18.12.2006 | 05:27
Meira af fátæktarútreikningum
Ég hef fengið sendar frá vinum og kunningjum ýmsar athugasemdir um fátæktarumræðuna sem átt hefur sér stað á Íslandi undanfarið.
Auðvitað sýnist sitt hverjum, en það er mörgum athugasemdum sammerkt að mönnum finnst ekki hafa verið skýrt nægilega frá aðferðafræði og tölulegum upplýsingum, eins og ég vék aðeins að í færslu hér fyrir nokkrum dögum.
En margir hafa líka minnst á það að það sé ekki óeðlilegt að stór hópur þeirra barna sem búi við fátækt samkvæmt skýrslunni séu börn einstæðra foreldra.
Þó að það komi hvergi skýrt fram í fréttum þá hljóti að vera miðað við fjölskyldutekjur, og það geti ekki talist óeðlilegt að þær séu verulega lægri hjá einstæðum foreldrum, og í raun erfitt að sjá það fyrir sér að þær geti að öllu jöfnu verið jafn háar og hjá hjónum.
Það má ímynda sér að miðgildisfjölskyldutekjur í skýrslunni hafi verið 300.000 kr (bara skot út í loftið hjá mér). Fátæktarmörk væru þá 150.000 kr. Tökum dæmi af hjónum með 2. börn. Bæði vinna úti og hafa 120.000 kr. í mánaðartekjur, þannig að fjölskyldutekjur væru þá 240.000 og fjölskyldan því vel yfir fátæktarmörkum.
Síðan kemur til hjónaskilnaðar. Allt er leyst í sátt og samlyndi og hjónin hafa sameiginlegt forræði og hafa sitt barnið hvort í heimili. Tekjurnar hafa ekkert aukist og því eru 120.000 sem eru fjölskyldutekjur hvors um sig komnar undir fátæktarmörk.
Vissulega hleypur hið opinbera eitthvað undir bagga, en það er ekki skrýtið að einstæðir foreldrar komi gjarna illa út í útreikningum sem þessum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.