3.2.2009 | 05:28
Dagur 1. í lífi ríkisstjórnar
Það er dulítið skrýtið og hreint ekki traustvekjandi að fylgjast með nýrri ríkisstjórn stíga sín fyrstu skref. Ég get ekki gert að því að fá það á tilfinninguna að skrefin hafi verið tekin af meiri kappi en forsjá.
Horfði á Heilaga Jóhönnu í Kastljósinu og þótti ekki mikið til koma. Frasinn "við erum að skoða þetta" var alls ráðandi. Beðið um þolinmæði frá þjóðinni og ekki hægt að gera mikið á 80. dögum.
Eina loforðið er að skipta um stjórn í Seðlabankanum og vilja lækka vexti, en lofa að fara eftir samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (sem vill jú ekki lækka vexti). Í stuttu máli sagt, endurtekið efni.
Aðalkrafturinn fer að í koma embættismönnum í burtu, því plús það að reka seðlabankastjórana þurfti Heilög Jóhanna að koma ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu í burtu, alla vegna á meðan hún ræður þar ríkum. En þessi ráðuneytisstjóri var ráðinn af Jóni Baldvini að mig minnir og því líklega liðónýtur að mati Jóhönnu. En einhver myndi sjálfsagt spyrja hvað þessi gerningur kostar.
Ég get hins vegar vel skilið að Jóhanna vilji hafa með sér skelegga konu úr félagsmálaráðuneytinu (hér er auðvitað tilhlýðilegt að rifja upp að Ingibjörg Sólrún brást hin versta við þegar viðkomandi kona var skipuð ráðuneytisstjóri af Árna Magnússyni (það minnir mig alla vegna) vegna þess að hún var tekin fram yfir vinkonu hennar Helgu Jónsdóttur, og varð nokkur blaðaumfjöllun um það á sínum tíma).
En þessar "hreinsanir" Heilagrar Jóhönnu hljóta líka að vekja upp spurningar hvort að rétt sé að ráðherrar komi með meira starfslið með sér inn í ráðuneyti sem hverfi svo með þeim aftur, eða hvort núverandi fyrirkomulag sé betra. En það getur ekki gengið að embættismenn séu sendir í leyfi eða sérverkefni eftir geðþótta ráðherra. Slíkt er eiginlega ekki boðlegt og ber sterkan keim af misbeitingu valds.
Ögmundur gekk þó rösklega fram og gaf út reglugerð sem afnam komugjöld á spítala. Hvort sem menn eru sammála því eður ei, verður ekki á móti því mælt að hann setur sín stefnumál óhræddur fram og er það vel.
Það ferskasta við hina nýju ríkisstjórn er að mínu mati skipan Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hún heldur á málum.
En svo voru misvísandi yfirlýsingar stjórnarliða í stóriðjumálum og eins hvað varðar hvalveiðar ekki til þess fallnar að auka á henni traustið, en gefa fyrirheit um "spennandi tíma".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.