3.10.2008 | 19:48
Spuni, stjórnarslit og vöruskortur
Það er eiginlega með eindæmum að lesa þessa frétt. Í raun er rétt að taka fram að ég trúi henni ekki, trúi ekki að stjórnarslit hafi verið hugleidd af Samfylkingunni, alla vegna ekki af nokkurri alvöru.
Það getur varla verið að þingmenn Samfylkingar hafi talið að það sem vantaði í ringulreiðina sem nú virðist ríkja á Íslandi hafi verið stjórnarmyndunarviðræður, eða stjórnarkreppa.
En gefum okkur að þetta sé rétt. Athugum þennan kafla í fréttinni.
Innan Samfylkingarinnar eru þrjú atriði helst rædd sem hugsanlegar lausnir á efnahagskreppunni: a) að lýsa yfir vilja til að sækja um aðild að ESB b) sækja um neyðarlán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og c) reka Davíð Oddsson. Báru samfylkingarmenn þá von í brjósti fram eftir degi í gær að forsætisráðherra myndi í stefnuræðu sinni boða einhverjar lausnir.
Hverjir hugsa svona? Hver sem sem skoðun einstaklinga er um aðild að "Sambandinu", þá held ég að fáir líti á það sem lausn á efnahagskreppu þeirri sem nú ríkir. Sækja um neyðarlán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er vissulega eitthvað sem hlýtur að koma til greina, ef menn telja að landið stefni lóðbeint í þrot. En það er rétt að árétta að menn fara varla til Alþjóðagjaldeyrissjóðsin, nema til þrautavara, en ekki til að ræða möguleikana í stöðunni.
Síðan ætla menn að reka Davíð. Það myndi vissulega kæta einhverja stuðningsmenn Samfylkingarinnar, en gera lítið til að bæta efnhagsástandið. Sú baráttuaðferð að persónugera kreppuna í Davíð Oddssyni, er ekkert nema barnaleg. Rétt er að benda Samfylkingarþingmönnum á að þeir hafa vissulega möguleika á að breyta lögum um Seðlabankann á Alþingi. Þar er hægt að breyta þeim lögum sem hann starfar eftir og markmiðum hans. Alveg burtséð frá því hvort Davíð er þar eður ei. Líklega gætu þeir samþykkt líka að flytja vaxtaákvarðanir í Viðskiptaráðuneytið ef meirihluti er fyrir því á Alþingi.
En eins og ég sagði áður hef ég ekki mikla trú á því að þetta sé rétt, nema það læðist að mér dulítill efi. Það sem bendir til þess að eitthvað sé til í þessu, er alls konar yfirlýsingar um að allt sé á leið til helvítis, fljótlega verði ekki vörur til í verslunum og bankar opni líklega ekki eftir helgi.
Slíkar yfirlýsingar gætu auðvitað átt að þjóna þeim tilgangi að réttlæta stjórnarslitin.
Íhuguðu að slíta stjórnarsamstarfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er að velta fyrir mér hvort Morgunblaðið sé stjórnlaust. Þessi "frétt" er slíkur þvættingur að leit er að öðru eins. Hvaða Lára Ómarsdóttir er þetta sem skrifuð er fyrir "fréttinni" ?
Dettur nokkrum í hug að eftirfarandi geti verið rétt:
Svona grófar lygar hafa ekki lengi sést á prenti. Eigum við að reyna að koma þeirri lygi af stað að Davíð undirbúi stofnun Kommúnistaflokks, ásamt Ögmundi og Steingrími ? Það væri eðlilegt framhald þessarar fréttar.
Það hefur annars vakið athygli mína hvað Samfylkingin hefur staðið sig vel í ríkisstjórnar-samstarfinu, við núverandi erfiðu aðstæður. Ríkisstjórnin á vissulega heiður skilinn fyrir að halda góðu jafnvægi, sem ekki verður sagt um ýmsa "fræðimenn" á ríkis-jötunni. Jafnvel Eyðimerkur-Þórunn hefur haldið haus og er hætt að lýsa yfir ótta sínum við hlýnandi veðurfar af manna völdum.
Loftur Altice Þorsteinsson, 3.10.2008 kl. 22:53
Ef ekki er hægt að snúa frá vitleysunni um fljótandi krónu verður að skipta út mannskapnum sem er í veginum hvort sem það er Davíð eða einhver annar. Meira að segja höfundur fjármálakerfisins (hét hann ekki Friedman) sem keyrt er um allan heim sagði að ekki væri hægt að láta kerfið ganga upp nema með stórum og sterkum gjaldmiðli. Samt er reynt. Ef það er rétt að Hannes Hólmsteinn hafi þýtt pakkann yfir á Íslensku þá hefur vantað einhverjar blaðsíður í þá skrudduna.
Magnús Vignir Árnason, 4.10.2008 kl. 00:50
Lára Ómarsdóttir, er ef ég hef skilið rétt sami blaðamaðurinn og lýsti með svo eggjandi hætti uppkomunni sem varð við Rauðavatn (eða einhverstaðar þar) í mótmælum vörubílstjóra. Þá hætti hún vegna þess að hún taldi sig hafa glatað trausti almennings. Hún hlýtur að telja að hún hafi unnið það aftur og er aftur farin að skrifa fréttir.
Ég veit ekki hversu mikil lausn það er að fastsetja gengið. Íslendingar höfðu slíkan hátt á um langt árabil, og kom það ekki í veg fyrir að krónan varð æ verðminni. Þá komu gengifellingar með lengra millibili, en gjarna stærri stökkum. Efast um að það sé betra.
Það þarf að framleiða meira og flytja út meira, viðvarandi viðskiptahalli þýðir aðeins eitt, verðfall á gjaldmiðli fyrr eða síðar.
Það var athyglisvert að hlusta á alþingismenn í gær, tala um hver á fætur öðrum að það þyrfti að nýta auðlindir landsins. Jafnvel þeir sem varla hafa getað heyrt minnst á nokkuð rask, virðast komnir á þá skoðun að nú þurfi að nýta auðlindir, fá inn erlenda fjárfestingu og flytja út.
Það er vel.
G. Tómas Gunnarsson, 4.10.2008 kl. 03:03
Lára Ómarsdóttir fær verðlaunin: Aumasti fréttamaður ársins.
Verðlaunin hlýtur Lára fyrir fréttina: Íhuguðu að slíta stjórnarsamstarfinu, sem er uppspuni frá rótum. Lára sem er dóttir "fréttamannsins" Ómars Ragnarssonar fær sérstakt lof fyrir að beita æsifréttastíl föður síns.
Loftur Altice Þorsteinsson, 4.10.2008 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.