15.8.2009 | 19:31
Humar sveppir
Var að þvælast á bændamarkaði á fimmtudaginn þegar ég sá í einum básnum til sölu humar sveppi (lobster mushrooms). Þetta var nýlunda fyrir mér, ég hafði aldrei heyrt talað um þessa sveppi áður.
Let slag standa þó að þeir væru dýrir, fékk rétt rúmlega 100 gr fyrir 9 dollara, og keypti.
Steikti sveppina á pönnu í gærkveldi, kryddaði þá með salti og pipar og ýrði smá sherryi yfir.
Herramannsmatur. Afar ljúffengir og ákveðið bragð, þó að það sé frekar milt.
Fór svo í dag að leita mér frekari heimilda um sveppi þessa. Komst þá að því að ekki er um sveppi að ræða, heldur sýkil (eða hvaða orð á hér vel við) sem leggst á sveppi og breytir litarhafti þeirra, gerir þá líka humri í útlit (rauða að utan og hvíta innvið).
En meindýr, sýklar eða eitthvað annað, ég kvarta ekki þar sem bragðið var gott og sveppirnir fóru vel í maga.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Eins gott að þú lifðir þetta af.
En hvað er svo ekki leggjandi á sig fyrir góða máltíð ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.8.2009 kl. 23:12
Jamm, það er ýmislegt leggjandi á sig fyrir góða máltíð. Og auðvitað á fórnfýsi mín sér fá takmörk, að ég skuli vera reiðubúin til að fórna mér til að bragða á þessum sveppum, í algerri óvissu.
En nú ætti öllum að þeim sem rekast á dýrðina að vera óhætt.
En þó að þeir séu góðir þá jafnast þeir ekki á við Íslenska humarinn, en tveimur hölum af þeim ættstofni skolaði á fjörur mínar nýlega. Þeir vöktu sannarlega upp góðar minningar.
G. Tómas Gunnarsson, 15.8.2009 kl. 23:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.