Ríkiskirkjan, jarðir og helvítisvist

Rakst á tvær athygliverðar greinar á Vísi.  Þar er fjallað um fjármál Ríkiskirkjunnar Íslensku og hvernig fjárhagsleg tengsl Ríkiskirkjunar og ríkisins séu.

Þessi tengsl hafa undanfarin misseri vakið upp ýmsar spurningar, og gætt hefur vaxandi óánægju með fyrirkomulag innheimtu, sóknargjalda, sérstaklega þeirra gjalda sem innheimt eru hjá þeim sem ekki tilheyrar trúfélögum, og eru því látnir greiða til Háskóla Íslands, sem sé aukaskattur lagður á trúleysingja sem rennur til menntunar.

Önnur greinin fjallaði stuttlega um fjármál Ríkiskirkjunar, en hin síðari meira um hvernig jarðir komust í eign kirkjunnar.

Mér þykir áhugavert að skoða þessi mál.  Það vakti athygli mína að það er talað um að jarðir hafi verið í eigu kirkjunnar frá því að 13. öld.  Ég hélt (án þess að hafa nokkuð sértakt fyrir mér um það mál) að allar eignir hinnar kaþólsku kirkju hefður runnið til ríkisins (kóngsins) hvar vetna sem hinn nýji síður hefði verið tekinn upp, hef alltaf skilið það þannig að það hefði verið sterkasti hvatinn til þess að þjóðhöfðingar aðhylltust mótmælendatrúnna.  En ef marka má þetta, hefur það ekki verið raunin á Íslandi.

En það skín líka í gegn um fréttina (og margt annað sem ég hef lesið) að algengt er að kirkjan virðist eignast landareignir í skjóli þess að vera því sem næst bæði veraldlegt og andlegt vald yfir Íslendingum.

Nokkuð virðist einnig vera um það, eins og eðlilegt má teljast, að kirkjan eignist jarðir með innantómum loforðum og hótunum, þ.e.a.s. loforðum um himnaríki og hótunum um helvítisvist.

Merkilegt að hugleiða það samhliða því að velta því fyrir sér að einstaklingar hafi verið dæmdir til fjársekta og refsinga fyrir að blekkja fólk á andlega sviðinu, sbr. miðla sem hafa starfað á Íslandi.

En það er ágætt að velta þessum hlutum fyrir sér, og þörf á mun dýpri úttekt eng gerð er á Vísi

En hér má lesa hluta af því sem fram kemur í greinunum.

 

"Við lítum ekki svo á að þetta sé framlag frá ríkinu heldur fyrst og fremst innheimtuþjónusta sem er kirkjunni vissulega mjög þýðingarmikil," segir Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, um þau sóknargjöld sem renna til þjóðkirkjunnar.

Árlegar tekjur kirkjunnar nema um 4,2 milljörðum króna. Samkvæmt fjárlögum þessa árs rennur af því ríflega einn og hálfur milljarður króna til almenns rekstrar þjóðkirkjunnar.

Einnig fer af því vel á áttunda hundrað milljóna króna til ýmissa sjóða kirkjunnar. Auk þess eru rétt tæpir tveir milljarðar króna í formi sóknargjalda þjóðkirkjunnar.

Skilningur kirkjunnar manna á þessum fjárframlögum úr ríkissjóði er tvíþættur. Annars vegar eru það sóknargjöldin; þau gjöld sem fólk greiðir fyrir að vera í þjóðkirkjunni; um 860 krónur mánaðarlega á hvert mannsbarn sem er eldra en sextán ára og er skráð í þjóðkirkjuna. „Það er mjög þýðingarmikið að njóta þessarar innheimtuþjónustu hjá ríkinu," segir Guðmundur, sem bendir á að sama eigi við um öll önnur skráð trúfélög í landinu. Þau njóti sams konar innheimtuþjónustu hjá ríkinu. Heildarupphæð sóknargjalda þeirra nemur 234 milljónum króna.
Féð sem fer til almenns rekstrar og það sem rennur í sjóðina er byggt á samkomulagi um jarðir þjóðkirkjunnar."

"„Við lítum ekki á þetta sem neitt einhliða góðgerðastarf af hálfu ríkisins," segir Guðmundur Þór, „og ekki sanngjarnt að líta á það þannig. Við lítum á greiðslu ríkisins til þjóðkirkjunnar á fjárlögum sem endurgjald fyrir kirkjujarðir sem voru afhentar á móti og þjónustu sem kirkjan veitir um allt land. Þetta eru sex til sjö hundruð jarðir, mismunandi verðmætar, en sumar þeirra eru ákaflega verðmætar."

