1.5.2006 | 03:04
Blessaður sandurinn sem gerir okkur ríka
Sá í sjónvarpinu, nánar tiltekið á CBC, í gærkveldi nokkuð góða heimildamynd um olíusandinn sem liggur undir stórum hluta af Albertafylki hér í Kanada.
Þetta er ekkert smá magn af sandi, og ekkert smá magn af olíu. Stærðargráðan er líka með ólíkindum. Það þarf u.þ.b. 2. tonn af olíusandi, til að búa til 1 tunnu af olíu, og það er verið að tala um að fljótlega nái framleiðslan 1. milljón tunna á dag, jafnvel talað um 5 milljónir tunna á dag í framtíðinni.
Það er talið að 1.75 trilljón ( 1,750,000,000,000) tunnur af olíu séu þarna í jörðu, sumir segja allt að 2.5 trilljónir, þannig að það er ljóst að það er nokkuð mikið af sandi sem þarf að færa til. Þetta eru meiri olíubirgðir en nokkur önnur þjóð er talin búa yfir, ef Saudi arabar eru undanskildir.
Þessi olíusandur er mun dýrari í vinnslu, en hefðbundnari olíulindir, og var það ekki fyrr en með hækkandi olíuverði, að þessi auðlind varð virkilega álitleg. Þetta hefur nú þegar fært Kanada og Alberta fylki ótrúlegar tekjur, uppbyggingin í Alberta er gríðarleg og fyrir ekki löngu síðan sendi fylkisstjórn Alberta íbúum fylkisins, 400 dollara ávísun, svona til að létta aðeins pyngjuna.
En þetta er auðvitað ekki eintóm sæla. Gríðarlegt jarðrask fylgir þessum framkvæmdum, þeir sem lesa þetta geta dundað sér við að reikna út magnið af sandi sem þarf að færa til miðað við tölurnar hér að ofan. Reynt hefur verið að ganga eins vel frá og hægt er, en manngerð náttúra er aldrei alveg eins og sú sem fyrir var. Einnig hefur verið nokkur gagnrýni á þá staðreynd að gas er notað í miklum mæli við vinnsluna, og segja sumir að "hreinni" orkugjafi, sé þannig notaður til að framleiða "óhreinni". Einnig er gríðarlegt magn af vatni sem er notað við vinnsluna og óttast sumir að það hafi slæm áhrif á vatnsbúskapinn á svæðinu til lengri tíma.
En tæknin við þessa vinnslu er ennþá í þróun, og alltaf er leitað leiða til að gera þessa vinnslu ódýrari og hagkvæmari. Það er hins vegar ljóst að þegar ástand mála er eins og um þessar mundir verður þessi olía æ mikilvægari, bæði fyrir Kanada og ekki síður veröldina alla. Enda má oft lesa fréttir um hvernig bæði Bandaríkin og Kína séu að reyna að tryggja aðgang sinn að olíusöndunum.
Áform eru uppi um að byggja leiðslur frá Alberta til vesturstrandarinnar til að þjóna Kína, og stærstur partur af framleiðslunni fer nú þegar til Bandaríkjanna. Reyndar skilst mér að Kanada sé nú þegar stærsti einstaki birgi Bandaríkjannna hvað varðar olíu, en eitthvað um 17% af þeirri olíu sem Bandaríkjamenn nota kemur frá Kanada.
Set inn hér að neðan nokkra tengla fyrir þá sem vilja lesa meira um þessa auðlind.
http://www.energy.gov.ab.ca/89.asp
http://en.wikipedia.org/wiki/Athabasca_Oil_Sands
http://www.cbc.ca/news/background/oil/alberta_oilsands.html
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Sjónvarp, Vísindi og fræði, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.