Bestu fréttir dagsins

Sem betur fer koma líka góðar fréttir þessa dagana, meðfylgjandi frétt er tvímælalaust besta fréttin sem ég hef lesið undanfarna daga.

Góður meirihluti Íslendinga er þeirrar skoðunar að ekki sé ástæða til að sækja um aðild að "Sambandinu".  Aðeins í einum stjórnmálaflokki er meirihluti fyrir "Sambandsaðild".  Eingöngu í Samfylkingunni nýtur "Sambandið" meirihlutastuðnings.

Þetta sýnir að fylgið við aðild hefur minnkað þegar umræðan hefur aukist líkt og gerst hefur undanfarnar vikur.

Reyndar var það eftirtektarvert að þegar umræðan jókst, fannst mörgum nóg um og fannst hún of fyrirferðarmikil.

En þessi niðurstaða nú, sýnir sömuleiðis að það er óþarfi að hlaupa til í óðagoti þó að eitthvert málefni njóti fylgis meirihluta í skoðanakönnunum.

Þetta er líka þörf áminning til þeirra sem vildu keyra aðildarumsókn í "Sambandið" með offorsi í kjölfar efnahagshrunsins.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með, ef þessar niðurstöður koma úr fleiri könnunum, hvort að Samfylkingin fer með "Sambandsaðild" sem sitt meginmál í komandi kosningum.

 

 

 

 


mbl.is Meirihluti vill ekki aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tommi minn, þú ert með "Sambandið" á heilanum. Þetta er ekki gott fyrir þig. Sérstaklega ekki núna, þegar einsýnt er orðið að við förum þangað inn.

Segðu mér annað, hvað útskýrir ofurvald Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum? Nú sprakk þessi stjórn útaf honum. Geir stefndi frekar þjóðinni í stjórnarkreppu en að reka Davíð.

Þetta bendir til að það sé rétt sem sagt var í gær, að Davíð haldi Sjálfstæðisflokknum í gíslingu, og að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki eiginlegur stjórnmálaflokkur heldur hagsmunabandalag, soldið eins og Frímúrarareglan. 

Kristján G. Arngrímsson, 27.1.2009 kl. 11:59

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eftir á að hyggja skiptir þetta með Davíð kannski ekki máli - nema svona sem sögulegt rannsóknarefni, því að bæði hann og Sjálfstæðisflokkurinn munu nú brátt heyra sögunni til.

Þ.e., það er ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn lifi af í núverandi mynd næstu kosningar. Rifjaðu upp hvernig fór fyrir Framfarasinnaða íhaldsflokknum í Kanada í kosningunum 93. Hann bar þess aldrei bætur og dó.

(Reyndar gæti svo farið að það verði einmitt Davíð sem drepur flokkinn sinn endanlega með því að fara í sérframboð með Styrmi og öðrum þjóðernissinnuðum ESB-andstæðingum).

Kristján G. Arngrímsson, 27.1.2009 kl. 12:36

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að "Sambandið" sitji faster á heilaberki margra en mín, Kristján minn.  Þó ekki fastar en Davíð situr í sellum ykkar vinstri manna, enda sést best hér að ofan hvernig gripið er til hans í rökræðum um alls óskyld málefni, þegar þið nálgist þrotið.  En Davíð er einn af þessum karakterum sem hefði þurft að finna upp, hefði hann ekki verið til, slíkan ægishjálm ber hann yfir alla aðra í Íslenskri umræðu, bæði í jákvæða og neikvæða átt.

Þegar þú segir að einsýnt sé að Ísland stefni inn í "Sambandið", þá get ég ekki sagt annað en, mikil er trú þín.

Skoðankönnunin sem fréttir birta nú sýnir ekki stuðning við aðildarumsókn, stuðningurinn þvarr með vaxandi umræðu.  Ég tel því sem næst engar líkur á því að aðildarumsókn njóti stuðnings á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, líkurnar á því að Styrmir og Davíð (eða einhverjir aðrir) fari í sérframboð gegn "Sambandsaðild" eru því hverfandi.

Í engum flokki nema Samfylkingunni er meirihluti fyrir því að sækja um aðild.

Ég er farinn að hallast að því að Sjálfstæðisflokkurinn komi ágætlega út úr næstu kosningum, mun betur en ég var farinn að óttast.

Velgengni hans mun sú ríkisstjórn sem nú er í burðarliðnum tryggja.

Ætli ég fari ekki að draga gamla slagorðið fram úr pússinu:  Aldrei aftur vinstristjórn!

G. Tómas Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 15:25

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta með Davíð er alvarlegt mál fyrir flokkinn. Hann er eins og kyrkingstré (þau eru í rauninni til!) á flokknum núna. Karluglan. Ég heyrði um daginn mann sem þekkir til segja fullum fetum að Davíð væri veikur, andlega þ.e. Times segir í dag að hann sé verst þokkaði maður á Íslandi núna. Karlgreyið.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn bíði stórfellt afhroð í kosningum, sérstaklega ef þær verða haldnar áður en finnst einhver leiðtogi í flokkinn. Allt stefnir núna í Bjarna Ben., sem væri sjálfsagt ágætt. Eða Þorgerði, sem væri líka fínt.

En stærsti gallinn er ofvöxturinn sem hlaupinn er í VG, en ef Heilög Jóhanna verður forsætisráðherra, og svo formaður Samfylkingar, held ég að Samfylkingin muni vinna svo stóran sigur í kosningunum að annað eins hafi ekki gerst hér í áratugi. 

Kristján G. Arngrímsson, 27.1.2009 kl. 18:03

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að þú og margir aðrir ofmeti Jóhönnu verulega og þann kosningasigur sem Samfylking komi til með að vinna í vor.

Því miður hef ég ekki mikla trú á þeirri ríkisstjórn sem nú er í burðarliðnum, því  miður vegna þess að nú ríður á.  Ég hef meira að segja trú á því að hún verði umtalsvert slakari en sú sem nú er að fara frá. Það þarf umtalsvert til. Íslendingar fara líklega úr öskunni í  eldinn.

G. Tómas Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 19:02

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Við erum í eldinum.

Það sem gæti batnað með þessari stjórn er mórallinn í landinu. Jóhanna nýtur trausts, hún þykir heiðarleg og blátt áfram. Aðrir pólitíkusar, sérstaklega Geir og dýralæknirinn, eru samkvæmt skoðanakönnunum taldir til tómra trafala. Þessi fjármálaráðherra hefur náttúrulega bara verið brandari.

Stjórn efnahagsmála verður áfram, eins og verið hefur undanfarið, í höndum IMF, sem betur fer. Efnahagshlutverk ríkisstjórnarinnar núna er ekki annað en að framfylgja stefnu IMF, og þá skiptir engu hver er í stjórninni.

Þannig að lítið mun svosem breytast í efnahagsstefnunni, bæði Samfylking og VG hafa lýst því yfir að þau muni halda áfram að framfylgja stefnunni sem IMF hefur sett, nema Steingrímur Joð ætlar að ámálga að fá að lækka vexti.

Kristján G. Arngrímsson, 27.1.2009 kl. 20:17

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég hefði gaman af því að heyra þínar skoðanir á því hvað hefur gert fjármálaráðherrann að brandara.  Þó að ég hafi reyndar ekki verið par ánægður með stjórn ríkisfjármála, þá grunar mig að það kunni að vera af öðrum ástæðum heldur en þín óánægja stafar.

Hvað finnst þér helst að dýralækninum hafi mistekist við fjármálastjórnunina á undanförnum árum?

