22.6.2008 | 21:27
Alla baddarí - Ferrari
Það er alltaf gott að byrja daginn með því að horfa á Ferrari sigur. Ljúfur sigur í morgun.
Massa og Raikkonen keyrðu af öryggi og þó að pústurrörið væri að angra Kimi var annað sætið aldrei í hættu, yfirburðir þeirra voru þvílíkir.
Trulli kætti Toyotamenn og Kovalainen og Kubica áttu vel ásættanlegan dag. Nelson Piquet náði loksins í stig, þannig að þetta var stór dagur fyrir hann, en Alonso hefur líklega ekki verið alveg sáttur, en hann átti sérstaklega afleita ræsingu.
Hamilton átti erfitt uppdráttar, að ræsa úr þrettánda sætinu á Magny Cours er ekki auðvelt. Hann gerði svo eiginlega út um allar vonir sínar um stigasæti með því að "sleppa beygju", og taka þannig fram úr Vettel. Hann var að segja má kominn fram úr, en hefði ekki getað haldið framúrakstrinum, ef hann hefði ekki farið beint.
Ég varð eiginlega alveg rasandi hissa á því að McLaren liðið skyldi ekki láta hann gefa eftir sætið eins og skot, það var það eina rétta í þessarri stöðu. Það verður að teljast líklegra en ekki að dómarnir veiti refsingu fyrir þetta en ekki. Því er það illskiljanlegt að taka áhættuna á því að halda sætinu.
Líklega eru margir McLaren menn ósáttir við þennan dóm, en það má benda á að það eru gefnar upp þrjár refsingar við athæfi sem þessu, og Hamilton hlaut þá vægustu. Hinar tvær eru 10 sec stopp og að færast aftur um 10 sæti í næstu keppni (þá hefði nú líklega farið um McLaren aðdáendur).
En kappaksturinn var skemmtilega og ágætlega spennandi að horfa á, því þó að fyrstu 2. sætin væru að segja mætti frátekin, voru ágætis aksturtilþrif víða. En svo er það auðvitað alltaf best þegar Ferrari sigrar.
Ferrari í sérflokki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.