20.8.2008 | 03:11
Haussmann og húsavernd
Ég hef fylgst aðeins með umræðunni um húsavernd á Íslandi, sjálfsagt hef ég misst af einhverju, en ég hef eiginlega aldrei getið skilið þessa umræðu til fullnustu.
Talað er um 19. aldar götumynd sem beri og þurfi að varðveita. Hús sem eru hér og þar innan um steinsteypukumbalda megi ekki hverfa.
Einhvernveginn held ég að það sem helst þurfi sé að skipuleggja ákveðin svæði, svo sem miðborgina sem heild. Eitthvað sem lítur út eins og einhver hugsun hafi verið á bak við það.
Til samanburðar er hægt að hugsa sér París. Borg sem flestir eru sammála um að sé skemmtileg, falleg hús, fallegar götur og borgin full af sögu - og ljósum. Borg ljósanna.
Eins og margir vita er skipulag Parísarborgar rakið til Haussmanns baróns. En til að skapa þá París sem við þekkjum í dag, varð að rífa heilu borgarhverfin, minnismerki voru eyðilögð eða flutt, götur ruddar og nýjar lagðar. Verslunarmiðstöðvar risu og þóttu sumar ekki par merkilegar þá.
Þessar framkvæmdir sem stóðu yfir í áratugi voru langt frá því að vera óumdeildar.
Með þessu skipulagi hvarf "hin sjarmerandi Parísarborg" og ómetanlegar húsbyggingar allt frá miðöldum. "Ómetanlegum" menningarverðmætum var fargað. Dregið var strik yfir söguna að hluta til.
En París er falleg. Heilsteypt og glæsileg. Enn rífa Frakkar hús, jafnvel við Champs Elysee, en þó þannig að framhliðin heldur sér yfirleitt, svo er byggt "hentugt" hús á bakvið. Bankar breytast í plötuverslanir og þar fram eftir götunum, sumt af innréttingunum heldur sér annað ekki. Flestir Frakkar láta það sér í léttu rúmi liggja, en hafa meiri áhyggjur af því að skyndibitastaðir séu að taka yfir götuna.
En líklega er það of mikil bjartsýni að halda að uppbygging á Íslandi verði nokkurn tíma með slíkum hætti. Íslendingar halda sig við það að geyma "sýnishorn" hér og þar, og "bútasaumur" er kjörorð dagsins.
Húsfriðunarsinnar fá eitt og eitt hús, uppbyggingarsinnar eina og eina lóð, enginn er ánægður og ekkert gerist. Nema að miðborginni heldur áfram að blæða út hægt og rólega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.