23.10.2008 | 22:13
Umræða á skrýtnum forsendum, eða hvað? Vilja Íslendingar taka Brown á þetta?
Ég reyni eftir fremstu getu að fylgjast með umræðunni á Íslandi, og meira nú en áður. En það er tvennt sem ég ekki skil til fullnustu sem ber hæst í umræðunni akkúrat núna.
Það fyrra er umræðan um lán sem Bretar vilja bjóða Íslendingum, sem notað yrði til að greiða innlánatryggingar á IceSave reikningunum svokölluðu. Ég hef séð útreikinga um hvað þetta er mikið og hvert mannsbarn og hverja fjögurra manna fjölskyldu og að þessi skuldsetning verði sem myllusteinn um háls Íslendinga. Ég heyri að þetta sé harðari kostir en Þjóðverjum var boðið upp á í Versalasamningunum og þar fram eftir götunum.
Enginn talar um að einhverjar eignir séu til í bönkunum sem gætu dekkað þetta að einhverju, eða fullu leyti.
Er það 3. milljarða punda górillan í herberginu sem enginn þorir að minnast á að eignasafn Íslensku bankanna sé því sem næst einskis virði? Er eignasafnið meira og minna innan "fjölskyldunnar"? Er það borin von að einhverjar upphæðir sem skipta máli fáist út úr Landsbankanum, það er jú fyrst og fremst hans reikningar sem eru vandamálið.
Spurningin sem hlýtur að þurfa að fá svar við og inn í umræðuna er, hvernig er eignastaðan.
Það er að vísu erfitt að henda reiður á slíkt á tímum sem þessum, en þó hlýtur að vera hægt að fara nokkuð nærri slíku, reyna að meta áhættu hvað eignir varðar (það er jú ein meginstoð bankaviðskipta) og reyna að búa til áætlun hvernig bestu verður að því staðið að koma þeim í verð. Líklega væri ekki úr vegi að leita til erlendra aðila til að aðstoða við það verk.
En miðað við að skuldbindingar Íslensku bankanna hafi verið áætlaðar einhversstaðar í kringum 8000 milljarða króna, hlýtur eignasafnið að hafa verið nálægt 9000 milljörðum í mati, því einhversstaðar minir mig að ég hafi heyrt að hrein eign þeirra hafi verið metin á bilinu 900 til 1000 milljarða. (Endilega leiðréttið mig ef þið hafið betri og áreiðanlegri tölur en þetta).
Hitt atriðið sem ég á erfitt með að skilja er umræðan um að frysta eignir "auðmanna". Þessi krafa heyrist nú á bloggum, í fjölmiðlum og í lýðskrumi stjórnmálamanna.
Í fyrsta lagi er ótrúlega ódýrt að nefna til sögunnar óskilgreindan hóp "auðmanna". Þeir sem krefjast frystingar ættu þá að sjá sóma sinn í því að nefna þá einstaklinga til sögunnar sem þeir vilja láta frysta eigur hjá.
Í öðru lagi er ótrúlegt að hlusta á kröfur um frystingu eigna einstaklinga án þess að neinn rökstuðningur komi fram. Því er ekki haldið fram að um lögbrot séu að ræða, eða rökstuddan grun þess efnis.
Ef einstaklingar eru uppvísir að lögbrotum þá er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að gripið sé til ráðstafana. Jafnvel þó að aðeins sé um rökstuddan grun að ræða.
En þær tillögur að frysta eignir án nokkur halds í lagabókstaf getur í mínum huga ekki gengið upp. Alveg burtséð frá því hvað okkur kann að þykja um viðkomandi einstaklinga.
Þjóðfélagið verður að byggjast á lögum og lög verða að byggja á rökum og skynsemi.
Íslendingar urðu æfareiðir, og það með réttu, þegar Gordon Brown og Breska ríkisstjórnin frysti Íslenskar eignir með afar vafasömum lagalegum tilvísunum í hryðjuverkalög.
