15.10.2008 | 03:17
Ef ákveðið væri að sækja um "Sambands" aðild í dag, hvenær gætu Íslendingar tekið upp euro?
Margir Íslendingar og Íslenskir stjórnmálamenn tala eins og nú þýði ekkert annað en að sækja um "Sambands" aðild og taka upp euroið. Þeir tala eins oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn vegna bágs efnahagsástands þjóðarinnar.
Ég verð að viðurkenna að ég treysti mér ekki til að segja til um það hvenær hægt væri að leggja samning fyrir Íslensku þjóðina í atkvæðagreiðslu. Eigum við að segja í ársbyrjun 2010?
En hvenær yrðu Íslendingar reiðubúnir í myntsamstarfið, hvenær verður Íslenskt efnahagslíf búið að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að öðlast aðgang að myntsamstarfinu?
Á það ber að líta að aðildarlöndum "Sambandsins" hefur gengið mjög misjafnlega að uppfylla skilyrðin, reyndar bæði þeim sem bíða eftir euroinu og þeim sem hafa það.
Þau eru raunar ekki mörg ríki sem hafa tekið upp euroið, sem ekki voru í upprunalega hópnum, eru það ekki eingöngu Slóvenía, Kýpur og Malta?
Aðrar þjóðir hafa þurft að fresta upptöku euro í tví og þrígang.
En segjum nú að Íslandi gangi betur, gæti Ísland tekið upp euro 2014 - 2015? Það er býsna langur timi þangað til.
Í raun er aðalatriðið hvað á til bragðs að taka þangað til, og ekki hvað síst akkúrat núna?
Krónan er það eina sem er í boði.
P.S. Ég er enn sem áður þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið sé best fyrir Íslendinga að halda sig fyrir utan "Sambandið", en geri mér auðvitað grein fyrir því að þjóðin mun ákveða hvert hún vill stefna, annað hvort í þjóðaratkvæðagreiðlsu eða í hefðbundnum kosningum. Það hefur hún gert hingað til.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.