Nokkrir góðir dagar í Eysýslu

Nú hefur Bjórárfjölskyldan eytt undanförnum dögum í Eysýslu, eða Saaremaa eins og það heitir upp á Eistnesku. Þessi eyja er Íslendingum að góðu kunn, þó að þeir komi ef til vill ekki margir hingað, en hingað lá leið Gunnars á Hlíðarenda er hann lagði í víking ásamt bróður sínum, og hélt í austurveg.

Við tókum ferjuna um hádegi á föstudag, þetta er ekki nema u.þ.b. hálftíma sigling, mikið var um að vera og þrjár ferjur í stöðugum förum og stemningin góð.

En hér er gott að vera, sumarbústaðurinn sem við höldum til í er án allrar nettengingar, en sjónvarp næst vel, því sá ég Þýska kappaksturinn í gær, en get þó ekki sagt að hann hafi vakið mér mikla gleði. Þó sáust ágætis sprettir í akstri, Hamilton ók fantavel og átti sigurinn virkilega skilið, en Ferrarimenn voru ekki alveg að gera það sem ég ætlast til af þeim, en þó átti Raikkonen góða akstursspretti og Massa komst á pall, en kröfurnar eru meiri en það.

Það var sömuleiðis ágætist tilbreyting og finning að sjá Piquet á pallinum og sýnir vel hvernig góð áætlun með hæfilegum skammti af heppni getur skilað ökumönnum áfram í Formúlunni, umfram allt er að vinna vel úr möguleikunum sem gefast.

En við verðum hér í Eysýslu fram að helgi eða svo en þá er áætlað að halda til baka til Tallinn. Lífið er sem áður ákaflega ljúft og börnin kunna vel við sig í "sveitinni". Sólin hefur skinið, sjórinn að vísu full kaldur ennþá, en nóg af undarlegum stöðum og hægt að týna upp í sig bæði villt jarðarber, brómber og einiber. Jarðarberin eru sæt og bragðsterk, brómberin flest full súr ennþá, en eina bragðið sem einiberin minna mig á er auðvitað gin, eðlilega.

Bráðum er svo meiningin að halda til Kuressaare, höfuðborgar héraðsins og þar ætti ég að komast í nettengingu og geta póstað þessu á bloggið.

P.S. Núna sit ég á bókasafninu í Kuressaare nýt þráðlausrar nettengingar og er að hlaða þessu upp sem og bæta við myndum á Flickr síðuna mína.  http://www.flickr.com/photos/tommigunnars


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband