8.9.2009 | 02:40
Auðvitað er krónan hluti af lausninni
Það má líklega til sanns vegar færa að krónan, eða öllu heldur efnahagsstjórnin (sem ræður síðan miklu um vegferð krónunnar) hafi haft áhrif til hins verra í hruninu. En það er líklega líka rétt hjá Gylfa (og því er ég sammála) að krónan mun hjálpa Íslendingum út úr erfiðleikunum og hjálpa til við að rétta efnahagslífið við.
Krónan dreifir byrðunum og hjálpar til við að rétta af sveiflurnar (getur vissulega líka ýkt þær ef rangt er á málum haldið).
Stöðugt gengi er vissulega af hinu góða, en það er ekki nóg að hafa stöðugt gengi, ef önnur efnahagsstjórnun er ekki rétt eða ytri aðstæður breytast snöggt. Ef gengið er stöðugt verða aðrir þættir að jafna út sveiflurnar.
Það þarf ekki annað en að skoða stöðu Eystrasaltslandanna til að komast að því að stöðugt gegni tryggir ekki efnahagslega velgengni eða almenna hagsæld. Atvinnuleysi hefur rokið þar upp, laun hafa lækkað gríðarlega og kreppan þar lítið á undanhaldi.
Ástandið í efnahagslegu tilliti og atvinnulega er heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir á Spáni eða Írlandi, þó að vissulega sé Euroið nokkuð stabíll gjaldmiðill.
Set hér inn til gamans línurit yfir gengi Kanadadollars gegn hinum Bandaríska starfsbróður sínum. Línuritið sýnir þróunina síðastliðið ár. Eins og sjá má eru sveiflurnar þó nokkrar (þó vissulega séu þær langt frá sveiflum Íslensku krónunnar á sama tíma), en Kanadíska bankakerfið er talið með þeim bestu í heimi og hér varð ekkert hrun. Það er varla hægt að segja að kreppan hafi komið hingað.
Atvinnuleysi er hér á milli 8 og 9%, en hefur sjaldnast farið mikið niður fyrir 6% undanfarin ár.
P.S. Línuritið er fengið að láni af vef Kaupþings.
Krónan hefur sína kosti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nú þekki ég ekki til í Eystrasaltsríkjunum, en mig grunar að þau séu að miklu leyti ósambærileg við Ísland í atvinnumálum. Þau eru til dæmis nýlega laus undan Sovétokinu, og þótt það hljóti að teljast blessun hefur líklega fylgt henni aukið atvinnuleysi. Eða hvað?
Og Kanada sem atvinnumarkaður er gjörólíkur Íslandi. Inni í atvinnuleysistölum í Kanada hlýtur td. að vera atvinnuleysi í Nunavut, sem er hlutfallslega margfalt meira en "fyrir sunnan", og skekkir því meðaltalsmyndina í raun. Líklega væri fróðlegra að bera saman atvinnuleysi í Ontario eða Alberta og á Íslandi, fremur en í Kanada í heild og á Íslandi.
Svo er mér til efs að íslenskt hagkerfi sé jafn háð nokkru einu öðru hagkerfi og það kanadíska er þvi bandaríska.
Kristján G. Arngrímsson, 8.9.2009 kl. 16:46
Auðvitað eru engin tvö lönd alveg eins. Það eru 18. ár síðan Eystrasaltslöndin brutust undan oki Sovétríkjanna (og aðeins 10. dagar síðan mér var síðast þakkað fyrir viðurkenningu Íslendinga á sjálfstæði ríkjanna).
En það er margt líkt með efnahagslífinu, þó að það sé að sjálfsögðu margt ólíkt.
Ég þekki best til í Eistlandi, en það gekk í gegnum sömu útlánasprenginguna og Ísland, velmegun náði áður óþekktum hæðum, atvinnuleysi snarminnkaði (og var í lágri 1. stafs tölu, 4.5% árið 2007), húsnæðisverð fór upp úr öllu valdi og gerði fólkið "ríkt", enginn mundi lengur eftir því að hlutabréfamarkaður gæti líka farið niður á við.
Bankarnir (Aðalbankarnir eru Sænskir) voru "ríki í ríkinu", réðu í raun æ stærri hluta af efnhagslífinu, og pumpuðu það upp.
Það ríkti góðæri.
En líkt og á Íslandi var það að stórum hluta fjármagnað með lánsfé.
Ég hef ekki séð splunkunýjar tölur yfir atvinnuleysi hér í Ontario, en man að í júni, var þa yfir 9% (að mig minnir 9.4%) og yfir landsmeðaltali. Ontario er enda farið að flokkast með "have not" fylkjum hér í Kanada.
Það er auðvitað ekki hægt að segja að nein tvö ríki séu 100% samanburðarhæf, en það er samt vert að hafa það í huga að atvinnuleysi í Kanada er á milli 8 og 9%, í landi sem almennt er talið hafa farið mjög vel út úr kreppunni.
Ég læt þér svo bara sjálfum eftir, Kristján minn, að finna tölfræði um efnahaginn, t.d. á Spáni og Írlandi, en þær eru engin skemmtilesning.
G. Tómas Gunnarsson, 9.9.2009 kl. 04:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.