Líklega koma þeir á langskipum - Líðst forsætisráðherra að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt?

Ég var að lesa hér á blog.is, áhyggjur manna (Sjá Andrés og Stefán) yfir því að Norðmenn eða Danir komi á einhvern hátt að vörnum Íslands.

Þó að ég geti vissulega tekið undir að þetta sé ekki óskastaðan, þá get ég heldur ekki skilið að við getum ekki átt samstarf við þessar þjóðir um varnarmál, það skaðar Íslendinga varla meira en það mikla samstarf sem við eigum við þessar þjóðir nú þegar. 

Persónulega sé ég ekki meiri ástæðu til þess að líta á Ísland sem fylki í Noregi, komi þeir að vörnum landsins, ekki frekar en ég leit á Ísland sem fylki í Bandaríkjunum á meðan þarlendur her sat í Keflavík.

En eins og Stefán kemur inn á þá eru vissulega sterk Norsk tengsl í Íslensku ríkisstjórninni, það sýnir ef til vill betur en nokkuð annað, hvað þessar þjóðir eru tengdar, og tel ég ekki ástæðu til að líta á það sem sérstaka vá, þó að tengsl ráðherra við Norðmenn séu í talin í færri ættliðum, en flestra annara Íslendinga.

Þó verðum við auðvitað að hafa auga með því að þeir byrji ekki að tala um Geir Haarde sem Norðmann, svona rétt eins og þeir hafa reynt að eigna sér Leif Eiríksson.

En þettar "flúttar" við svipað mál sem er komið upp hér í Kanada, nýr formaður Frjálslynda flokksins er nefnilega með útlendan ríkisborgararétt.  Hann er vissulega Kanadabúi, og hefur hérlenda ríkisfestu, enda fæddur hér og uppalinn, en hefur tvöfaldan ríkisborgararétt, hefur einnig Franskan ríkisborgararétt í gegnum móður sína.

Þetta þykir mörgum Kanadabúum ekki góð "latína", finnst ekki forsvaranlegt að maður sem er hreint ekki ólíklegt að verði forsætisráðherra í náinni framtíð, skuli hafa erlendan ríkisborgararétt.

Stephane Dion yrði þó langt í frá fyrsti forsætisráðherran í Kanada sem hefði tvöfaldan ríkisborgararétt, en hann yrði sá fyrsti sem hefði ríkisborgararétt í öðru landi en Kanada og Bretlandi.

Dion hefur sagt að hann ætli ekki að afsala sér franka ríkisborgararéttinum, þó með þeim fyrirvara að ef hann sjái að það fari að há flokknum á atkvæðaveiðum, þá láti hann undan.

En þetta má lesa á vef Globe and Mail.

Sitt sýnist hverjum um þetta og hefur þetta endurnýjað kraftinn í umræðunni um tvöfaldan ríkisborgararétt hér í Kanada, en mörgum þykir að honum sé útdeilt full frjálslega.

En þetta er eitthvað sem Íslendingar geta líka velt fyrir sér, því nú þegar tvöfaldur ríkisborgararéttur er leyfður fyrir Íslendinga, er þetta vissulega staða sem getur komið upp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband