25.7.2009 | 15:26
Á markaði
Á fimmtudaginn fór Bjórárfjölskyldan á markað. Það var haldið til St. Jacobs, lítils bæjar sem í er u.þ.b. í klukkutíma akstursfjarlægð frá Toronto.
Markmiðið var að kaupa "Sumarpylsur", grænmeti, ávexti og eitt og annað sem væri á boðstólum. Þetta er rótgróinn markaður, bæði innandyra í veglegum húsum og utandyra. Það sem setur ef til vill mestan svip á markaðinn eru mennónítarnir, sem þarna koma og selja framleiðslu sína. Margir þeirra rækta enn allt sitt með "gamla laginu" og koma þá nýtísku ræktunaraðferðir eða bensínknúnar dráttarvélar ekkert við sögu. En þeir eru eins og margir aðrir trúflokkar mismunandi "harðir", eða "réttrúaðir" og sumir skera sig ekki frá fjöldanum.
En það er ekki hægt að neita því að afurðir þeirra eru yfirleitt í háum gæðaflokki og vel þess virði að borga ofurlítið hærra verð fyrir þær. Bragðgóðar og ekkert "rusl" í þeim.
En fjölskyldan kom heim með 3. stórar "sumarpylsur, kirsuber, plómur, grænar baunir, mikið af hvítlauk, rauðrófur, hlynsýróp og eitthvað annað smávegis.
Síðan var haldið inn í bæinn sjálfan og rölt um og fengið sér kaffi og meððí.
Í bænum næsta nágrenni setja hestvagnar mennónítanna sérstakan og skemmtilegan blæ á umferðina. Flestir þeirra eru yfirbyggðir kassalaga vagnar, en "hefðbundnari" útgáfur sjást einnig.
Set inn hér nokkrar myndir frá markaðnum.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.