10.10.2008 | 18:23
Á hraðri leið til....
Það er hálf súrelaískt að fylgjast með fréttum þessa dagana. Ekki bara af Íslandi, heldur víðast hvar um heimsbyggðina. Fjármálakerfið er í molum, enginn treystir neinum og það virðist vera nokk sama hvað svartsýnir eða fáranlegir spádómar kunna að koma fram, að nokkrum dögum liðnum rætast þeir.
Fjármálastofnanir með aldarhefð á bakvið sig hafa horfið, 3. stærstu bankarnir á Íslandi hafa verið ríkisvæddir og sama má segja um tugi eða hundruði banka hér og þar um heiminn.
Það er ekki það að nægir peningar séu ekki til, heldur sitja þeir sem eiga þá, á þeim sem fastast og vilja ekki lána. Það sem er grundvöllur allra viðskipta er ekki til staðar lengur, traust.
Þegar kreppunni lýkur mun umhverfið líklega verða allt annað heldur en við höfum þekkt. Það verða önnur fyrirtæki sem verða áberandi en eru nú. Ekki er heldur ólíklegt að einhver umskipti verði á áhrifum á milli ríkja.
En það er ekki bara fjármálaheimurinn sem kemur til með að breytast. Stormurinn kemur til með að fara yfir alla flóruna. Fjölmiðlaheimurinn kemur til með að breytast, enda verður auglýsingamarkaðurinn erfiður á næstunni. Nú þegar hafa fjölmiðlar horfið og líklegt er að fleiri eigi eftir að geyspa golunni.
"Almenn" fyrirtæki verða líka fyrir skakkaföllum og mörg eiga eftir að hellast úr lestinni, ekki er heldur ótrúlegt að mörg þeirra hreinlega megi hverfa, hafi verið ofaukið. En það verða þau sterkari sem lifa.
Menning og listir, íþróttir og annað slíkt verður heldur ekki samt eftir að stormurinn gengur niður. Fé til þeirra starfsemi verður minna en verið hefur og samkeppnin um það harðari. Ekki er ólíklegt að ýmis félög í þeim geirum verði gjaldþrota, en önnur verði að draga saman seglin, launalækkanir verði boðorð dagsins.
En margir tala eins og kapitalisminn hafi beðið skipbrot, sé að hverfa, það held ég að sé ofmælt. Kapitalisminn er ennþá að störfum í verslunum, verksmiðjum, frystihúsum, togurum, kaffihúsum, bara svo nokkur dæmi séu nefnd. Fjármálageirinn er aðeins partur kapítalismans, og líklega sá hluti atvinnulífsins sem hvað stærstu og umsvifamestu lagabálkarnir hafa verið samdir um. Lagasetningarnar duga skammt þegar á reynir.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.