt? Ég sé það ekki.
Og ef það er þetta sem þú átt við, þá ertu að segja að þetta fólk sé ekki starfi sínu vaxið, geti ekki gætt óhlutdrægni í fréttamennsku, láti persónulegar skoðanir koma fram í fréttunum osfrv. Það er atvinnurógur.
Sumir minna bestu vina eru fréttamenn, og ég er ekki til í að samþykkja að þeir séu með þessum hætti ekki starfi sínu vaxnir. Ég þekki þá og hef unnið með þeim og veit hvað ég er að tala um.
Hitt veit ég líka, og allt skynsamt fólk sem ekki er í afneitun getur gert sér grein fyrir því, að eini fjölmiðillinn sem var EKKI undir auðmenn settur á árunum fyrir hrun var Rúv. Það var því eini frjálsi fjölmiðillinn. Og er enn, enda sá miðill sem Íslendingar treysta langbest.
Ef næsta spurning er sú, hvort ofangreindir fjölmiðlamenn sem ég þekki hafi látið "eigendur sína" (þ.e. auðmennina) hafa áhrif á störf sín, þá er svarið já. Því miður. En þannig var það nú samt. Mogginn var í eigu Björgólfsfeðga, og við vorum vel meðvituð um það.
Jafnvel svo, að Björgólfarnir voru mærðir úr hófi. Spurðu bara Pétur Blöndal. (Blaðamann á Mogga og son Halldórs, á ég við, ekki núverandi þingmann). Ef þú vilt fá fleiri dæmi get ég tínt þau til. Ég hef reyndar þegar nefnt dæmi áður hérna á blogginu.
En aðalmálið var þó kannski, eins og ég hef áður nefnt, að við fjölmiðlafólkið einfaldlega trúðum því að auðmennirnir vissu hvað þeir væru að gera, og að þeir væru í rauninni mikilhæfir menn.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ýkt dæmi um slíkan átrúnað, sem og Ólafur Ragnar Grímsson. Ingibjörg Sólrún fór til útlanda til að reka erindi íslenskra auðmanna, eins og alþjóð veit. Við trúðum öll á þessa menn, sem reyndust svo vera svikahrappar eins og í ævintýrinu um nýju fötin keisarans.
(Ef út í það er farið er það ævintýri líklega besta útleggingin á útrásarævintýrinu íslenska - með Ólaf Ragnar í hlutverki keisarans!)
Kristján G. Arngrímsson, 27.9.2009 kl. 08:48
Skoðanir geta verið margskonar og ekki endilega pólítískar (líklega eru þær þó flestar pólítískar ef út í það er farið, þó að þær séu ekki endilega flokkspólítískar).
En ég er að segja að það sé næsta ómögulegt, eða ómögulegt að lífsskoðanir hafi ekki áhrif á fréttaflutning, en auðvitað er það svo að í sjálfu sér er næsta ómögulegt að mæla þetta.
Það liggur í því að í flestum tilfellum er ómögulegt að segja til um hvar hlutleysið liggur. Þess vegna er svo vinsælt hjá fjölmiðlungum að fá tvo viðmælendur af sitthvorum "kantinum" og halda að það dugi til að um sé að ræða hlutlausa og "vegna" umræðu. En meira að segja hverjir eru valdir af sitthvorum "kantinum" getur skipt megin máli og styrkt eða skemmt fyrir því málefni sem um ræðir.
Annars er nokkuð merkilegt að lesa síðasta svar þitt, þar sem þú byrjar á því að halda því fram að fréttamenn sýni almennt hlutleysi, en segir síðan að flestir þeirra hafi verið bullandi "meðvirkir" með "útrásarvíkingum" og verið hlutdrægir til stuðnings þeim. Meðvitað eða ómeðvitað. Hvað segir það?
Þið einfaldlega trúðuð að þessir menn vissu hvað þeir væru að gera.
Það nákvæmlega er uppi á teningnum þegar kemur að stefnu Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna, nú eða ríkisafskiptum, frjálshyggju o.s.frv.
Eða heldur þú að það séu ekki margir fjölmiðlungar sem standa í þeirri meiningu að stjórnmálamenn viti hvað þeir séu að gera?
Eins og ég sagði áður held ég að á Íslandi hafi verið (og sé líklega enn) frekar óskýr skil á milli stjórnmálastéttarinna og fjölmiðlastéttarinnar. Það sama gilti um fjömiðlunga og "auðmennina". Ekki það að fjölmiðlamenn. eða fyrrum fjölmiðlamenn hafii orðið ríkir, heldur hitt að þeir hafi "minglað" ef til vill full frjálslega.
En það er nú svo að oft er brugðist illa við ef einhver fer að gagnrýna "gagnrýnendurna".
G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2009 kl. 14:50
Ef út í það er farið held ég að fáir hafi verið jafn gagnrýnir á íslenska fjölmiðla og ég. Ef þú vilt get ég vísað þér á nokkrar blaðagreinar því til stuðnings. Ég gagnrýndi til dæmis það sem þú nefnir meðvirkni fjölmiðlafólks með auðmönnunum, og það sem ég taldi vera óeðlilegan sleikjuskap við þá og peningana þeirra.
