15.10.2008 | 05:47
Íhaldið sígur á, en engin meirihluti
Kosningarnar hér í Kanada fóru líkt og margir spáðu, Íhaldsmenn bættu við sig þingsætum, en voru þó nokkuð langt frá því að ná meirihluta.
Það verður því enn ein minnihlutastjórnin við völd, Íhaldsmenn (Conservative Party) bæta líkast til við sig 16 þingmönnum (ekki er búið að telja alveg alls staðar), enda með 143. Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party) tapar, Nýi Lýðræðisflokkurinn (New Democratic Party) vinnur á, Græni flokkurinn fær engan þingmann en þeir sem komu líklega mest á óvart eru Quebec Blokkin, eða Bloc Quebecois, en þeir náðu 48 eða 49 af 308 þingmönnum á Kanadíska þinginu.
Það verður að teljast góður árangur hjá Quebec blokkinni (þeir tapa lítillega, en mun minna en flestir reiknuðu með), það gerir þá að þriðja stærsta flokknum hvað varðar þingmannafjölda (eins og þeir hafa verið), en þeir hafa þó aðeins um 10% fylgi á landsvísu (þeir bjóða eingöngu fram í Quebec) en til samanburðar má geta að Nýji Lýðræðisflokkurinn fær líklega 36 eða 37 þingmenn (vinna 2 til 4) , en hefur ríflega 18% fylgi á landsvísu.
En svona er þetta þar sem einmenningskjördæmi eru. Ef fylgið nýtist vel, skilar það sér í þingmannafjölda langt umfram það sem % fylgi gefur til kynna.
Það má reyndar segja að þó að Íhaldsflokkurinn vinni ekkert á í fylgi, þá bætir hann við sig þingmönnum. Það gerist fyrst og fremst vegna þess að Frjálslyndi flokkurinn tapar fylgi, og skiptingin er Íhaldsmönnum hagstæðari.
Ef til væri því rökrétt að segja að Íhaldsmenn hafi tæplega unnið kosningarnar, en Frjálslyndi flokkurinn hafi tapað þeim.
Hér má sjá dæmi um hvað til þess að gera fá atkvæði geta skipt sköpum og hvað hátt hlutfall atkvæða getur í sumum kjördæmum fallið dauð. Þess vegna getur örlítil % auking á landsvísu, skilað sér í stórauknum þingmannafjölda, nú eða einfaldlega betri skipting leitt af sér aukningu.
En ég er ágætlega sáttur við niðurstöðuna, vitanlega hefði verið betra að hreinn meirihluti hefði komið úr kosningunum (hér er engin hefð fyrir samsteypustjórnum), en alla vegna ætti minnihlutastjórnin að vera heldur sterkari en áður.
Enn og aftur bendi ég þeim sem vilja frekari fréttir á vefi Globe and Mail og National Post, en niðurstöður eru ekki 100% ljósar þegar þetta er skrifað, en það verða engar breytingar sem skipta máli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:44 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Tómas, góðar upplýsingar hér hjá þér. Takk fyrir það. Við erum aðeins ánægðari hér á Prince Edward Island en í síðustu kosningum. Tröllatak frjálslinda flokksins hefur aðeins losnað með þessu eina sæti sem íhaldið fékk hér á eyjunni. Nú verður spennandi að sjá hvað gerist í Ottawa á næstunni. Kveðjur frá PEI
Sigga MacEachern (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 14:31
Já, Frjálslyndi flokkurinn hefur verið valdaflokkurinn en það er nú að breytast. Annars finn ég mig hálf munaðarlausan í flokkakerfinu hér, þó að Íhaldsflokkurinn standi mér næst.
En það er eins og allstaðar annars staðar, fullkominn flokkur finnst ekki og það verður að kjósa (öllu heldur styðja, þar sem ég hef ekki kosningarétt hér) þann sem er skástur.
G. Tómas Gunnarsson, 16.10.2008 kl. 05:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.