Vilja Íslendingar taka "Brown" á "auðmennina"? Frysta eigur þeirra með óskýrum neyðarlögum, án þess að nokkrar sannanir eða grunur sé um ólöglegt athæfi? Eða hafði Brown rétt fyrir sér allan tíman og eðlilegt að hann frysti eigur Íslenskra "auðmanna"?
Ég er ekki þeirrar skoðunar.
Hverjir eru þetta sem Íslendingar vilja frysta eigur hjá og hvað vilja þeir meina að þeir hafi gert af sér?
Það er sorglegt að horfa upp á einstaklinga sem starfa á löggjafarsamkundu Íslendinga hvetja til hálfgerðs "heykvíslalýðræðis".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eignir íslensku bankanna voru taldar 14.500 milljarðar króna í hálfsársuppgjöri 2008 og skuldbindingar á sama tíma 13.600 milljarðar króna. Síðan þá hefur hins vegar orðið 25%-35% hrun á öllum mörkuðum og alls óljóst hver eignastaðan er í dag. Það eina sem við getum vitað með vissu er að verðmæti eignanna rýrnar stöðugt
Halldór Elías Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 22:52
Bestu þakkir fyrir þetta. Í þínum tölum er "hreina eignin" nokkuð sú sama og í þeim tölum sem ég hafði heyrt, því er líklega rökrétt að færa hana verulega niður, t.d. um 50% eða meir. En það breytir því ekki að það ætti að vera hægt að ná inn fyrir innistæðutryggingum og hugsanlega eitthvað meir út út eignum bankanna. Gleymum því ekki heldur að Innistæðutryggingasjóður var sagður eiga 90 milljarða, sem vissulega er lítið, en samt betra en ekkert.
Þess vegna get ekki ekki skilið svartsýnistal í þá átt að allt sé að falla á Íslenska skattgreiðendur (sem ég er vissulega á meðal, þótt í litlum mæli sé.)
G. Tómas Gunnarsson, 23.10.2008 kl. 23:47
Tja, þegar þú ert búinn að strika út þær eignir bankanna sem eru á formi "viðkskiptavildar", skuldabréf og hlutabréf í hinum bönkunum eða skuldir fyrirtækja eins of Stoða sem eru nánast á hausnum, þá er....tja.... eitthvað eftir, en ekki eins mikið og menn héldu í upphafi.
Púkinn, 24.10.2008 kl. 01:38
Varðandi seinna atriðið, þá er enginn að tala um að gera þessar eignir upptækar, heldur að frysta þær á meðan rannsókn málsins stendur. Slíkt er einmitt oft gert í sakamálum, þ.e.a.s. að eignir eru haldlagðar - ekki gerðar upptækar - til að sakargögnum sé ekki eytt eða þau skemmd.
Það er hins vegar ljóst að íslenskir auðmenn eru líklegast búnir að koma þeim eigum undan, sem þeir gátu.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 24.10.2008 kl. 07:30
Bestu þakkir fyrir innleggin. Púki: Það er morgunljóst að við þessar aðstæður rýrnar verðmæti bankaeigna gríðarlega. En það er líka himin og haf á milli áætlaðra eigna og þess sem talað er um að þurfi að greiða vegna innistæðutrygginga. Þannig að mér finnst skrýtið að tala eins og þær séu allar að falla á Íslensku þjóðina. Nema þá að menn séu þeirrar skoðunar að þetta sé allt orðið meira og minna verðlaust, en þá hefur áhættustýringin verið eitthvað broguð.
Guðbjörn: Brown gerði heldur engar eignir upptækar, hann frysti þær eingöngu. Þegar og ef málið fer á það stig að um sakamál sé að ræða, er allt annar grundvöllur fyrir því að frysta eignir. Eins og ég sagði ef að um rökstuddan grun sé að ræða að lögbrot hafi veið framin. En ég hef ekki heyrt neinn tala um að lög hafi verið brotin.