Steingrímur sagði fyrir örfáum dögum að hann vildi skila lánum til IMF og kveðja þá, það var ekki hægt að skilja það öðruvísi, en vissulega mildast menn við ráðherrastól, stundum kemur jafnvel í þá smá skynsemi.

Jóhanna hefur verið eyðslukló, og fólki líður oft ágætlega í návíst eyðsluklóa, ef það áttar sig ekki á því að það þarf að borga brúsann.

Ég hygg að mesti glansinn fari af Jóhönnu, ef hún þarf að fara að skera niður.  Ég hef reyndar mesta trú á því að hún ætli að hætta fyrir næstu kosningar, þess vegna er sátt um hana sem forsætisráðherra, en völdin gætu vissulega reynst henni vítamínsprauta.

G. Tómas Gunnarsson, 27.1.2009 kl. 20:53

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Af hverju sosum að þrasa um þetta. Staðreyndir málsins liggja grjótharðar fyrir: Sjálfstæðisflokkurinn var á vaktinni undanfarna áratugi og á þessari vakt hrundi efnahagslífið.

Eiginlega er málið ekkert flóknara. Menn sem geta ekki horfst í augu við það að þeir voru á vaktinni þegar allt fór í steik eru hrokafullir í meira lagi. En það hefur jú löngum einkennt forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Ætli sé til stærra egó en Davíð Oddsson? Menn sem líta svo á, að þeir sjálfir GETI EKKI gert neitt rangt, þannig að ef eitthvað fer úrskeiðis þá HLÝTUR það að vera öðrum að kenna.

Páll Skúlason komst svo að orði um daginn að landráð af gáleysi væri engu að síður landráð, og það er málið. Af hverju eru menn að rembast við að þræta fyrir þegar staðreyndir málsins eru eins einfaldar og hægt er að hugsa sér:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft með höndum "verkstjórn" eins og það heitir víst núna, þ.e. hafa haft forsætisráðuneytið, undanfarna áratugi, og á þessum sama tíma fór allt í klessu.

Hvað er svona flókið við þetta?

Og hvað er hægt að loka augunum fast fyrir staðreyndum?

Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 15:00

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það var fjármálaráðherrann sem skildi ekki hvað Alistair Darling var að tala um þegar þeir ræddust við í símann og svaraði þar af leiðandi tómri tjöru, og þar af leiðandi hélt Darling að Íslendingar myndu ekki borga neitt útaf IceSave.

Það var svo neyðarlegt að hlusta á upptökuna af samtali þeirra að maður fór hjá sér. Af hverju kvaddi Árni ekki til túlk úr því að hann er ekki betri í ensku en þetta?

Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 15:04

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tína má til eina staðreyndina enn:

Kreppan stafar af ofboðslegu áfalli sem sú hugmyndafræði er Sjálfstæðsflokkurinn byggir á hefur orðið fyrir.

Er nema von að spurt sé í framhaldi af þessari staðreynd: Er ekki rétt að Sjálfstæðisflokkurinn víki svo koma megi að einhverri annarri hugsun?

Nei, ekki fannst Sjálfstæðismönnum það, amk. ekki forustumönnum flokksins. Kannski eru þeir ekki mjög skynsamir, bara valdagírugir.

Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 16:54

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er staðreynd sem vert er að hafa í huga að þó að staðan sé ekki björt í efnahagsmálum þjóðarinnar er það minnst Árna Matt að kenna, þó að hann beri vissulega hluta af ábyrgðinni eins og aðrir ráðherrar og stjórnmálamenn.

Efnahagsmálin/efnahagslífið heyra undir forsætisráðherra og viðskipskiptaráðherra sem er jú ráðherra bankamála.  Þessu er öðruvísi farið en í mörgum öðrum löndum þar sem bankarnir eru í "möppu" fjármálaráðherra.

Hvers vegna Darling var yfirleitt að tala við Árna, hef ég aldrei skilið til fullnustu, nema ef til vill að hann hafi viljað tala við "starfsheitisbróður" sinn, eða hreinlega ekki kært sig um að tala við Björgvin, sem hafði jú fundað með honum u.þ.b. mánuði áður.

