18.4.2006 | 23:02
Dýragarðurinn
Við ákváðum að nota frídaginn sem við fengum í gær til þess að fara í dýragarðinn. Dýragarðurinn hér í Toronto er stór og mikill, skemmtilegur yfirferðar og ég held að dýrin hafi það nokkuð gott, aðbúnaður bærilegur og flest svæðin nokkuð stór, þó að vissulega sé frelsið fyrir bí. En mörg dýranna eru þó fædd í dýragörðum og þekkja því ekkert annað.
En mér hefur alltaf þótt það heillandi að labba um, gjarna með ís í hönd, og skoða framandi dýr. Þannig er líka eina tækifærið sem flest okkar hafa til þess að bera þau augum.
Flest voru dýrin ósköp letileg í gær, lágu, sváfu eða móktu og fæst þeirra höfðu fótaferð. Ef til vill verður maður svona, ef ekkert er fyrir stafni nema að bíða eftir næsta matarskammti og hann kemur án fyrirhafnar. Þá er ástæðulaust að láta allan þennan mat sem frá hjá skikanum manns gengur fá nokkra athygli, enda löngu ljóst að til hans verður ekki náð.
En Leifur Enno skemmti sér vel, hann hafði gaman af því að skoða dýrin, en hápunktur ferðarinnar var þó líklega að hans mati, sá partur af íspinna sem hann fékk, flatmagandi skógarbirnir, sofandi tígrisdýr, eða syndandi ísbirnir, voru ekki eins stórfenglegir í hans huga.
En þetta var fín ferð og allt eins og það á að vera, nema auðvitað að ég sólbrann lítillega, en það telst heldur ekki til tíðinda.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.