Að fella niður skuldir

Það er mikið rætt um niðurfellingu skulda á Íslandi þessa dagana.  Þeir eru enda margir þeirrar skoðunar að ekki verði hjá því komist að fella niður umtalsverðar skuldir sem hvíla á Íslenskum fyrirtækjum ef þau eiga að eiga möguleika til þess að lifa, hvað þá dafna.

Ég er sammála því að líklega verður ekki hjá því komist að bankarnir niðurfæri umtalsverðar skuldir, hjá því verður líklega ekki komist og eins og einhverntíma var sagt, það verður ekki kreist blóð úr steini.

En það skiptir meginmáli hvernig að þeirri niðurfærslu er staðið.

Í engu tilfelli á að niðurfæra skuldir nema annað komi í staðinn, s.s. hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki í fullu samræmi við þær upphæðir sem eru felldar niður og verðmat á viðkomandi fyrirtæki.

Ef skuldir hafa vaxið fyrirtækjunum yfir höfuð þá eignast bankarnir einfaldlega meirihluta í fyrirtækjunum eða hreinlega fyrirtækið allt eftir því hvernig staðan er.

Bankarnir verða síðan að ákveða hvort þeim er hagfeldara að reka fyrirtækin um einhvern tíma, eða selja þau strax.  Sjálfsagt er að hið opinbera setji tímaramma á hvað lengi fyrirtæki eða hlutabréf geti verið í eigu bankanna.

Söluferlið á að vera opið, allar eigur og öll hlutabréf eiga að vera auglýst, eða fyrirtækið skráð á markað.

Undir engum kringumstæðum eiga núverandi eigendur fyrirtækja að fá niðurfærðar skuldir án þess að tilkomi eignarhluti í staðinn.

Íslendingar þurfa ekki fleiri rauðsólir á loft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Það þarf enfaldlega að afskrifa skuldir hjá öllum.  Heimilin geta heldur ekki lifað þegar skuldirnar eru orðnar meiri en eignirnar. Verði gjaldþrotaleiðin farin mun verðmæti eigna hrynja langt niður fyrir eðlileg mörk.

Offari, 6.1.2009 kl. 20:59

2 identicon

Það var grein um gjaldþrotalög í USA / ESB í FT um daginn.  Chapter 11 í USA virðist gefa betri árangur ef marka má þessa grein.  Meiri möguleiki fyrir fólk og fyrirtæki að ná sér á strik þar heldur en í Evrópu.  Þetta þarf að fara í saumana á og finna hagstæðustu leiðina fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

itg (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 21:33

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Skuldir verða ekki að engu þó að þær séu færðar niður eða felldar niður.  Það lendir alltaf á einhverjum að borga þær.  Ef ríkisbankarnir fella niður skuldir í stórum stíl hjá fyrirtækjum eða einstaklingum, þá er aðeins ein leið til fá fé til þess, það er hjá skattgreiðendum.  Þess vegna er það áríðandi að fá eins mikil verðmæti við niðurfærslu og mögulegt er, t.d. með hlutabréfum.

Auðvitað er hægt að hjálpa einhverjum fyrirtækjum með greiðslustöðvun en það á ekki að beita niðurfærslu skulda, nema að hlutabréf eða sambærilegt komi í staðinn.  En greiðslustöðvun er því miður gjarna misnotuð á Íslandi, reynt að nýta hana til að selja bestu bitana til eigenda eða skyldra aðila.  Það þarf því að hafa gott eftirlit með slíku.

G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2009 kl. 23:55

4 identicon

Ef eitthvað heimili fær afskifaðar skuldir , vil ég það líka . þó ég sé "bara" með verðtryggð lán

jonas (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 00:03

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hver myndi ekki þiggja að fá niðurfelldar, eða niðurfærðar skuldir?  Þess vegna er það einmitt áríðandi að jafnræði og skýrir ferlar liggi að baki öllum slíkum gerningum.

Það er líka áríðandi að eigendum fyrirtækja séu ekki færðar "gjafir" með þessum hætti, heldur tekinn eignarhluti eða fyrirtækið allt fyrir skuldirnar.

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2009 kl. 00:53

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Hér er tilraun til að ávarpa lausn að vanda heimilana. Betri lausnir eru velkomnar.

