15.8.2008 | 03:15
Að skreppa saman
Ég var nýlega staddur í Eistlandi. Ekki er hægt að segja að ég hafi áþreifanlega orðið var við kreppuna, ekki þegar ég gekk um göturnar. Þar var allt í blóma, miðbærinn fullur af ferðamönnum og verslanir fullar af fólki, jafnt erlendum sem innlendum.
En kreppueinkennin mátti þó sjá þegar skyggnst var dýpra.
Mikið af húsnæði var til sölu eða leigu og ekki óalgengt að sjá að verðið hefði verið lækkað. Verð á húsnæði í Tallinn hafði lækkað á bilinu 8 til 15% síðustu 12 mánuðina. Fasteignasalar sem ég þekki og hitti báru sig ekki vel.
En almennt verðlag hefur farið hækkandi og voru margar vörur mikið mun dýrari en þær eru hér í Kanada. Þó eru laun almennt lægri, þó að þau hafi reyndar hækkað drjúgt á undanförnum árum.
Finnar sem keyptu og byggðu mikið af sumarbústöðum stuttu eftir að Eistland endurheimti sjálfstæðið sitt vilja nú margir hverjir selja. Eistland býður ekki upp á jafn ódýrt sumarleyfi og áður. Þeir vilja líka innleysa hagnað áður en verðið lækkar frekar.
Eistneska krónan er beintengd euroinu og hefur því verið gríðarlega sterk undanfarin misseri. Það hjálpar ekki, hvorki hvað varðar útflutning eða ferðamennina. Stöðugur gjaldmiðill er vissulega af hinu góða, en leysir langt í frá öll vandamál og getur í sumum tilfellum búið þau til.
Ekki er ólíklegt að næstu ár eigi eftir að reynast Eistlendingum erfið. Eins og víða hefur hröð uppbygging þeirra verið fjármögnuð að miklu leyti með lánum, sem erfitt er að fá í dag. Vextir hafa hækkað og framleiðslugreinar hafa margar hverjir látið undan síga.
Mikilvæg tekjulind fyrir landið hefur sömuleiðis verið sá fjöldi sem hefur farið út fyrir landsteinana til að vinna um lengri eða skemmri tíma og fært fé heim. Nú þegar útlit er fyrir að vinna dragist víða saman kemur það til með að auka á erfiðleikana.
Kreppa skollin á í Eistlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.