„Menn reiknuðu þetta ekkert í smáatriðum, heldur var gert samkomulag sem endaði í þessu," segir Guðmundur Þór.
Gengið var endanlega frá samkomulaginu árið 2006.

Í því felst að ríkið tekur yfir megnið af jörðum kirkjunnar, sem hún eignaðist í aldanna rás, og greiðir á móti laun um 140 presta og prófasta vítt og breitt um land, auk þess að greiða laun starfsfólks Biskupsstofu. Þar starfa um tuttugu manns. Auk þess er greiðsla ríkisins til sjóða kirkjunnar byggð á þessu samkomulagi."

Síðari greinin er hér óstytt.

"„Það eru mismunandi ástæður fyrir því að jarðir komust í eigu kirkjunnar og líka mismunandi eftir tímabilum," segir Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands.

Hann bendir á að stærstu eignir kirkjunnar, biskupsstólarnir og fleiri sögufrægar jarðir, hafi komist í eigu kirkjunnar þegar á 12. öld eða jafnvel fyrr. „Eignir hafa líka verið gefnar einstökum kirkjum," segir Hjalti en bendir á að vafi gæti leikið á hver ætti í raun kirkjurnar, guð eða tilteknir verndardýrlingar sem þeim voru tileinkaðar í kaþólskum sið.

„Þá eru dæmi um að höfðingi hafi gefið kirkjunni höfuðból sitt en farið sjálfur með ráðstöfun eignanna. Þannig má segja að menn hafi komist undan því að greiða tíundina, en kannski var tilgangurinn líka að efla kirkjuna eða jafnvel koma í veg fyrir að eignir skiptust til mismunandi erfingja, enda þótt jörð hafi verið á forræði sömu fjölskyldunnar í marga ættliði." Hjalti segir að einnig séu dæmi um að eignir hafi verið færðar kirkjunni í þakkarskyni fyrir bænheyrslu. Þá sé algengt að fólk hafi viljað minnast kirkjunnar í erfðaskrám. „Þá hafði kirkjan dómsvald hér áður fyrr og dæmi eru um að henni hafi verið dæmdar jarðir."

Þjóðkirkjan vísar til þess á heimasíðu sinni í starfsreglum um kirkjur og safnaðarheimili, frá árinu 2000, að verði ágreiningur um fornar eignir og réttindi kirkna skuli leggja ýmsar gamlar skrár til grundvallar dómsmálum. Þeirra á meðal eru máldagabækur frá 14. og 15. öld, auk síðari heimilda.
Þá ríkti töluvert annar skilningur á heiminum en nú tíðkast. Til dæmis hræddust menn guð og helvítisvist, eða óhjákvæmilega dvöl í hreinsunareldi, að lífinu loknu.

Í skrá um aflát og synda­aflausnir frá því um 1500 er meðal annars þessi kafli:

„Nær sem nokkur maður hefur iðran og viðurkomning fyrir sínar syndir og gengur til skripta með þeirri hugsan og fullkomnum vilja að falla eigi aftur í dauðlegar syndir sjálfviljandi heldur betra sitt umliðið líf, þá fær sá maður aflátið ef hann sækir þá staði sem aflátið er til gefið. Þó að hann skyldi pínast ævinlega í helvíti þá vill guð gefa sína náð til og snúa þeirri ævinlegri pínu í stundlega pínu hverja þeir fá sem rétt gjöra sín skriptamál. […], því svo mikið styttir hans pínu sem hann sækir aflátið til og eingin er sá lifandi að kunna að greina, undirstanda eða vita hvað dygð aflátið hefur eða hversu dýrt og gott er það er fyrr en eftir dauðann og hann kemur í hreinsunar­eldinn og hann fer þaðan. Þá reynir hann hvað aflátið dugir og hvað hann hefur aflað."

Fólk gaf enda stofnunum kirkjunnar eignir og gjafir sér til sáluhjálpar.
Dæmi er frá 1470 um að maður hafi gefið kirkju og klerkum ýmsar sínar eignir á banastund. „Svo og skipa ég að láta syngja sálumessu engelskum er slegnir voru í Grindavík af mínum mönnum."

En stundum vottuðu gjafirnar engir nema kirkjunnar þjónar:
Árið 1460 vottar prófastur að maður hafi á banabeði gefið kirkjunni í Vatnsfirði jarðirnar Hálshús, Voga, Miðhús og hálfa Eyri þar í sókninni.
1488 votta tveir prestar að karl nokkur afleiddi kirkjuna að hálfri jörð.
Árið 1499 votta tveir prestar að Árni nokkur hafi arfleitt kirkjuna að jörð. Svo segja prestar: „Heyrðum við áður nefndan Árna Guðmundsson ekki til leggja þar um fleiri orð eður leggja nokkra þvingan upp á kirkjuna í Holti fyrir áður greinda jörð."