Haraldur Baldursson, 7.1.2009 kl. 01:29

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þú gleymir einum pósti í þessu Tommi. Með neyðarlögunum hirti ríkið bankana og fleygði skuldunum í gjaldþrota dæmi sem ekki má blaka við. Það er ekki ætlun ríkisins að borga neitt af skuldum gömlu bankana og þær voru grunnur að skuldum fyrirtækja og heimila. Það er því eðlileg krafa að einstaklingar og fyrirtæki fái stórfellda niðurfærslu ef ríkið stendur ekki skil á neinum fjármunum til  erlendu bankanna sem lánuðu allt í upphafi.

Ef verið er að gera alla íslendinga að glæpamönnum í alþjóðasamfélaginu hlýtur að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu að fá að njóta glæpsins með þjófagenginu í ríkisstjórninni.

Haukur Nikulásson, 7.1.2009 kl. 08:03

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef ríkisbankarnir fella niður skuldir í stórum stíl hjá fyrirtækjum eða einstaklingum, þá er aðeins ein leið til fá fé til þess, það er hjá skattgreiðendum.

Nei, ekki endilega. Einstaklingar og fyrirtæki fara reglulega í gjaldþrot, þarf ekkert þjóðargjaldþrot til þess.

Ef vélsmiðja á útistandandi skuld hjá fiskvinnslu sem fer í gjaldþrot tapast þær kröfur og eru afskrifaðar. Vélsmiðjan fær hvorki greitt fyrir þá vinnu sem hún lagði í né aðkeypt efni, þjónustu né laun starfsmanna.

Ógreiddar skuldir fiskvinnslunnar verða tap vélsmiðjunnar.

Theódór Norðkvist, 7.1.2009 kl. 11:23

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Haukur:  Það er nú alltaf að koma betur og betur í ljós hvers virði eignir bankanna raunverulega eru.  Það er langt í frá að þær dugi til þess að borga skuldir þeirra.  IceSave dæmið er nú líklega það dæmi í þá átt sem fólk þekkir best.

Það er ljóst að lán/eignir gömlu bankanna verða niðurfærð með einum eða öðrum hætti, því tryggingar á bakvið þau eru svo langt frá því að stand undir þeim.  Það er hins vegar áríðandi að fá eins mikil verðmæti og hægt er fyrir þau.

Svo er ríkið heldur ekki búið að bíta úr nálinni, með hvað það gæti þurft að standa skil á til kröfuhafa í gömlu bankana, það fer líklega mest eftir því hvort að kröfuhafar telja það hafa staðið sómasamlega að málum og að greitt verði skynsamleg upphæð inn í "þrotabúin".

Theódór:  Hin ímyndaða vélsmiðja getur hugsanlega lifað af gjaldþrot einnar fiskvinnslu.  En ef kúnnarnir fara unnvörpum á hausinn og aðrir geta ekki borgað nema brot af skuldunum, fer hún auðvitað sömu leið.

Það er eins með bankana.  Það er reiknað inn í "módelið" að ákveðið greiðslufall verði.  Ef það hlutfall hækkar upp úr öllu valdi, þá fara bankarnir sömuleiðis á höfuðið.  Hvað gerist þá?  Ríkið kemur með framlag (eins og gerðist eftir fall Sambandsins á 10. áratugnum), hvert sækir það peningana?  Jú, til skattgreiðenda.

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2009 kl. 15:42

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mikið rétt, en ég var bara að árétta hvaða áhrif og á hverja gjaldþrot hefðu í smáum stíl eins og verið hefur þar til núna.

Aðalatriðið er að jafnræðis verði gætt við skuldaniðurfellingar, meðal þeirra sem eru í rekstri og ekki síður heimilanna. Ekki má heldur mismuna heimilum og atvinnufyrirtækjum.

Spurningin er líka hvernig hægt er að lágmarka tjónið og koma í veg fyrir algert hrun alls efnahagslífsins, sem eins og þú bendir á keðjuverkun gjaldþrota getur leitt af sér.

Theódór Norðkvist, 7.1.2009 kl. 16:34

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Keðjuverkun fjöldagjaldþrota er kannski réttara að segja.

Theódór Norðkvist, 7.1.2009 kl. 16:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband