2.11.2006 | 17:22
Hverjir hafa yfirráð yfir auðlindinni - Félagaskrár
Það er ýmislegt sem er nauðsynlegt til þess að ná árangri í prófkjörum. Eitt er auðvitað að hafa eitthvað fram að færa, eitthvað af peningum er líka til bóta (en þó ekki nauðsynlegt eins og dæmin sanna), en líklega er þó nauðsynlegasta að ná sambandi við markhópinn sem leyft er að taka þátt í viðkomandi prófkjöri.
Þar kemur til sögunnar "auðlindin" mikla, félagaskrár og aðgangur að þeim. Þó nokkrar umræður hafa orðið um mismunandi félagaskrár í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en það er víðar sem félagaskrárnar eru umtalsefni.
Á vefsíðunni www.bensi.is, sem er heimasíðar Benedikts Sigurðarsonar, sem er þátttakandi í prófkjöri Samfylkingar í Norð-Austurkjördæminu má finna pistil um þetta brennandi málefni.
Þrjú dæmi úr pistilinum:
"Í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi fengu frambjóðendur ljósrit eða útprent á pappír (hvítum pappír). Nafn, kennitala, heimilisfang, póstnúmer og símanúmer (heima og GSM). Það vakti hins vegar athygli að það voru afar fá símanúmer gefin upp í einstökum byggðarlögum. Engin netföng voru gefin upp þó gert væri ráð fyrir því að frambjóðendur beinlínis nýttu sér þá leið til samskipta við kjósendur.""Það er örugglega ekki í þágu lýðræðisins og heldur ekki í þágu stjórnmálaflokkanna sjálfra að leggja hindranir í götu einstakra frambjóðenda umfram aðra. Það vita auðvitað allir að þeir sem mesta fjármuni hafa milli handa geta auðveldlega fjármagnað og mannað endurvinnslu á flokksskránum - og uppfært rafrænar útgáfur - bæði með símanúmerum og netföngum. Á sama hátt vita allir að frambjóðendurnir sem voru að vinna að framboði sínu og sinna flokka í sveitarstjórnarkosningum fyrir nokkrum mánuðum - hafa allan aðgang að undirbúnum gögnum - sem hinir sem voru utan við sveitarstjórnarslaginn - eða koma úr fámennum byggðum - hafa þá ekki aðgang að.
Það hvarflaði t.d. ekki annað að mér eina mínútu en að Alþingismenn sem eiga heima á Siglufirði og í Fjarðabyggð hefðu ótruflaðan aðgang að flokkslistum - þeirra félaga - með öllum símanúmerum og netföngum réttum og uppfærðum. Þó við sem komum annars staðar frá hefðum ekki þennan aðgang. Á sama hátt liggur í augum uppi að forystumenn í Samfylkingarfélaginu á Akureyri hafa aðgang að ítarlegri og uppfærðri félagaskrá. Hvernig menn nota síðan slíkar upplýsingar - í lokuðum prófkjörum - er örugglega ekki alveg einfalt mál."
"Í mínum huga er það ekkert vafamál að lýðræðinu og hagsmunum stjórnmálaflokkanna sjálfra er best þjónað með því að flokkarnir tryggi sem greiðastar og bestar upplýsingar fyrir frambjóðendur til að ná til kjósenda. Um leið lít ég svo á að það sé réttur kjósenda - að frambjóðendum sé auðveldað að kynna sig og koma sínum áherslum á framfæri. Auglýsingabann - getur að mínu mati orkað mjög tvímælis - þar sem kjósendur eiga þá minni möguleika á að fá upplýsingar frá frambjóðendum - og á sama hátt orkar tvímælis að banna fundi og kynningu í tilteknum miðlum."
Pistilinn í heild sinni má finna hér.
Varla þarf nokkur að efast um að fjölmiðlar muni gera þessu máli ítarleg skil á næstu dögum, og sömuleiðis má líklega eiga von á fjölmörgum bloggum frá Samfylkingarfólki þar sem fjallað verður um þetta mál.
En flokksforystan hefur oft verið nokkuð afskiptasöm í prófkjörum á Norðurlandi, er þar nærtækast að minnast Sigbjörns Gunnarssonar.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.