Þá eru einnig dæmi um að fólk hafi greitt kirkjunni sektir.
Þá var Runólfur Höskuldsson árið 1471 dæmdur til að láta jarðirnar Skollatungu, Brattavöllu og Hornbrekku til kirkjunnar „fyrir allt það hórdæmi er hann hefur í fallið með Halldóru Þórðar­dóttur og Þórdísi Guðmundardóttur". Runólfur lét sér raunar ekki segjast við þetta og var síðar gripinn með þeirri fyrrnefndu þar sem hann lá „nakinn undir einum klæðum hjá henni í kirkjunni á Bakka".

Árið 1505 tók Stefán Skálholtsbiskup jörðina í Köldukinn í Marteinstungu kirkjusókn og Kolbeinsey í Þjórsá, af Helgu Guðnadóttur, vegna misfara látins bónda hennar.

Árið 1474 setur Jón Broddason, prestur og officialis generalis vikaríus á Hólum, Solveigu Þorleifsdóttur út af heilagri kirkju, meðal annars fyrir að halda mann sem var úrskurðaður í bann, auk óhlýðni og þrjósku við guð, heilaga kirkju og sig.

Fimm árum síðar greiðir Solveig biskupnum tíu tigi hundraða fyrir manninn í banninu. Sama ár votta tveir prestar að hún hafi á banastund gefið biskupnum jörðina Flatatungu í Skagafirði.

Svo eru önnur dæmi, eins og þetta: „Þá dæmum vér oftnefnda jörð Vallholt óbrigðilega eign heilagrar Hólakirkju." Svo dæmdi biskup sjálfum sér en hann og eigandi jarðarinnar höfðu átt í nokkrum viðskiptum.
Rétt er að taka fram að þótt Markaðurinn hafi grafið þessi dæmi upp í fornbréfasafni verður ekkert fullyrt um hvort kirkjan hafi á sínum tíma eignast þessar jarðir með óvönduðum aðferðum, á þessa eða liðinna tíma mælikvarða. Né heldur hvort jarðirnar sem nefndar eru í dæmunum séu hluti af höfuð­stól þjóðkirkjunnar nú."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þjónar kirkjunnar  hafa ekkert  batnað  við að sölsa  undir sig land þó árið sé 2008.  Í minni heimabyggð byrjaði presturinn sem kom þar til starfa fyrir  innan við tíu árum á því að höfða mál gegn kristniboðssamtökum (KFUM) til að reyna að sölsa undir sig land sem samtökunum hafði verið gefið á fyrri hluta tuttugustu aldar og er á kirkjujörðinni.  Honum tókst það reyndar ekki þar sem afsalið fannst eftir mikla leit og málið að öllum líkindum fallið niður. 

Mér þykir þetta afskaplega skemmtilegt dæmi um græðgina sem biskupnum er einmitt svo hugleikinn.  Hræsnin í kirkjunni getur verið skemmtileg.  

Arnfinnur Jónasson (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 14:26

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sjálfur berðu þekkingu þinni það vitni í þessari grein, ágæti Tómas, að hún sé harla takmörkuð á þessum málum. Hér eru ýmsar afgerandi villur – og villandi framsetning.

Ég bendi þér á að lesa Mbl.grein mína frá 2002: Gegn árásum á Þjóðkirkjuna. Þar er fjallað um eignamál hennar, misskilningur leiðréttur og kippt fótum undan ásökunum á hendur henni í samtíð okkar. Vertu nú ekki að falla í sömu gryfjuna og ýmsir hafa gert áður.

Með góðri kveðju, 

Jón Valur Jensson, 13.4.2008 kl. 15:43

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Eins og ég sagði, þá hef ég enga sérstaka þekkingu á málinu og hef ekki kafað mikið ofan í það.  Dreg reyndar í efa að ég finni mér tíma til þess.

En það er margt sem er athyglivert hvað þessi mál varðar.

Sérstaklega þegar kirkjan virðist hafa verið ákærandi, dómari og sá sem stjórnaði eignaupptöku.

En það er margt í sögu kirkjunnar sem er ekki til fyrirmyndar, það á við jafnt á Íslandi sem annarsstaðar.  Skipulagðar aftökur, sölsað undir sig eignir og þar fram eftir götunum. 

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2008 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband