21.4.2006 | 03:03
Páskar næsta sunnudag! Paskashinkan er að verða klár.
Við foringinn fórum í heimsókn í dag. Líklega ekki í frásögur færandi. Veðrið var ljúft, rétt um 20 stig á cels. og sólin skein - þó ekki í heiði, enda landlægur skortur á fjöllum hér eins og ég hef minnst á áður.
En þetta var ljúft, gestgjafinn hafði hitað fisknagga í ofninum, en foringinn neitaði þó alfarið að láta þetta inn fyrir sínar varir, en tók þó gleði sína þegar húsbóndinn kom heim úr verslunarleiðangri og dró upp úr pússi sínu forláta pylsu og rétti drengnum.
En þegar við fórum út í garðinn kom nágrannakonan og vildi endilega gauka súkkulaðistykki að foringjanum. Honum leist nú ekki of vel á blikuna þannig að ég skarst í leikinn og og tók við súkkulaðistykkinu fyrir hans hönd og tók smá spjall við konuna.
Þetta var úkraínsk kona, nokkuð við aldur og þegar ég spurði hana hvers vegna hún væri að dreifa súkkuðlaðistykkjum til vandalausra, svaraði hún að hún hefði keypt mikið magn af þessu fyrir páskana og henni hefði litist svo vel á drenginn.
Þá kom auðvitað í ljós að páskar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar eru næsta sunnudag (það virðist sem sé ekki vera samkomulag á meðal kirknanna hvenær allt þetta gerðist). En það sem mér þótti þó gaman að heyra var hvað orðin sem hún notaði hljómuðu kunnuglega. Hún talaði um paska og þegar hún talaði um matinn sem hún ætlaði með til kirkju til að láta prelátann blessa, þá var meðal annars minnst á shinku (skrifað eftir hennar framburði), sem var auðvitað skinka.
Þannig virðist orðaforði okkar íslendinga og úkraínubúa skarast nokkuð, hvers vegna það er þori ég ekki að fullyrða, hvort um sé að ræða alþjóðleg orð, eða hvort vera víkinga í Kænugarði og nágrenni hefur skilið eitthvað varanlegt eftir í málinu, en þetta kom skemmtilega á óvart.
En upp í hugann kom, hvað þessi seinkun á dagatali þeirra rétttrúnaðafólks er þægileg fyrir þau og svo verslunarfólk, ekki eingöngu dreifir þetta versluninni yfir lengra tímabil, heldur gerir þetta rétttrúnaðarfólki oft kleyft að gera betri kaup, t.d. um jólin, þegar útsölur eru þegar byrjaðar þegar þeirra jól bresta á.
Síðan fórum við feðgar í verslunarleiðangur, keyptum nýtt skjákort og hitt og þetta í matinn. Úkraínska súkkulaðistykkið náði ég svo að fela þegar heim var komið og kemur það ekki meira við söguna, fyrr en síðar.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 03:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.