21.10.2008 | 21:15
Gjaldeyrissveiflur
Það hefur verið mikið rætt um gengissveiflur á Íslandi undanfarin misseri og hefur á mörgum mátt skilja að slíkt sé með öllu óásættanlegt. Það verði að binda endi á þann ófögnuð og helst að taka upp aðra mynt til þess að gjaldmiðilsflökt verði afnumið.
En það er ekki bara á Íslandi sem gjaldmiðillinn sveiflast upp og niður. Þannig hefur til dæmis dollarinn okkar hér í Kanada misst u.þ.b. 17% af verðgildi sínu gagnvert "starfsbróður" sínum þeim Bandaríska á örfáum vikum.
Hvað skyldi valda? Er öll efnahagsstjórn í rúst hér í Kanada?
Skýringuna er fyrst og fremst að leita í því hvernig efnahagurinn er samansettur hér í Kanada. Hér er "hrávara" gríðarlega stór hluti hagkerfisins. Hér er mikill olíuiðnaður, hér er mikil málmvinnsla, hér er mikill landbúnaður.
Þegar verð á þessum afurðum var í hámarki endurspeglaðist það í verði Kanadíska dollarans. Nú þegar verð er á hraðri niðurleið fylgir dollarinn með. Vaxtaákvarðanir Kanadíska seðlabankans spilar sömuleiðis með, nú nú lækkaði hann vexti um 0.25%, sem var minna en margir höfðu reiknað með. Núna standa vextirnir í 2.25%.
Hér er enda spáð minnkandi hagvexti, spáin er komin niður í 0.6% fyrir yfirstandandi ár, og sama vöxt á næsta ári.
Það er því ekki nema eðlilegt að Kanadadollarinn láti undan síga, efnahagsástandið er ekki honum að kenna, heldur mælir hann ástandið og væntingarnar.
Reyndar má sjá að Euroið hefur sömuleiðis látið verulega undan síga á móti hinum Bandaríska dollar, hefur misst u.þ.b. 10% af verðgildi sínu gagnvart þeim Bandaríska síðastliðin mánuð, svo dæmi séu tekin.
Enn og aftur er rétt að taka fram að það er ekki euroinu að kenna, það sýnir einfaldlega ástandið og væntingar.
Það er rétt að geta þess að margir í Kanada (og sjálfsagt í Eurolandi líka) fagna þessarri veikingu dollarans okkar. Það gerir útflutningsaðilum hér (en Bandaríkin eru lang stærsta viðskiptaland Kanada) auðveldara um vik, en styrkur dollarans háði þeim þegar hann stóð sem hæst. Hér er ég að tala um þá sem fluttu út annað en hrávöru, þetta á auðvitað sértaklega við um iðnaðarframleiðslu ýmiskonar.
Við hinir almennu Kanadabúar viljum auðvitað gjarna að dollarinn okkar sé sterkur, það gerir kaupmátt okkar (á innfluttum vörum og þegar við förum erlendis) meiri. En ég held að það flestir geri sér grein fyrir því að það er skammgóður vermir.
Þannig sveiflast svo gjaldmiðlar upp og niður eftir því hvernig efnahagurinn og væntingarnar eru til hans.
Línuritin hér að neðan eru fengin að láni á vef Kaupþings og sýna gengisþróun dollaranna tveggja síðastliðið ár (það efra) og gengisþróun milli euro og USdollars síðastliðið ár (neðra).
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 22.10.2008 kl. 02:16 | Facebook
Athugasemdir
Eitt langaði mig að bæta við þessa ágætu grein:
Það er alveg ótrúlegt í rauninni að allar upphæðir sem maður les um í fjölmiðlum og hafa eitthvað með bankamál eða fjárlög á Íslandi að gera eru í krónum.
En hvað er gengið á krónunni?
Það er svo gífurleg verðbólga á Íslandi að þessar tölur eru bara gildar í nokkra daga.
Það væri nær að nefna upphæðirnar í Evrum eða USD.
Einar (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 09:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.