Lýðskrumararnir tala eingöngu um óútskýrðan hóp "auðmanna" og að það eigi að frysta eignir þeirra.
Þegar verður að byrjað að nefna nöfn og hvað þeir eigi að hafa til saka unnið, er hægt að fara að tala um að frysta eignir þeirra manna sem rökstuddur grunur sé um að hafi brotið lög.
Annað er bara lýðskrum.
En eins og ég hef sagt áður, það kann að verða skortur á ýmsu á Íslandi næstu vikur, en ekki á "besservisserum" og lýðskrumurum.
G. Tómas Gunnarsson, 24.10.2008 kl. 07:59
Ég er sammála þér Tómas í þessari afstöðu gagnvart umræðu um auðmenn. Allir vita að ekki hefur verið framið neitt augljóst lögbrot. Og það er kannski mergur málsins; lögin og framkvæmd þeirra voru meingölluð. Þess vegna er ekkert lagalegt að sakast við hina svokölluðu auðmenn heldur á þjóðin ýmislegt órætt við löggjafa og þá ráða- og embættismenn sem áttu að gæta þessara mála í umboði þjóðarinnar. Enginn, fyrir utan ein kona sem sagði sig úr bankaráði seðlabankans með afsökun til þjóðarinnar, hefur tekið á sig neina ábyrgð eða játað nein mistök. Þetta er hreint með ólíkindum. Hér er búið að sigla þjóðarskútunni í mestu vandræði af mannavöldum síðan á Sturlungaöld, og enginn vill kannast neitt við að hafa tekið þátt í þessu ólánsferli. Það er kominn tími til þess að menn gangist við gjörðum sínum og biðjist afsökunar. Þrátt fyrir þá miklu reiði sem ríkir meðal almennings á Íslandi nú, er ég viss um að viljinn til fyrirgefningar er jafn mikill svo fremi sem komi til dyranna eins og þeir eru klæddir.
Jón (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 09:40
Nöfn? hvaða nöfn viltu fá?
Björgólfur Thor? Björgólfur eldri?
Jón Ásgeir Jóhannesson ???
Eiga þeir ekki stóra sök á þessu máli? Er Björgólfur ekki eigandi Landsbankans.. og þá Icesave? Er það sanngjarnt að skuldir hans falla á Íslensku þjóðina?
Að frysta eignir þessara útrásarvíkinga er bara í góðu lagi á meðan mál þeirra eru skoðuð. Engin ástæða til að leyfa þeim að koma undan öllusaman.
Samt.. það er eflaust orðið of seint. Þeir kunna þennan leik þessir menn. En viðskiptasiðferði þeirra er vægast sagt ógeðfellt.
Eiki (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 17:09
Eru einhverjar vísbendingar um að Björgólfur, Björgólfur Thor eða Jón Ásgeir hafi brotið lög? Er rökstuddur grunur þar um? Nöfnin ein segja ekkert, það verður að segja hvað þeir grunaðir um, hvaða lög þeir eiga að hafa brotið.
Ef rökstuddur grunur er um lögbrot er kominn upp allt annar flötur á frystingu eigna.
Ég gæti tekið undir það að það sé siðlaust af Björgólfum að sitja áfram að eignum sínum, ef skuldir vegna IceSave falla á Íslenskan almenning. Vonandi eru þó eignir innan Landsbankans sem dekka þær að mestu eða öllu leyti.
En síðast þegar ég vissi er siðleysi eða siðblinda refsiverð í Íslenskum lögum.
Þó að mikið gangi á, og marg óþægilegt, þá verður að fara að lögum. Lög verða að gilda. "Heykvíslalýðræði" er ekki lausnin.
G. Tómas Gunnarsson, 24.10.2008 kl. 17:46
Misritaðist ein setning.
Átti að vera:
En síðast þegar ég vissi er siðleysi eða siðblinda ekki refsiverð í Íslenskum lögum.
G. Tómas Gunnarsson, 24.10.2008 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.