Gamlir leiðtogar, gamlar aðferðir

Það hefa engir núverandi þingmenn setið lengur á Alþingi en leiðtogar núverandi ríkistjórnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Þangað til þeirra frami jókst nú í ársbyrjun, hafði frægðarsól þeirra líklega risið hvað hæst á níunda áratugnum.  Það þarf því varla að koma neinum á óvart að aðgerðir þær sem ríkisstjórn undir þeirra leiðsögn séu gamalkunnugar.  Hækkun álagna á bíla, bensín, áfengi og tóbak ætti ekki að koma neinum á óvart.

Þetta er gamalkunnug aðgerð Íslenskra stjórnmálamanna, varla getur neinn verið á móti því að hækka verð á áfengi og tóbaki.  Enginn ætti jú að reykja og áfengi er sömuleiðis varningur sem fáir kjósa að mæla bót.

Hvað er heldur á móti því að hækka verð á bílum og bensíni?  Eru almenningssamgöngur ekki fullgóður kostur og reyndar baráttumál vinstri manna að sem flestir þurfi að nota þær.

Skítt með það þó að þessar sömu aðgerðir auki verðbólgu og hækki höfuðstól lána.  Það ætti ennfrekar að hvetja almenning til að hætta að reykja og nota almenningssamgöngur þegar hann hefur minna á milli handanna.

Reyndar er vafamál hversu mikið þessar aðgerðir munu koma til með að skila í ríkiskassann.  Neysla áfengis mun líklega dragast saman og heimabrugg sem og neysla annara vímefna aukast, verðsamanburður verður þeim nú enn frekar í hag.

Það er erfiðara að skera niður bensínnotkun, en þó ekki að efa að margir munu reyna það eftir bestu getu.

En eftir mun standa hækkunin á lánskjaravísitölunni, hún mun fylgja almenningi um ókomin ár.

Gamlir leiðtogar eru ólíklegir til að koma með nýjar og ferskar lausnir.  Gamlir félagsmálaráðherrar kjósa frekar skattahækkanir en niðurskurð.  Gamlir (og nýir) sósíalistar eru líklegri til að auka ríkisafskipti (og beina og óbeina skatta) en að draga úr þeim.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jóhönnu og Steingrími gengur í niðurskurðinum.

 


mbl.is Mjög óvinsælar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Fyrir þetta vor hefur frægðarsól Jóhönnu væntanlega risið hæst þegar hún sagði sig úr Viðeyjarstjórninni og Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka 1994-5 og frægðarsól Steingríms væntanlega um aldarmótin þegar hann stofnaði VG og leiddi flokkinn í sínum fyrstu kosningum. Hvorugur atburðurinn er á níunda áratuginum.

Hvað varðar vörugjöldin að þá held ég að það snúast ekki síst um að minnka innflutning til að geta staðið undir afborgunum á erlendum lánum. Það er varla til jafn nútímalegt vandamál en að reyna að koma í veg fyrir greiðsluþrot íslenska þjóðarbúsins og þó þetta muni kannski ekki skila miklum ríkissjóðstekjum mun þetta alveg áreiðanlega skila auknum vöruskiptajöfnuði. Ég hef reyndar engan trú á að slíkt sé hægt enda skuldir áttfaldar útflutningstekjur en það er nokkuð víst að það er einkaneysluna sem þarf að skera niður ef á að minnka innflutning því mest af gjöldum ríkisins eru hér innanlands.

Héðinn Björnsson, 29.5.2009 kl. 18:50

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Auðvitað er það ætíð umdeilanlegt hvenær frægðarsól einstaklings hefur skinið skærast.  En Þjóðvaki Jóhönnu skilaði engu, nema ef til vill veikingu Alþýðuflokksins, valdi til Framsóknarflokksins.  Ef til vill lagði þó klofningur Alþýðuflokksins grunninn að tilurð Samfylkingarinnar.  En þetta voru langt í frá bestu ár Jóhönnu, og að mínu mati var stjarna hennar skærari sem ráðherra á níunda áratugnum (þó að þar hafi hún komið á félagslegu íbúðakerfi sem sveitarfélög eru enn að súpa seyðið af).

Það sama gildir um Steingrím að mínu mati. Þó hann hafi orðið formaður VG (upphefð sem Alþýðubandalagið neitaði honum um) þá skein sól hans skærar sem ráðherra á 9. áratugnum, enda áhrif VG ekki mikil (að R-listanum frátöldum) fyrr en nú.

En það er jafnvel enn mikilvægara að skera niður útgjöld hins opinbera en einkaneyslu, enda útgjöld ríkisins fáranlega bólgin eftir góðærið.  Þar verður enda hinn stóri hluti þess að útgjöld og tekjur ríkisins fari saman að koma.

Tekjurnar af þessum skattahækkunum eru  eins og dropi í hafið.  Enda verður helsta afleiðing þeirra hærri skuldsetning heimilanna, ekki tekjuaukning ríkissjóðs.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2009 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband