19.5.2008 | 02:36
Eftirlaun, annríki, aukavinna og aðstoðarmenn
Það er nú best að ég taki það fram í upphafi að þessi færsla er ekki til þess ætluð að réttlæta hið svokallaða eftirlaunafrumvarp. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það færi vel á því að þingmenn, ráðherrar að aðrir slíkir hefðu álíka réttindi og aðrir.
En það er eitt sem ég hef velt nokkuð fyrir mér, og það er hvernig stendur á því að það virðist fara svo gróflega í taugar Íslensku þjóðarinnar að menn á eftirlaunum skuli stunda aðra launaða vinnu, en sú staðreynd að þeir sem þjóðin borgar laun fyrir að sitja á Alþingi, sem telst fullt starf síðast ég vissi, geta tekið að sér "smá" viðvik hér og þar, svona eins og að sitja í sveitarstjórnum. Það virðist ekki vera mikið tiltökumál.
Meira að segja þingmenn sem koma úr hinum "víðfeðmu kjördæmum", þar sem nú er viðurkennt að álagið er svo mikið að þeir þurfi sem jafngildi 1/3 úr aðstoðarmanni til að valda starfinu, hafa fundið sér tíma til að sitja í eins og einni sveitarstjórn meðfram þingstörfum.
Skrýtið ekki satt?
Ég ætla ekki að vera að týna til nein nöfn, flestir þekkja eflaust mörg dæmi um að þingmenn sinni öðrum störfum og því miður virðist það verða æ algengara að þingmenn sitji jafnframt í sveitarstjórnum.
Ef Íslendingar eru svo reiðir yfir því að eftirlaunaþegar, sem ekki inna starf af hendi fyrir launin sín taki að sér önnur verkefni, þá ættu þeir ekki að líða að þeir sem ætlað er að skila fullu starfi séu sífellt í einhverri "aukavinnu".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.