En það er alger firra að ætla að skrifa viðbrögð Breta á Árna.

Árni ber hins vegar ábyrgð á ríkisfjármálum og þau voru í ágætis standi fyrir hrun og ekki á þeim nein óreiða.

Hins vegar var með skipulegum hætti reynt að gera Árna tortryggilegan, enda lá hann ágætlega við höggi og þannig reynt að færa ábyrgðina að hluta frá bankamálaráðherranum.  Þetta sást greinilega t.d. í sumum fjölmiðlum sem hafa dálæti á Björgvini.

Hugmyndafræði sú sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í sjálfu sér ekki beðið gríðarlegan hnekki, það er ein sú firra sem er endurtekin aftur og aftur.  Enda byggir Íslensk fjármálalöggjöf á löggjöf "Sambandsins" og er ekki stórlega frábrugðin löggjöfum í öðrum ríkjum.

Hvaða hugmyndafræði brást þegar bankahrun varð í Svíþjóð og Finnlandi seint á síðustu öld?

G. Tómas Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 18:43

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já þetta er sumsé allt einhverjum öðrum að kenna, ekki satt? Ef maður er Sjálfstæðismaður getur maður ekki hafa gert mistök, mistökin hljóta að hafa verið "Sambandinu" að kenna eða í rauninni Samfylkingunni.

Nei, þetta er nauðaeinfalt. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að skíta á sig og átti að drífa sig á klósettið að skeina sér. Það var vond lykt af honum, fólki til ama. En hann fór ekki fyrr en "konan hans" rak hann þangað með hótunum, og svo hreinlega neyddi hann til að fara með því að setja honum afarkosti sem hann gat alls ekki gengið að.

Það var reyndar grátbroslegt að eftir allt talið um að öllu skipti að sinna björgunaraðgerðum skyldi það sem í raun og veru skipti mestu vera vegtyllan, forsætisráðuneytið. Sýndi hvað forystufólk bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er hégómlegt inn við beinið og sjálfhverft. Fullkomlega ömurlegt, en um leið alveg dæmigert fyrir pólitíkina hérna.

Þessi ömurlega framkoma pólitíkusa er alltaf réttlætt af undirsátum þeirra (sem þora ekki að móðga leiðtogana) með því að þetta sé nú bara svona í pólitíkinni. En það er ekki rétt. það er alls ekki sjálfgefið að til forystu veljist hégómagjarnir og sjálfhverfir einstaklingar eins og Ingibjörg og Geir (að ekki sé nú minnst á DO!)

(Loksins núna sem hugsanlega verður hægt að kjósa Samfylkinguna þegar Ingibjörg hættir sem formaður).

Ég veit ekki með Svíþjóð, en varð ekki kreppan í Finnlandi þegar Sovétið hrundi?

Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 19:53

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er nú óþarfi að fara niður á saurstigið þó að þér sé mikið niðri fyrir.

En bentu þá á hvar ábyrgð Árna liggur í efnhagsmálunum og hvað reginmistök hann gerði þar.

Eins og ég sagði er það fyrst og fremst forsætisráðherra (Sjálfstæðimaður) og viðskiptaráðherra (Samfylkingarmaður) sem bera ábyrgð á efnahags/viðskiptamálum.  Þar ber Sjálfstæðisflokkurinn vissulega ábyrgð, en hún liggur ekkert hjá Árna Matt.

Bankakreppan í Finnlandi kom til vegna útlánaaukningar fyrst og fremst, og það sem meira var, stór hluti útlánanna var í erlendum gjaldeyri (hljómar kunnuglega ekki satt), síðan kom hrun Sovétsins í kjölfarið og þess vegna varð kreppan í Finnlandi alvarlegri en í Svíþjóð.

