9.10.2008 | 16:35
En hvað gerir það svo traust?
Auðvitað er ánægjulegt að lesa að bankakerfið hér sé traust og að þeir peningar sem við fólkið að Bjórá hefur tekist að nurla saman séu nokkuð öruggir. Þó er nokkuð ljóst að bankakerfið hér í Kanada hefur orðið fyrir höggi, og á líklega eftir að taka þau fleiri áður en yfir lýkur. Það er sömuleiðis rétt að hafa í huga að hér er um að ræða könnun, en ekki mælingu.
En hvers vegna kemur bankakerfið hér í Kanada svona vel út?
Hér eru stórir og öflugir bankar sem ná yfir allt sviðið, þeir eru innlánsstofnanir, fjárfestingarbankar, hlutabréfamiðlarar og svo framvegis. Þetta eru stórar stofnanir sem hafa getu til að standa af sér högg, rétt eins og sumir þeirra hafa þurft að gera vegna Bandarískra undirmálslána.
Kanadísk lög hafa ennfremur verið þeirrar gerðar að þau hafa gert erlendri samkeppni erfiðar fyrir (en ekki ómögulegt að starfa hér) og gefið heimabönkunum nokkuð forskot.
En efnahagur Kanada hefur verið traustur undanfarin ár, og eftir að landið náði sér upp úr skuldafeni Trudeau áranna (þá var landið hugsanlega talið stefna í gjaldþrot), hafa ríkisfjármálin verið afar traust og lagt grunninn að þeirri stöðu sem Kanadamenn búa við nú.
Kanada er ríkt af auðlindum og má segja að flestar þær auðlindir sem hægt er að nefna sé hér að finna. Olía, gull, demantar og svo má lengi áfram telja. Landbúnaður er hér gríðarlegur (ríkisstyrktur og verndaður svo mörgum þykir nóg um) og stendur nokkuð sterkum fótum þó að vissulega hafi hann oft átt erfiða tíma. Fiskiðnaðurinn á Austurströndinni má hins vegar muna sinn fífil fegri, enda hrundu fiskistofnarnir þar, eins og flestir kannast við.
Þessar auðlindir hafa keyrt hlutabréfamarkaðinn upp, á meðan hrávöru og olíubólan æddi áfram, og eru að keyra hann niður núna, en undirstöðurnar eru samt nokkuð áreiðanlegar. Það að bankarnir séu traustir breytir því ekki að margir eru að tapa háum fjárhæðum á hlutabréfum og hlutabréfasjóðum. Slíkar fjárfestingar eru algengar hér sem lífeyrissparnaður, enda ellilífeyrir og lífeyrissjóðir ekki jafn öflugir og á Íslandi, með örfáum undantekningum. Vextir á sparisjóðsreikingum enda afar lágir hér, bankinn minn býður mér best 2.25% á óbundnum reikningi, það þótt verðbólgan sé á milli 3 og 4%. "Spre
Húsnæðismarkaðurinn hér er sömuleiðis nokkuð traustur, þó að flestir séu farnir að reikna með því að húsnæði komi til með að lækka í verði á næstu mánuðum. Þegar hafa orðið lækkanir á sumum svæðum, s.s. í kringum olíusvæðin í Alberta, en þar hafði það hækkað gríðarlega og langt yfir landsmeðaltal.
En húsnæðislán eru byggð upp á annan máta hér en t.d. á Íslandi. Hér eru öll húsnæðislán lánuð af einkaaðilum. Lánstími er yfirleitt 25. ár. Ef lántakendur greiða ekki með eigin fé í það minnsta 25% af verði eignarinnar, þá verður að kaupa greiðslutryggingu. Þar kemur hið opinbera hinsvegar til skjalanna og rekur CMCH, ríkisstofnun sem selur greiðslutryggingar, stighækkandi í verði, til þeirra sem þurfa að taka hærri lán en nemur 75% af kaupverði. Lengi vel var ekki hægt að kaupa tryggingar fyrir lengri lánstíma en 25. ár. Því var síðan breytt og CMCH leyft að selja tryggingar fyrir lán allt að 40. árum.
Þá ritaði Dodge, þáverandi seðlabankastjóri Kanada bréf þar sem hann sagði m.a.:
Particularly disturbing to me is the rationale you gave that 'these innovative solutions will allow more Canadians to buy homes and to do so sooner.' " The corporation's actions are likely to drive up house prices and make homes less affordable, not more.
Dodge sagði ennfremur nýlega í viðtali:
It was very hard to get reform because there was the perception that if you make mortgages more accessible, you are helping homeowners, but what you're really doing is driving up home prices.
Nýlega var svo þessi heimild felld niður og breytt til fyrra horfs. Það kemur engum á óvart að þau lán sem gefin var út trygging fyrir og eru til lengri tíma en 25. ára, eru talin þau húsnæðislán hér í Kanada sem líklegast eru til þess að falla í vanskil og til greiðslutryggingar þurfi að koma.
Hér er aðeins tæpt á nokkrum atriðum, ekkert kemur í staðinn fyrir góða og ráðvanda stjórnun. Það skiptir líka máli að stjórnvöld blási ekki upp bólur, heldur reyni frekar að hleypa loftinu úr þeim.
Kanadíska bankakerfið það traustasta í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.