Ég er meira að segja ekki frá því að þessi gagnrýni mín, sem ég var óspar á innanhúss á Morgunblaðinu, hafi verið hluti af ástæðu þess að mér var sagt upp.
En það er hluti af starfslýsingu fréttamanna að gæta óhlutdrægni og leyfa báðum eða öllum sjónarmiðum að koma fram. Um þetta eru allir þeir fréttamenn sem ég þekki meira meðvitaðir en nokkuð annað. Þeim verður auðvitað á í messunni eins og öllum öðrum. En að þeir vísvitandi reki áróður fyrir einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki í fréttaflutningi sínum er einfaldlega ekki rétt. Slíkir menn yrðu reknir.
Að það sé áróður hjá Rúv að upplýsa hlustendur um Evrópusambandið er fyndin afstaða. Þeir sem þessu halda fram telja að það sé hlutleysi að þegja um ESB. Það er reyndar það sem sagt var að Mogginn hafi gert, þegja um hluti sem voru ekki stjórnendum blaðsins þóknanlegir. Það væru ekki góð vinnubrögð.
Ísland hefur sótt um aðild að ESB. Það er staðreynd. Er ekki eðlilegt að álykta sem svo, að landsmenn velti því fyrir sér hvað sé fólgið i ESB? Eiga þá fjölmiðlar ekki að segja frá því?
Er það áróður fyrir kvótakerfinu að útskýra það?
Er það áróður fyrir áfengisneyslu að útskýra hvaða áhrif áfengi hefur?
Og svo framvegis.
Ég held að fjölmiðlafólk hafi látið blekkjast af fagurgala auðmannanna, eins og svo margir aðrir (nema ef til vill Davíð Oddsson? Og þó, jú hann gaf þeim Landsbankann, eins og keisarinn gaf svikahröppunum heilu sekkina af gulli!) og þannig má segja að fjölmiðlar hafi brugðist.
En kannski tóku fjölmiðlar bara þátt í sjálfsblekkingunni með öllum hinum, eins og allt fólkið í ævintýrinu um nýju fötin keisarans.
Jamm.
Ég held, af því að þú spyrð, að núorðið séu þeir fáir á Íslandi sem telji að stjórnmálamenn viti hvað þeir eru að gera. Að minnsta kosti er okkur orðið löngu ljóst, að Geir Haarde og hinir ráðherrarnir sem voru á vaktinni í hruninu vissu ekki sitt rjúkandi ráð.
En þetta var svo sáraeinfalt, eins og sannleikurinn oftast er: Fjárhagslegt sjálfsforræði þjóðarinnar hafði verið sett í hendurnar á mönnum sem reyndust svikahrappar.
Ég þakka guði fyrir AGS og ESB, og vona að þessar stofnanir fari með hin eiginlegu völd á Íslandi sem allra lengst.
Kristján G. Arngrímsson, 27.9.2009 kl. 15:42
Það þarf auðvitað alls ekki að vera áróður fyrir aðild að segja frá "Sambandinu". Margir myndu auðvitað vilja meina að ef það sé gert á "hlutlausan" og fræðandi hátt, þá væri það styrkur fyrir þá sem eru á móti aðild. En það er þetta með hlutlausa háttinn sem vissulega þvælist fyrir mörgum og margir eru ekki sammála um hvar liggi.
En hvaða hlutleysi olli því til dæmis að RUV þótti skoðanakannanir sem Gallup framkvæmdi fyirr Andríki lítt eða ekki fréttnæmar? Sjá hér . Skiptir það miklu máli fyrir hverja skoðanakönnunin er unnin, eða skipta niðurstöðurnar meira máli?
Ég er alveg sammála því að í dag telji fæstir að Íslenskir stjórnmálamenn viti hvað þeir eru að gera, enda hefur einhver hluti fjölmiðlunga "braggast", en það gildir alls ekki um þá alla.
Öll sjónarmið koma sjaldnast fram í fréttum, enda það oft hreinlega ekki gjörlegt.
Í frétt um kvótakerfið, hvort vegur þyngra sú samþjöppun (sem vissulega má deila um hvort að hefur orðið til góðs eða ills) sem hefur orðið með fækkun skipa (færri skip elta hvert tonn á Íslandi en víða eða alls staðar annarsstaðar, sem í heild sinn er ódýrara) eða hrörnun lítilla þorpa á landsbyggðinn? Hvar liggur hlutleysið, hvar ætti þungi umfjöllunarinnar að vera? Um það verða líklega flestir seint sammála?
IMF og EU hafa í gegnum tíðina ekki síður verið mistæk en margt annað stjórnvald. Það nægir líklega að nefna stórgallað fyrirkomulag á löggjöf "Sambandsins" um starfsemi fjármálastofnana. Sem Þjóðverjum og Frökkum er mikið í mun að breyta núna, en Bretar eru harðir á móti. Bretum tókst nefnilega að lokka til sín mikið af viðskiptum frá Bandaríkjunum með "léttari" og sveigjanlegri reglumgerðum í þessum geira.
G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2009 kl. 16:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.