17.2.2009 | 19:06
Tímavél Samfylkingarinnar?
Það var hálf fyndið (sumir myndu líklega segja grátbroslegt) að fylgjast með Jóni Baldvini lýsa því yfir að hann myndi bjóða sig fram sem formann Samfylkingarinnar ef Ingibjörg viki ekki. Helst var á honum að skilja að hann vildi að Jóhanna tæki við forystunni.
Jón virðist telja að fyrst tími Jóhönnu er loksins kominn, hljóti hans að vera það sömuleiðis. Fyrst að Jóhanna hefur risið til æðstu metorða, hljóta hann að eiga að vera einhversstaðar þar líka.
Í engum hef ég heyrt sem er þeirrar skoðunar að Jón væri góður formaður flokksins, en þeir eru margir sem þætti það ekki afleitt að Ingibjörg viki fyrir Jóhönnu, enda hefur flokkurinn braggast mikið fylgislega eftir að Jóhanna tók við taumunum og Ingibjörg hvarf úr sviðsljósinu.
Slíkt fær óneitanlega marga til að hugsa að málum gæti hugsanlega verið betur skipað á annan veg, hvað formannsembættið varðar.
En nú þegar Ingibjörg hefur tekið af allan vafa um það að hún hugsi sér að stíga niður, og Jóhanna gefið það út að hún sækist ekki eftir formannsembættinu, verður fróðlegt að sjá hver næstu skref Jóns Baldvins verða.
Stendur hann við stóru orðin og fer í formannsframboð?
Hitt verður ekki síður fróðlegt að sjá hvernig Samfylkingin skipar fram sínu fólki í kosningunum? Verður Ingibjörg aðeins önnur fiðla undir styrkri forystu Jóhönnu?
Það hlýtur að vera freistandi fyrir flokkinn að reyna að keyra kosningabaráttuna á vinsældum Jóhönnu og því trausti sem almenningur ber til hennar, en hvoru tveggja virðist mun meira en Ingibjörg hefur.
Hinu hef ég svo heyrt fleygt fyrir að Jóhanna verði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, en dragi sig í hlé áður en næsta kjörtímabili lýkur, jafnvel snemma á kjörtímabilinu.
En þetta eru spennandi tímar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Einu sinni kom út bók sem bar þann eftirminnilega titil "Ætlar hann aldrei að þagna, karlskrattinn?" Mætti endurútgefa hana núna og hafa um Jón Baldvin. Er enginn endir á því hvað maðurinn þarf af athygli? Er enginn endir á því hvað maðurinn telur sig eiga skilið af athygli? Er enginn endir á því hvað maðurinn telur sig vera merkilegan?
Huh! - Alveg merkilegur þessi draugagangur í íslenskri pólitík. Er ekki nóg með að við sitjum uppi með DO, ætlar nú Jón B. að ganga aftur líka?
Kristján G. Arngrímsson, 17.2.2009 kl. 20:12
Já, Davíð domínerar vissulega í umræðunni á Íslandi, síðan má ekki gleyma Ólafi Ragnari, og nú þegar Jóhanna er orðinn forsætisráðherra er ef til vill ekki nema von að Jón Baldvin haldi að stjórnmálaforingjar frá síðustu öld séu að komast í tísku aftur.
Þetta er allt saman "skelfilega næntís".
G. Tómas Gunnarsson, 17.2.2009 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.