18.6.2008 | 15:47
Af bjarnargreiðum og veiðum
Þó að það sé eins og að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um "stóru bangsamálin", þá langar mig að minnast á ýmislegt sem vakti athygli mína.
Margir hafa vakið máls á því að þetta sé ekki pólitískt mál og að út í hött sé að leggja það "að fótum" Umhverfisráðherra. Í sjálfu sér er ég sammála því. En það vekur hins vegar spurninguna, hvað var Þórunn að gera norður? Ekki nóg með að ráðherra þjóni engum tilgangi á staðnum, heldur hafði komið fram í fjölmiðlum að Þórunn væri í fríi. Hvað gekk ráðherra til? Til hvers taldi hún sig þurfa að leigja flugvél til að komast á staðinn?
Hennar pólítíska ábyrgð er að útskýra það fyrir almenningi.
Það hefur sömuleiðis vakið athygli mína að lýðskrumarar á Íslandi sem sáu alla meinbugi á því að taka á móti erlendu flóttafólki, sjá ekkert því til fyrirstöðu að hið opinbera eyði milljónum af almannafé til þess að flytja ísbirni til síns heima.
Hefði ekki verið betra að skjóta birnina strax og ánafna samsvarandi peningum og áætluð björgun kostaði til rannsókna og aðstoðar við ísbirni í sínum náttúrulegu heimkynnum?
Íslendingar virtust nú í seinna skiptið vera að "panikera". Talað var að þyrfti að flytja ábúendur að Hrauni á brott og allir virtust óttast björninn. Danski "sérfræðingurinn" kom með 9. ára son sinn með sér, vegna þess að ekki hafði verið hægt að finna pössun fyrir hann í Danmörku. Hvar var drengurinn svo passaður? Jú, um það sá húsfreyjan að Hrauni.
Persónulega tel ég að heilladrjúgast sé að aflífa þá birni sem koma til Íslands, nema ef vilji er til þess að koma upp athvarfi fyrir ísbirni einhversstaðar, til dæmis í Húsdýragarðinum. Það er engin ástæða til þess að gera of mikið úr útrýmingarhættu hjá ísbjörnum, og það að ferja eitt eða tvö dýr til síns "heima" skiptir ekki nokkru máli þar um. Mesta hættan sem stafar að ísbjarnastofninum er hlýnun jarðar, sem minnkar kjörlendi þeirra. Þó benda flestar vísbendingar til þess að bangsar hafi áður mátt þola þrengingar sem stafa af hlýnun. Elstu steingervingar af ísbjörnum eru u.þ.b. 100.000 ára gamlir og benda það til þess að þeir hafi aðlögunarhæfni til að takast á við mismunandi hitastig.
Auðvitað er það "grand" af fyrirtækjum að bjóðast til þess að kosta björgun bangsa. Ég velti því fyrir mér hvað sé inni í þeim kostnaði.
Skyldi til dæmis áralöng vinna ábúenda að Hrauni við að byggja upp æðarvarp verða greitt af þeim sem kosta björgunina?
Nú þurfa fjölmiðlar sömuleiðis að ganga hart eftir því að fá allar kostnaðartölur varðandi björgunina og hvernig hann skiptist á milli einkaaðila og hins opinbera.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.6.2008 kl. 02:59 | Facebook
Athugasemdir
Þar sem ég var að leita mér upplýsinga hvítabirni á Wikipediu í dag sá ég að það séu heil 500 dýr drepin á ári í Kanada. Þar bæði um að ræða frumbyggjaveiðar og sportveiðar, það er semsagt hægt að versla sér veiðileyfi á hvítabirni þar í landi. Ég veit ekki til þess að þetta hafi haft mikil áhrif á gengi Kanada í alþjóðasamstarfi, það vilja samt allir vera vinir þessa ágæta lands.
Það er kannski óvitlaus hugmynd fyrir íslenska ráðamenn eða auðkýfinga sem eru þjakaðir af sektarkennd vegna sviplegra fráfalla bjarndýra á Íslandi að þeir taki upp "ísbjarnajöfnun" (sbr. kolefnisjöfnun) og kaupi veiðikvóta í Kanada (og sleppi því að nota hann) fyrir hvert dýr sem fellt er á Íslandi. Þannig viðhalda þeir stofninum á heimsvísu og það er örugglega ódýrara en þetta bras við að ná dýrunum lifandi á Íslandi og flytja á milli landa.
Þetta hefur sennilega ekki sama auglýsingagildi samt.
Bjarki (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 22:45
Ég held að þetta sé rétt það séu u.þ.b. 500 dýr felld hér í Kanada árlega. Eitthvað er það vegna þess að bjössar verða of nærgöngulir og svo eru gefin út kvóti árlega. Ef mig minnir rétt er allur kvótinn í höndum frumbyggja, sem deila honum svo út á meðal sinna meðlima, eða selja hann veiðimönnum. Ég heyrði einhvern tíma að það kostaði 35 til 40.000 dollara að kaupa veiðileyfi á einn ísbjörn. Það eru því öngvir "bolir" sem stunda þessar veiðar.
En mér finnst ég líka hafa heyrt að á Grænlandi séu veidd eitthvað vel á annað hundrað dýr árlega. Þannig að það er ekki eins og meiningin hafi verið hjá Íslendingum að flytja bjössana til einhvers griðasvæðis.
En hvernig þetta hefur verið blásið út og gert að einhverju hálf pólítísku moldviðri er umhugsunarvert. Meira að segja Össur virðist slæma hrammnum í Þórunni Birnu, flokkssystur sín og nota tækifærið og níða hana niður, um leið og hann hrósar Björgvini skóflustungu.
En ef til vill er það skáldlegt réttlæti í því fólgið að ef af þessu verða pólítísk eftirköst, þá sé það Þórunn Birna sem verði fyrir þeim, því það er einmitt fólk eins og hún sem hefur spilað upp histeríu hvað þessi mál varðar.
G. Tómas Gunnarsson, 19.6.2008 kl. 01:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.