Í Svíþjóð fóru stýrivextir í 500%, og ríkið þurfti að koma inn í bankana.  Var það vegna hruns hins "sósíalíska" kerfi sem ríkt hafði í Svíþjóð?

En í hverju fólst frjálshyggjan á Íslandi?  Að ríkið tók til sín yfir 40% af þjóðartekjum?

G. Tómas Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 21:04

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei frjálshyggjan á Íslandi fólst í því að einkavæða til að einkavæða, hvað sem það kostaði. Af því að Davíð ákvað að það skyldi gert. Það hefur líklega verið gert á skjön við reglugerðir frá ESB, því að þær heimiluðu ekki svona einkavinavæðingu eins og fram fór á bönkunum.

Valgerður Sverris hefur gengist við því að einkavæð'ingin á bönkunum, þegar hún var ráðherra þeirra, hafi ekki verið eins og hún hefði átt að vera. Sennilega skorti mannskapinn fullan skilning á ESB-reglugerð'unum til að geta fylgt þeim. (Ætli Árni Matt hafi ekki þýtt þær úr ensku!)

Það er líklegt að bankaeinkavæðingin og opnun fjármálakerfisins hafi í rauninni byggst jafn mikið á misskilningi á ESB-reglum og því að farið væri eftir þeim. En án gamans: Auðvitað hét þetta að farið væri að utanaðkomandi reglum, en heldurðu virkilega að hafi verið farið eftir þeim í einu og öllu? Onei, það sem ekki hentaði hefur bara verið látið gleymast eða verið misskilið viljandi.

Hver átti að hafa eftirlit með því að farið væri að reglunum í einu og öllu? FME? Jónas Fr? Líklega, og einmitt þess vegna var hann þar og FME eins og það var. Til að hægt væri að segja að til væri fjármálaeftirlit sem sæi um að allt færi eftir bókinni.

Sífellt fleira er að koma á daginn sem bendir til að svona hafi verið í pottinn búið, og gleggsta vísbendingin um það er sú staðreynd, að Sjallarnir ætluðu að hanga á fjósbitanum fram í rauðan dauðann. Þeim fannst nefnilega ekkert óeðlilegt við það hvernig hlutunum var háttað.

Sjálfstæðismönnum finnst nefnilega ekkert óeðlilegt nema það að þeir fái ekki að ráða. Að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki við völd er náttúrulega bara einhver misskilningur sem þarf að leiðrétta.

Kristján G. Arngrímsson, 28.1.2009 kl. 23:27

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Einkavæðingin var ágæt, þó að hún væri ekki hnökralaus.  Það er líka gríðarleg einföldun að kenna einkavæðingu bankanna um hrunið er síðar varð.  Það var enda sá banki sem ekki var "einkavæddur" sem leiddi hrunið, Glitnir.

Eftirlitið með þeim var annar handleggur.  Vissulega hlýtur þar að vera við Jónas að sakast, sömuleiðis stjórnarformanninn, Jón Sigurðsson, en þeir tveir hljóta að vera atkvæðamestir um mótun stefnu og vinnubragða undanfarin ár.

Þeir báðir koma til starfa á Íslandi eftir farsælan feril úti í Evrópu (þar sem allt er svo gott er það ekki?) og í raun ekki óeðlilegt að þeim sé traust til ábyrgðarverka á Íslandi.

Það er enda svo að þó að ástandið sé slæmt á Íslandi, er það ekkert einsdæmi.  Þau eru ekki mörg löndin í Evrópu sem ekki hafa þurft að leggja bankakerfinu til gríðarlegar upphæðir.  Þar hefur verið neinn munur sjáanlegur á, hvort að löndin hafi staðið fyrir einhverri frjálshyggju eður ei.  Sem er jú, eins og svo margt annað ofnotað og illa skilgreint hugtak.

G. Tómas Gunnarsson, 29.1.2009 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband