16.4.2006 | 19:32
Hverjar eru ær og kýr bænda?
Ég var að hugsa um það á meðan ég hanteraði nautasteikurnar sem ég ætla að grilla í kvöld, hvernig stendur á því að í þeim löndum sem ég hef búið í, þá fer svo mikill tími um að ræða kaup og kjör bænda og hvernig samfélagið (stjórnvöld) geti komið þeim til hjálpar og styrkt framleiðslu þeirra og þeir notið bærilegra lífskjara.
Allir þekkja líklega landbúnaðarumræðuna á Íslandi, þau ár sem ég bjó í Frakklandi voru bændur og umræða um þá verulega fyrirferðarmikil, þeir rústuðu stöku McDonalds stað og komu reglulega í bæinn á dráttarvélunum sínum, gjarna með mykju eða rotnandi grænmeti meðferðis, sem var svo sturtað á ýmsa mótmælalega mikilvæga staði. Jafnvel þessa fáu mánuði sem ég bjó á Spáni voru bændur aldrei langt frá umræðunni, og sýndist sitt hverjum.
Hér í Kanada hafa bændur sömuleiðis verið að koma í bæjarferðir upp á síðkastið og hafa rekið kýr (engar ær með) sínar yfir mótmælalega mikilvæga staði og krefjast milljarða dollara í aðstoð frá samlöndum sínum hér í Kanada og þá að sjálfsögðu til viðbótar við þá milljarða sem þeir fá nú þegar.
Mjólkurframleiðsla hér í Kanada mun t.d. vera í svipuðum viðjum og á Íslandi, kvótakerfi hefur verið komið á laggirnar, kvóti gengur kaupum og sölum dýru verði og bannað er að flytja inn mjólk, og líka að flytja hana út. Kúabóndi sem hefur verið að flytja mjólk út til Bandaríkjanna, án niðurgreiðslna á í útistöðum við samtök mjólkurbænda.
En hvers vegna er svona komið fyrir þeim sem eru að framleiða það sem okkur er öllum svo nauðsynlegt, hvers vegna eiga þeir sem framleiða mat svona erfitt með sinn rekstur?
Búin verða æ stærri og nýta æ meiri tækni, en samt geta þeir ekki selt framleiðslu sína á því verði sem þeir telja sig þurfa og þurfa að treysta á niðurgreiðslur hins opinbera.
Koma niðurgreiðslurnar í veg fyrir framþróun og bætta framleiðni, eða gera þær okkur einungis kleyft að kaupa mat, án þess að tæma budduna?
Er betra að borga fyrir landbúnaðarvörur á tveimur stöðum? Fyrst hjá skattinum og svo afganginn í stórmarkaðnum eða slátraranum? Eru þessar niðurgreiðslur fyrir neytendur eða bændur?
Er mikilvægara fyrir bændur að vera sýnilegur þrýstihópur heldur en að leita betri og ódýrari leiða til að yrkja jörðina?
Eða eru styrkir stjórnvalda þeirra ær og kýr?
Ekki ætla ég að halda því fram að ég hafi svarið við öllu þessu, en þetta er gott umhugsunarefni á meðan ég held áfram að undirbúa kvöldmáltíðina, sem að sjálfsögðu byggist öll upp af landbúnaðarafurðum. Þeir sem leggja til hráefnið í þetta sinn eru að sjálfsögðu kanadískir bændur, hugsanlega gæti hluti komið frá starfbræðrum þeirra í Bandaríkjunum, og líklega drekk ég gerjaðan vínberjasafa frá ítölskum eða spænskum vínbændum (ekki búið að velja endanlega).
Það skyldi þó ekki vera að kvöldmáltíð fjölskyldunar sé niðurgreidd af skattgreiðendum í þremur löndum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.