6.7.2008 | 15:17
Skemmtilegt en samt svo slæmt
Silverstone kappaksturinn var ákaflega skemmtilegur áhorfs. Hamilton vann ákaflega sanngjarnan og verðskuldaðan sigur, frábær ræsing og góður akstur. Frammistaða Ferrarimanna var eitthvað sem enginn vill leggja á minnið en er samt svo nauðsynlegt að gera.
Heidfeld átti góðan dag fyrir BMW en Kubica missti af upplögðu tækifæri til að taka forystuna titilslagnum á ný. Maður dagsins var gamla brýnið Barrichello, þriðja sætið er stórkostlegur árangur fyrir hann. Það eru margir sem reikna með því að hann leggi stýrið á hilluna eftir þetta tímabil, en hann sýndi að hann er enn þess megnugur að hala inn stig og myndi líklega gera meira af því ef Honda næði að setja samkeppnishæfan bíl undir hann og Button.
Það var eiginlega ótrúlegt að horfa á Ferrari kasta frá sér möguleikanum á því að keppa um sigurinn. Að halda dekkjunum virkaði á mig sem ótrúleg áhætta, sérstaklega þar sem við sjónvarpsáhorfendur höfðum heyrt fleiri en eitt lið fullyrða í talstöðina að rigning væri væntanleg á næstu 5 mínútum. Um Massa þarf lítið að ræða, akstur hans var einhver dýrasti tími í "spinning" sem um getur. Að eiga síðasta bíl í mark er ekki eitthvað sem við erum vanir. Hreinlega skammarlegt.
Þegar horft er á Ferrari gera mistök í þjónustuhléum og hafa tapað því forskoti sem þeir oft höfðu hvað varðar keppnisáætlanir, er ekki laust við að ég gjói augunum til Brawn, sem að því er virðist stýrði Barrichello nokkuð örugglega í þriðja sætið og hefði líklega náð 2. ef bensíndælan hefði ekki staðið eitthvað á sér.
En ljósi punkturinn er að titilkeppnin er galopin, 3. jafnir, Kubica skammt undan og Heidfeld þarf ekki mörg "breik" til að eiga möguleika á að blanda sér í keppnina. Það er því nokkuð ljóst að seinnihluti mótaraðarinnar verður skemmtilegur og hver einast kappakstur telur, "big time" og hver mistök sömuleiðis. Það er því líklegt að þetta verði hörkubarátta allt til síðasta móts.
Hamilton fyrsti enski ökuþórinn sem sigrar í 13 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Alveg sammála þessu innleggi þínu. Og mér datt nákvæmlega það sama í hug varðandi Brawn og dekkjaval Hondaliðsins. Hann var jú aðal herfræðingurinn hjá Ferrari og á sinn þátt í velgengni Schumacher. Athyglisvert einmitt þegar myndavélinni var beint að honum á stjórnborðinu undir lokin.
Ágúst Ásgeirsson, 6.7.2008 kl. 15:32
Staðreyndin er auðvitað sú að kappakstur er hópíþrótt, þó að eðlilega fái ökumaðurinn mesta athyglina. Schumacher - Brawn - Todt, er líklega öflugasta "troikan" sem til hefur verið í Formúlunni. En hver einasti hlekkur þarf að vera góður og vinna verk sitt af kostgæfni.
"Sleikipinnamaðurinn" (reyndar óþarfur hjá Ferrari), dælumeistarinn, þeir sem losa of festa rærnar, veðurfræðingar, hönnuðir, allir þurfa að skila sínu. En í þessu eins og öðru gildir að "eftir höfðinu dansa limirnir" og því er áríðandi að stjórnendur og ökumenn, "toppurinn á pýramídanum" séu góðir, áreiðanlegir og færir um að laða það besta fram í öllum.
Þá er liðið ein heild og líklegt ti afreka.
G. Tómas Gunnarsson, 6.7.2008 kl. 21:34
Maður er farin að sjá samskonar mistök hjá Ferrari og hinum liðunum eftir að Brawn og Todt fóru úr brúnni, eitthvað sem sást varla áður.
Hins vegar held ég að það hafi ekki bara verið Brawn að þakka hve vel Honda eða öllu heldur Barrichello gekk í þessari keppni. Barrichello hefur alla tíð verið snillingur í rigningu hvað sem svo má segja um hann sem ökumann almennt. Hann sló Schumacher oft við í slíkum keppnum og þegar rignir skiptir bíllinn miklu minna máli. Þannig að þó að góð áætlun hafi örugglega hjálpað honum þá ók hann bara einfaldlega eins og meistari í þessari keppni og átti þriðja sætið fyllilega skilið.
Einar Steinsson, 7.7.2008 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.