6.12.2006 | 07:22
Innbyrðisbarátta ríkisapparata
Ef fram heldur sem horfir verður það svo í framtíðinni að nokkrir ríkireknir stjórnmálaflokkar berjast um hylli kjósenda á u.þ.b. 4ja ára fresti. Það skiptir engu máli hver vinnur á eða tapar, það eina sem verður öruggt er að kjósendur þurfa að borga fyrir herlegheitin, hvort sem þeir vilja eður ei.
Það hefur stundum verið haft að orði, að þegar allir stjórnmálaflokkar séu sammála um eitthvað mál, þá sé voðinn vís og næsta öruggt að það horfi ekki til framfara.
Mér þykir margt benda til að svo sé í þessu tilfelli.
Ég sé einfaldlega ekki rökin fyrir þessum breytingum. Það má vissulega segja að það horfi til framfara að opna bókhald stjórnmálaflokka, þó að deila megi um það eins og annað. Einnig má segja að það geti verið rétt að takmarka hámarksframlag hvers fyrirtækis eða einstaklings.
En það hljómar eiginlega sem hálfgert "overkill" að gera hvoru tveggja, því hver er skaðinn þó að framlagið sé hærra, ef að er allt upp á borðinu með opnu bókhaldi?
Er þá ekki allt í lagi að hver styðji stjórnmálaflokka með hverri þeirri upphæð sem hann kærir sig um, ef allir vita af því?
Persónulega finnst mér þetta allt lykta af því að stjórnmálaflokkarnir eru einfaldlega að sækja sér meira fé í ríkissjóð, og skylda sveitarfélög til að senda sér fé sömuleiðis.
Íslenskir stjórnmálaflokkar eru að verða ríkisrekin "aparöt". Sumir þeirra hirða ekki einu sinni um að rukka félagsgjöld lengur. Það hefur svo sést vel í prófkjörum, hvernig skipulag þeirra og félagaskrár eru orðnar, þar sem það þykir orðið gott ef 60% eða svo, félagsmanna nennir að mæta á kjörstað til að velja lista fyrir flokkinn sinn.
Flokkarnir eru hættir að höfða til almennings, það er líklega orðið erfiðara fyrir þá að sækja fé til fyrirtækja, enda vald þeirra yfir efnahagslífinu, ekki nema hjóm eitt miðað við hvað var, og þeir bregðast við með því að sækja sér meira fé í ríkissjóð.
Mikið hefur verið rætt um "Eftirlaunafrumvarpið" svokallaða, og ætla ég ekki að mæla því bót, en færri minnast á að um leið var sú breyting gerð að formenn flokkanna eru nú launaðir sérstaklega af ríkinu. Eins og það sé opinbert starf að vera formaður stjórnmálaflokks á Íslandi.
Auðvitað er það út í hött að almenningur greiði laun formanna stjórnmálaflokkanna. Ef flokkarnir vilja hafa formenn sína eða aðra menn í trúnaðarstöðum launaða eiga þeir að greiða það sjálfir, það er ekki eins og að almenningur velji formennina.
Ef kostirnir eru að leyfa óheft framlög til stjórnmálaflokkanna, eða að auka sífellt framlög rikisins til þeirra, þá vel ég óheft framlög.
Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna er ekki að mínu skapi.
Þeir sem telja svo mikla áhættu á því að hægt sé að kaupa kosningar og prófkjör, hafa augljóslega ekki talað við Ástþór Magnússon, Jakop Frímann Magnússon, eða aðra þá sem hafa í gegnum tíðina eytt stórum upphæðum í viðleitni við að ná kjöri, án árangurs.
Að halda því fram að hægt sé að "kaupa" kosningar er í raun vanvirða við kjósendur. En hitt er líka ljóst að þegar takmarkað er hvað má eyða, eykst vald þeirra sem t.d. velja viðmælendur í spjallþætti, taka viðtöl í fjölmiðlum og þar fram eftir götunum. Jafnræði er eftir sem áður ekki til staðar og verður líklega aldrei.
Þó að ég efist um að við sjáum miklar breytingar fyrir næstu kosningar, þá reikna ég með að þetta hafi til lengdar í för með sér breytingar á ásýnd kosningabaráttunnar. Þegar reglurnar breytast verður farið að leita nýrra leiða.
Auðveldasta leiðin til að sneiða hjá lögunum, er að fá einhvern til að dekka fyrir sig framlag. Það er velþekkt víða um heim, jafnvel svo að hver einasti starfsmaður fyrirtækja hefur styrkt ákveðna stjórnmálaflokka.
Ekki er ólíklegt að meira verði um að stofnuð verði samtök sem berjast fyrir ákveðnum málum, sem fyrir "algera tilviljun" henta sérstaklega ákveðnum stjórnmálaflokki. Ég get til dæmis séð fyrir mér "Samtök skattgreiðenda", nú eða samtök með eða á móti ESB auglýsa sérstaklega fyrir kosningar. Bændasamtökin gætu líka tekið upp á því að minna á sig. Möguleikarnir þarna eru endalausir.
Fyrirtæki gætu hæglega haft menn á launaskrá, sem störfuðu síðan sem "sjálfboðaliðar" hjá einhverjum flokknum.
Ekki er ólíklegt að bloggarar verði launaðir um lengri eða skemmri tíma, sömuleiðis grafískir hönnuðir sem búa til sniðugt grín um mótherjana. Þetta er ódýr og býsna árangursrík leið, sérstaklega til að ná til yngri kjósenda, en þeir fylgjast oft ekki svo með hefðbundnum fjölmiðlum, heldur sækja upplýsingar sínar á netið. Einnig gæti verið góð leið að styðja gerð "amatör stuttmynda" eða myndbúta.
Einnig er möguleiki á að borga laun útvarpsmanna og koma þeim fyrir hjá smærri útvarpsstöðvum, þannig má líklega hafa áhrif á val viðmælenda og þar fram eftir götunum.
Möguleikarnir eru endalausir til að "skauta" fram hjá lögunum og eiga eflaust margar góðar hugmyndir eftir að koma fram og verða notaðar.
Þó að vissulega megi segja að gegnsæi í fjármálum stjórnmálaflokkanna sé fagnaðarefni, þá er það mín trú að þegar til lengdar lætur sitji fátt annað eftir, en stóraukin ríkisframlög til stjórnmálaflokkanna og svo breyttir farvegir annars fjármagns.
En ef til vill er ég bara fullur af bölmóði. Ef til vill skellur hér á gullöld ríkisrekinna Hálsaskógsstjórnmálaflokka sem allir una glaðir við framlagi sitt frá hinu opinbera og lifa hamingjusamlega upp frá því.
Frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka lagt fram á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.