Eru allir jafnir fyrir stjórnvöldum?

Viðbrögð meðlima ríkisstjórnarinnar víð birtingu upplýsinga úr lánabók Kaupþings hafa verið nokkuð fyrirsjáanleg.

Reiði almennings er augljós og því eru viðbrögð ráðherra á einn veg, þeir telja að vissulega vegi hagsmunir almennings þyngra en hagsmunir bankans eða lántakenda.

Ekki ætla ég að setja mig upp á móti þeim skoðunum ráðherrana, það má færa rök fyrir því að þessar upplýsingar eigi að koma upp á yfirborðið, nú þegar almenningur á Íslandi er að súpa seyðið af þeim ákvörðunum sem teknar voru í bönkunum.

En má þá ekki treysta því að stjórnvöld beiti sér fyrir því af alefli að sambærilegar upplýsingar úr lánabókum Glitnis og Landsbankans verði gerðar aðgengilegar fyrir almenning?

Þar er um að ræða ekki minni hagsmuni fyrir almenning, og þar sem um er að ræða um fyrirtæki í eigu ríkisins (almennings) ætti að vera hæg heimatökin fyrir ríkisstjórnina að beita sér í málinu.

Megum við ekki eiga von á frumvarpi á Alþingi sem gerir bönkunum það skylt að birta þessar upplýsingar frá Glitni og Landsbankanum?

Líklega ekki, eða hvað?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það voru ekki stjórnvöld sem birtu þessar upplýsingar heldur fjölmiðlar og einhverjir góðviljaðir "lekendur". En núna er alveg ljóst að í rauninni hefur bankaleynd verið aflétt á Íslandi, með vilja stjórnvalda. Það sem þau þurfa að gera er það sem Finnur Sveinbjörns fór fram á, að setja skrifaðar reglur um bankaleynd. En sjálf birting gagna úr bönkunum heyrir ekki undir stjórnvöld heldur fjölmiðla, sem eru jú sjálfstætt afl í samfélaginu, ekki satt? Vonandi eru fleiri miðlar en RÚV orðnir sjálfstæðir með gjaldþroti auðmannastéttarinnar sem átti þá alla nema RÚV.

Kristján G. Arngrímsson, 5.8.2009 kl. 07:27

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það var auðvitað "lekandinn" sem kemur málinu af stað og Wikileaks er "fjölmiðillinn" sem birtir og hefur sömuleiðis kjarkinn til að segja nei, þegar farið er fram á að gögnin séu "hulin" aftur.

En það sem ég er að meina, er að ef ríkisstjórnin (og ráðherrarnir) er samkvæm sjálfri sér, hlýtur hún að telja að sambærileg gögn frá Landsbanka og Glitni eigi jafn mikið erindi til almennings.  Það hlýtur því að vera næsta skref að leggja fram ríkisstjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um bankaleynd sem skyldar slíka birtingu.

En áttu von á því að slíkt frumvarp komi fram Kristján?

P.S.  Stjórnvöld geta auðvitað birt gögn, og gera það t.d. á island.is.

G. Tómas Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 12:22

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Nei, við getum engu treyst þegar stjórnvöld eru annars vegar.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 5.8.2009 kl. 15:22

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég veit ekki hvort svona frumvarp verður lagt fram. Gylfi segir að það sé verið að endurskoða þessa hluti.

En ég átta mig ekki alveg á því hvað er svona grunsamlegt við þetta. Áttu við að ríkisstjórninni hafi verið sérstaklega í nöp við Kaupþing eða eigi eitthvað undir því að enginn lekaliði verði í Glitni og Landsbanka?

Ég fatta ekki samsæriskenningartóninn í þessu.

Kristján G. Arngrímsson, 5.8.2009 kl. 19:11

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er engin samsæriskenning í þessu, né því haldið fram að ríkisstjórninni hafi verið sérstaklega í nöp við Kaupþing.

En ef ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að gögnin frá Kaupþingi hafi átt erindi við almenning, þá hlýtur hún að vera þeirrar skoðunar að sambærileg gögn frá Landsbanka og Glitni eigi það ekki síður.

Stjórnmálamenn (og ekki síst ráðherrar) eru í þeirri stöðu að þeir gætu lagt fram lagabreytingar í þá átt að þessi gögn yrðu birt.  Ég á þó ekki von á því að það verði gert.

Það verður nefnilega ekki horft fram hjá því að lekinn á Kaupþingsgögnunum er lögbrot.  Það skiptir í raun engu máli hvort að menn telji að þau eigi erindi við almenning eður ei, það breytir ekki lögunum, en það getur Alþingi gert.

Spurningin hlýtur því að vera sú hvort að ríkisstjórn (sem styðst jú við meirihluta á Alþingi) hefur í hyggju að leggja fram frumvarp sem tryggir birtingu gagna sem erindi á við almenning, eða hvort að hún hyggist treysta á að lögbrjótar komi þeim áleiðis?

G. Tómas Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband