17.11.2006 | 20:07
Kæri Hlynur
Hlynur Hallsson, 15.11.2006 kl. 22:28"
Neðanritað byrjaði sem svar við athugasemd sem mér barst á blog mitt, en ég sá að þetta væri betur komið sem sjálfstæð færsla.
Kæri Hlynur,
Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir athugasemdina og umhyggjuna fyrir atkvæði mínu.
Vissulega hef ég lýðræðislegan rétt til að ráðstafa atkvæði mínu, það enda dýrmætur réttur, í raun alltof dýrmætur til að skila auðu, eins og þú mælir þó með sem öðrum valkost.
Ég sagði það í bloggi mínu að ég væri ekki einn af þeim sem fagnaði endurkomu Árna Johnsen til endurkomu á alþingi, en þar stóð líka að svo væri um marga aðra þingmenn.
Það er nú svo að þeir eru ekki margir þingmennirnir sem ég get sagt að hrífi mig, þó að þeir hafi sjálfsagt eitthvað til síns ágætis flestir hverjir. Því er það svo að oft verður fyrir valinu sá kostur sem mér þykir skástur, en ekki endilega sá kostur sem ég tel fullkomin, þegar kemur að því að ráðstafa áðurnefndu atkvæði.
Mér hugnast ekki endurkoma Árna, en mér hugnast heldur ekki að þingmenn sem lýsa því yfir að því sé fórnandi að íslensku bankarnir flytji úr landi, svo hér sé hægt að "jafna niður á við". Það gerði flokksbróðir þinn Ögmundur Jónasson.
Mér hugnast það heldur ekki vel að þú sjálfur, Steingrímur J. Sigfússon, Róbert Marshall, svo einhverjir séu nefndir, komist til valda og áhrifa, og mynduð ákveða að hleypa úr Hálslóni næsta sumar. Persónulega er ég þeirrar skoðunar halda beri áfram að nýta orkuauðlindir Íslands. Því myndi ég seint nota atkvæði mitt til að styrkja Vinstri græna.
Ég myndi ekki gráta það þó að þingflokkur Frjálslyndra þurkaðist út, ég er ágætlega sáttur við núverandi fiskveiðstjórnarkerfi, og hugnast ekki áherslur, í það minnsta sumra þeirra í innflytjendamálum, hef ekki séð að þeir hafi mikið til viðbótar fram að færa.
Ég myndi ekki nota atkvæði mitt til að þingmenn sem hafa lýst þeirri skoðun að til greina komi að snúa við sönnunarbyrði í sakamálum, þannig að ákærðir gætu þurft að sanna sakleysi sitt, komist til valda. Þó hef ég ekki getað skilið betur af málflutningi flokkssystur þinnar, hennar Kolbrúnar Halldórsdóttur, hvað varðar kynferðisafbrot.
Þetta er nú svona aðeins stuttlega farið yfir sviðið, en ætti að nægja til að þú sjáir "úr hvaða átt" ég kem, ef svo má að orði komast.
Ég hef áður lýst því yfir að ég myndi ekki kjósa Árna Johnsen, og hefði ekki gert það í prófkjörinu hefði ég haf þar atkvæðisrétt.
Hinu er ekki hægt að neita, að ef mitt utankjörfundaratkvæði ætti þátt í því að koma Ragnheiði Ríkarðsdóttur á Alþingi sem 6. þingmanni Sjálfstæðiflokksins í "Kraganum", þá mun svo sannarlega ekki verið til einskis farið á kjörstað.
Með kærri kveðju
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Saga | Breytt s.d. kl. 20:09 | Facebook
Athugasemdir
Kæri Tómas,
takk fyrir þann heiður að skrifa sérstaka bloggfærslu um litla athugasemd mína um daginn á bloggið hjá þér. Það hefði samt verið enn betra að fá þetta persónulega bréf í tölvupósti frá þér yfir hafið. En fyrir algera tilviljun rakst ég á þetta núna.
Fallegir draumórar þínir um að 6. sætið á D-listanum í suðrinu verði þingsæti. Og vissulega má deila um það hvort bæjarstjórinn í Mosó sem stefndi á 3ja sætið en lenti í því sjötta eigi brýnt erindi á þing. En þú skalt nú bara hafa þetta eins og þú vilt og ef þú endilega vilt styðja Árna Johnsen og kvitta þarmeð uppá syndaaflausn honum til handa, þá bara gjörðu svo vel. Sumir heiðvirðir Sjálfstæðismenn hafa hinsvegar sagt sig úr Flokknum og það finnst mér mun skynsamlegra.
Og, það er orðið ansi þreytt að snúa útúr ummælum Ögmundar Jónassonar en hann er nú fullfær um að verja sig sjálfur svo ég mæli með því að þú lesir síðuna hans www.ogmundur.is við fyrsta tækifæri. En plís ekki nota svona röksemdafærslu til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ("af því að allir hinir eru svo miklu verri"-rökin)
Bestu kveðjur,
Hlynur
Hlynur Hallsson, 19.11.2006 kl. 00:10
Það er ekkert að þakka kæri Hlynur. Ég hef haft það fyrir sið að svara þeim athugasemdum sem á síðuna mína koma, svona eftir tíma, efni og aðstæðum. Mér fannst einfaldlega sú sem þú skrifar hér við það stór að hún verðskuldaði sérstaka færslu. Hvað varðar tölvupóst til þin, þá hef ég ekki né hef nokkurn tíma haft póstfang sem tilheyrir þér í vörslu minni, þannig að það er tómt mál að tala um. Ég reyndar sækist ekki eftir því, hef enda ekki í hyggju að standa í bréfaskriftum við þig, nema þá með þeim hætti eins og áður sagði að ég svara gjarna þeim athugsemdum sem á síðu mína berast.
Hvað varðar draumóra um 6 menn til handa Sjálfstæðisflokki í "Kraganum" er ég þess fullviss að sjálfstæðismenn fá 5 eða 6 menn í kjördæminu. Vissulega bregður þar til beggja vona, og þess vegna sagði ég að ef mitt utankjörfundaratkvæði yrði til þess að 6 maðurinn dytti inn, hefði ég ekki farið til einsis á kjörstað.
Hvað varðar ummæli Ögmundar þá hefur hann sjálfur svarað fyrir þau og reynt að "tóna" þau niður. Hvað hann átti nákvæmlega við með "þotufólkinu" er vissulega teygjanlegt. En hvað hann átti við með því að "þotufólkinu færi fórnandi" hefur vissulega ekki verið útskýrt til hlýtar af hans hálfu.
En ég tel það nokkuð ljóst að ef starfsumhverfi fjármálafyrirtækja tæki miklum breytingum á Íslandi, t.d. með aukinni skattlagningu eins og Ögmundur og VG virðist gjarna boða, þá myndi stór hluti starfsemi þeirra flytja úr landi og "þotufólkið" með þeim. Vissulega myndi jöfnuður aukast á Íslandi við það, en það yrði niður á við. Ég skyldi Ögmund á þann hátt að það fyndist honum ásættanlegt.
Hvað það varðar að kvitta upp á syndaaflausn Árna Johnsen, þá skil ég ekki þau rök þín að til þess að refsa Árna, sem ég vil ekki sjá á þingi, eigi ég ekki að kjósa þau þingmannsefni sem ég vil sjá á þingi, sem líklega myndi þá stuðla að því að mörg þau þingmannsefni, sem ég vil ekki sjá á þingi kæmust þangað inn.
Það er einfaldlega rök sem ég skrifa ekki upp á.
Nú er þetta orðið löng athugasemd og ætti líklega heima sem sérstök blogfærsla, en til þess að "heiðra" þig ekki frekar þá læt ég þetta standa hér í athugasemdum.
Með kærri kveðju
G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2006 kl. 17:04
Bæta við athugasemd
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.
"Sæll Tómas,
nú hefur þú lýðræðislegan rétt til að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn. Ég mæli með VG en ef það er of stór biti fyrir diggan Flokksmann þá getur þú til vara bara skilað auðu!
Bestu kveðjur,