14.9.2008 | 16:14
Monzoon kappakstur er góð skemmtun
Það er ekki hægt að segja annað en að kappaksturinn í Monza hafi verið skemmtilegur. Spenna, skrik, framúrakstur og snertingar. Endalausar þreifingar og "viðreynslur".
Stórkostlegur dagur fyrir Vettel, stórkostlegur dagur fyrir Toro Rosso (Minardi) og stórkostlegur dagur fyrir Formúluna.
En við Ferrari aðdáendur höfðum ekki svo mikið til að gleðjast yfir. Árangur Massa náði því varla að vera ásættanlegur og um Raikkonen þarf ekki að hafa mörg orð. Það var ekki hægt að merkja á akstri hans í morgun að þar færi launahæsti ökumaður Formúlunnar. Aðeins lifnaði yfir honum í lokin, en of lítið of seint.
Massa átti þolanlegan dag, náði að minnka forskot Hamilton um eitt stig. En sé litið til þess að Massa ræsti úr 6. sæti en Hamilton úr því 15. (fyrir aftan Raikkonen) fer allur glans af árangri Ferrari manna. Eihvern veginn virtist keppnisáætlun hans vera í molum og fór hann afar illa út úr þjónjustuhléunum. Forskot í keppni bílsmiða minnkaði líka verulega. Það var því ekki margt sem gladdi Ferrari aðdáendur.
En hey, við áttum þó sigurmótorinn, það verður að reyna að líta á björtu hliðarnar.
Kovalainen átti ágætis dag, hélt sínu sæti, en ég hélt þó fyrirfram að hann yrði Vettel skeinuhættari. Kubica átti merkilegan kappakstur, sást varla að heitið gæti, en skilaði sér í 3. sætið að lokum, kom mér á óvart.
Vettel er að sjálfsögðu maður keppninnar, en þar á eftir kemur líklega Hamilton. Hann sýndi á meiriháttar og á köflum afar grimman akstur (ég bíð eftir að allir McLaren aðdáendurnir sem gagnrýndu Schumacher sem harðast gegnum árin, tjái sig um hvernig hann fór með Webber). Það skilaði honum þegar upp var staðið í 7. sætið og gerði tjón hans gagnvart Massa því sem næst að engu. En líklega hefur hann ekki eignast neina vini á brautinni (sögur segja hann ekki eiga þá neina) með akstri sínum í dag, en þetta er ekki keppni um vinsældir, heldur að komast fyrstur í mark.
En skemmtigildið var hátt, þetta var snilldarkappakstur og keppnin um titlana galopin sem aldrei fyrr.
Næst er svo næturkappakstur í Singapore, það er ekki hægt annað en að hlakka til þarnæsta sunnudags.
Snilldarsigur hjá Vettel í erfiðri Monzabrautinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er frábært að það séu ekki alltaf sömu náungarnir á verðlaunapalli.
Ég bíð bara spenntur eftir hverju er hægt er að væla yfir núna gegn Ferrari. Það skyldi þó ekki vera að mótstjórnin hafi ákveðið að beiðni Ferrari að láta rigna í dag.
Rúnar Geir (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:35
Það hefur örugglega ekki verið Ferrari sem bað um rigningu því Massa kann ekki að keyra í rigningu.
Einar Steinsson, 15.9.2008 kl. 06:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.