29.9.2008 | 18:41
Ríkisvæðing
Þær gerast ekki öllu stærri fréttirnar úr Íslenska fjármálageiranum en að hið opinbera sé í þann veginn að eignast 75% af hlutafé í Glitni.
Það er engin leið að dæma um hvort að þetta sé rétta leiðin, eða ekki, hvað þetta varðar er ekki hægt annað en að trúa því sem ráðamenn og stjórnendur Glitnis segja, að aðrar leiðir hafi ekki verið færar. Alla vegna hef ég engar upplýsingar í höndunum sem gefa tilefni til að rengja þá.
En þessi aðgerð og viðbrögð við henni vekja vissulega upp margar spurningar og ýmsar hugleiðingar.
Það vekur athygli þegar stjórnarformaður Glitnis lætur hafa eftir sér að hann sé hundfúll með aðgerðirnar. Ég reikna ekki með því að neinn af hluthöfum Glitnis sé ánægður, enda útlit fyrir að þeir tapi stórum fjárhæðum.
En í mínum huga er það ljóst að ef til þess þurfti að koma að hið opinbera kæmi að fjármögnum bankans yrði það að vera fyrst og fremst með hagsmuni almennings og sparifjáreigenda að leiðarljósi. Hagsmunir hluthafa hljóta að koma þar á eftir. Enn þá hafa hluthafar möguleika á því að fella umrætt samkomulag og koma bankanum sínum til bjargar á annan hátt, en það hefur ekki heyrst mikið í stærstu hluthöfunum enn sem komið er. Það er auðvitað þeirra að leiða aðgerðir ef reyna á aðra leið en þá sem nú er uppi á borðinu.
Það er einnig með eindæmum að heyra marga, þar á meðal forystu menn í stjórnmálum tala um að þetta sé ríkisstjórninni og Seðlabankanum að kenna. Slíkt tal gengisfellir þá láta slíkt hafa eftir sér.
Þeir sömu telja þá líklega að það sé Bresku stjórninni hvernig komið var fyrir B&B og að það sé Evrópska seðlabankanum að kenna að hið opinbera (í Hollandi, Belgíu og Luxemborg) þurfti að koma hinum stóra og "öfluga" Fortis banka til aðstoðar? Eftir því sem ég kemst næst eru eignir Fortis metnar á meira en t.d. þjóðarframleiðsla Belga og hann stærsti einkarekni vinnuveitandinn í Belgíu, því töldu fyrrnefndar ríkistjórnir afar mikilvægt að honum væri komið til hjálpar.
Stjórnendur Íslenskra banka eru ekkert verri en stjórnendur margra erlendra banka, en þeir eru sömuleiðis langt frá því að vera betri. Sú staða sem nú er komin upp vekur líka upp þá spurningu hver ábyrgð stjórnenda og stjórnarmanna er? Í þeirri stöðu sem nú er upp komin virðist ábyrgðin fyrst og fremst felast í því a leita til hins opinbera þegar staðan er tvísýn, þá er ábyrgðin falin í því að koma til hins opinbera áður en bankinn fer í þrot.
Margir hafa velt því fyrir sér hvort ekki sé rétt að skipta um stjórnendur í bankanum, og má að mörgu leyti taka undir slíkt. Það er ekki óeðlilegt að krafa sé upp um að skipt sé um stjórnendur á tímapunkti sem þessum. Á móti kemur að nýr stjórnandi, sem tæki líklega nokkrar vikur að setja sig inn í málin er líklega ekki það sem Glitnir þarfnast akkúrat núna.
Mesta hættan sem líklega blasir við núna er að fjárflótti hefjist fyrir alvöru frá Íslandi. Áframhaldandi fall krónunnar er því líklegt.
Glitnir hefði farið í þrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.