6.12.2006 | 05:51
Af kynjakvótum
Það er líklega best að byrja á því að segja að ég er ekki fylgjandi kynjakvótum. Ég get skilið þau rök sem eru færð fyrir þeim, en er einfaldlega ekki sammála þeim.
Einn af þeim stjórnmálaflokkum sem hafa sett reglur um kynjakvóta eru Vinstri grænir. Þeir héldu nú nýverið forval og virðist mér (ef ég reyni að setja mig í spor stuðningsmanna VG) þeir hafa valið nokkuð sterka samsetningu á lista, þó að ekki sé endilega um að ræða fólk sem ég myndi kjósa.
En svo að ég gagnrýni þennan kynjakvóta þeirra (þó að ég reikni ekki með því að VG taki mikið mark á mér) þá finnst mér skrýtið að kynjakvóti eigi eingöngu að gilda þegar það henti. Frambjóðendur lýsa því yfir að þeir vilji ekki færast upp vegna kynjakvóta eins og þetta sé eingöngu eitthvað sem grípa má til ef þurfa þykir. Sumir ganga svo langt að segja að til kynjakvóta eigi eingöngu að grípa til þegar þurfi að styrkja stöðu kvenna.
Ekki ætla ég að gagnrýna það, það verður hver flokkur að eiga við sig hvernig reglur þeir vilja hafa, hvort að ýta skuli undir annað kynið eður ei.
En hitt finnst mér ekki traustvekjandi fyrir neinn stjórnmálaflokk, ef að reglur um forval/prófkjör eða lista eru ekki virtar, heldur breytt til að fá þá niðurstöðu sem flokknum er þóknanleg.
Ef eingöngu á að nota kynjakvóta til að leiðrétta stöðu kvenna á listum flokksins, á að mæla svo fyrir í reglum. Að sjálfsögðu er eðlilegt að stjórnmálaflokkar setji sér mismunandi reglur, allt eftir hver markmið og tilgangur reglanna eiga að vera.
En reglur eiga að standa og gilda um alla, alltaf, þangað til réttar flokksstofnanir breyta þeim.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.