Hverju er kreppan að kenna?

Það er mikið rætt um orsakir fyrir kreppunni sem geysar þessa dagana á Íslandi (og vissulega víðar) og eirir fáu.  Sitt sýnist hverjum, en það er engin skortur á ástæðum sem nefndar eru.

Til sögunnar eru nefnd, Íslenska krónan, háir vextir, fljótandi gengi, allt of hátt gengi, stórir bankar sem hafi vaxið þjóðfélaginu yfir höfuð, gríðarlegur viðskiptahalli, hækkun húsnæðislána, húsnæðisbóla, að bankarnir hafi verið of háðir erlendum lánum, óvarleg innlánsviðskipti hluta Íslensku bankanna erlendis, gríðarleg einkaneysla, gríðarleg skuldasöfnun heimila, útlánaþennsla, krosseignatengsl Íslenskra fyrirtækja og samkrull Íslensku bankanna og eigenda þeirra, ofþennsla ríkisfjármála, slæmar fjárfestingar, skuldsetning Íslenskra fyrirtækja, alheimskreppa og svo mætti lengi áfram telja.

Líklegasta skýringin er hins vegar þetta allt, og sjálfsagt meira til, því jafn sakleysisleg og léttvæg sum þessarra atriða kunna að vera ein og sér, mynda þau gríðarlega sprengihættu þegar þau koma öll saman.  Önnur, eins og stóraukin innlánaviðskipti Íslensku bankanna ættu að hringja bjöllum í hvaða árferði sem er.  Það er rétt að hafa það í huga að IceSave í Hollandi byrjaði starfsemi sína síðastliðið vor. 

En það má líka nefna að bankar eiga ekki heimtingu á því að efnahagsumhverfið lagi sig að þeim, rökréttara er að þeir lagi sig að því efnahagsumhverfi sem þeir starfa í, það gefst betur til lengri tíma litið.  Það er ekki þar með sagt að þeir geti ekki og megi ekki benda á það sem þeim finnst að betur megi fara, en það er betra að sníða sig að því sem er, heldur en að því sem æskilegt er að sé.

Margir halda því fram að euroið hefði verið "pillan" sem allt hefði lagað.  Margt hefði ábyggilega verið öðruvísi, en ekki nauðsynlega betra á öllum sviðum.

Það má til dæmis halda því fram að það síðasta sem Íslendingar hefðu þurft væru lægri vextir, nóg var nú lánagleðin samt.  Hefðu lægri vextir þýtt miklu þandari húsnæðisbólu, sem hefði sprungið með ennþá hærri hvelli?  Sú varð raunin t.d. á Írlandi og Spáni.  Þeir sem héldu vinnunni sinni héldu meiri kaupmætti, en kaupmáttur þeirra sem missa vinnuna, sem líklega væru fleiri, ykist ekki heldur drægist saman.

En ég held að órökrétt sé að einblína á eitt eða tvö atriði og telja að þau sé rót vandans, þjóðfélagið var hreinlega komið úr jafnvægi og það á svo mörgum sviðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Vel hugsuð færsla, G. Tómas. Þótt lítil þúfa velti þungu hlassi, þá hefur það fyrst orðið þungt áður en atburðurinn átti sér stað! Berum þetta saman við niðurstöður rannsókna stórra ferju- og flugslysa. Þar fara langoftast saman margir aflaga þættir, sem einn og sér hefðu tæpast náð að valda slysinu.

Ívar Pálsson, 26.10.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband