Athyglivert af netinu. Kreppa í Taílandi, loðnan og CCP

Ég er alltaf að rekast á eitthvað athyglivert á netinu.  Sérstaklega eru það bloggarar sem oft vekja athygli á hinum aðskiljanlegust málum, bloggið er svo sannarlega síkvikur miðill.

Það sem m.a. hefur vakið athygli mína í dag er eftirfarandi:

Í athugasemd á vefsíðu var vísað til greinar eftir Þorvald Gylfason, í Lesbók Morgunblaðsins,  þar sem hann skrifaði um gott efnahagsástand í Taílandi og hve vel þeir hefðu haldið á sínum málum.  Þar má m.a. lesa:

Lífskjarabyltingin í Taílandi er engin tilviljun. Hún er árangur erfiðis. Hún er ávöxtur skynsamlegrar hagstjórnar og heilbrigðs hugarfars. Þrennt stendur upp úr; við skulum stikla á stóru. Taílendingum hefur í fyrsta lagi tekizt að halda verðbólgu í skefjum. Verðbólgan þar nam um 6% á ári að jafnaði frá 1965 til 1994 á móti 26% á ári hér heima til samanburðar. Tiltölulega stöðugt verðlag í Taílandi stuðlaði að mikilli og hagkvæmri fjárfestingu og um leið að örum hagvexti. Fjárfesting í Taílandi hefur meira en tvöfaldazt sem hlutfall af landsframleiðslu síðan 1965: hún jókst úr 19% af landsframleiðslu í 41% frá 1965 til 1994. Hér heima minnkaði fjárfesting hins vegar á sama tíma um næstum helming miðað við landsframleiðslu, eða úr 26% af landsframleiðslu árið 1965 niður í 15% árið 1994, auk þess sem gæðum fjármagnsins hrakaði, m.a. vegna of mikilla afskipta stjórnmálamanna af bönkum og sjóðum og annarra skaðlegra skipulagsbresta. Fjárfesting Taílendinga er að langmestu leyti á vegum einkafyrirtækja, sem hafa arð að leiðarljósi. Hagkvæmni og arður eru ekki blótsyrði þar austur frá.

Taílendingar hafa í annan stað gætt þess vel að haga gengisskráningu myntar sinnar svo, að útflutningur og innflutningur gætu blómstrað. Þannig hefur hlutfall útflutnings af landsframleiðslu hækkað úr 18% upp í 45% frá 1965 til 1994. Hér heima hefur útflutningshlutfallið hins vegar hangið nálægt þriðjungi allan þennan tíma. Það er óeðlilega lágt hlutfall í svo litlu landi.

Fáum mánuðum síðar hófst svo kreppa í Asíu, sem átti einmitt uptök sín í Taílandi, en um hana má lesa á Wikipediu.

Mér fannst líka athyglivert að lesa pínulítinn samanburð á "gamla" og "nýja" hagkerfinu á blogsíðu Kára Sölmundarsonar, á síðunni má lesa samanburð á gjaldeyristekjum frá loðnuveiðum og svo leikjafyrirtækinu CCP.  Ég hef heyrt á fleiri en einum stað að þetta tvennt megi leggja að jöfnu.

Kári kemst að annarri niðurstöðu, sem sé að loðnuveiðar skili u.þ.b. 4. sinnum meiri gjaldeyristekjum en CCP.  Með þessu er enginn að gera lítið úr frábærum árangri CCP, því vissulega má minna gagn gera heldur en að afla ríflega 2ja milljarða tekna.  Það er hins vegar áríðandi í umræðunni að umgengni um staðreyndir sé rétt og réttar tölur og samanburður sé lagður fram.

Þetta er vert að hafa í huga nú þegar krafa er um "Sambandsaðild" er hávær og haft er eftir "Sambandssinnum", að vissulega sé aðild skref afturábak fyrir sjávarútveginn, því neiti enginn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband