31.3.2008 | 20:37
Helmingur af ágætis tillögum
Þessar tillögur Framsóknarflokksins eru alls ekki slæmar. Það er auðvitað löngu tímabært að lækka skatta og álögur. Hvort að þetta eru þeir skattar sem mest er áríðandi að lækka má auðvitað deila um, en einhversstaðar verður að byrja og þetta líklega ekki verri staðir en hverjir aðrir.
Síðan þarf að halda áfram og fell niður fleiri álögur.
Það er ágætt að fella niður vsk á matvælum, þó að flestir telji reyndar að best sé að hafa einu % yfir línuna, þá er þegar búið að breyta því, þannig að það er ekkert að því að fara niður í núllið. Hér í Kanada er ekki söluskattur af matvælum, en u.þ.b. 13% af öðru og virðist það ekki valda teljandi vandræðum.
Niðurfelling stimpilgjalda er löngu tímabær, og sú tillaga ríkisstjórnarinnar að fella aðeins niður stimpilgjald hjá þeim sem eru að kaupa íbúði í fyrsta sinn er "bastarðu" svo að ekki sé sterkara til orða tekið. Mikið betra að taka skrefið alla leið.
Að helminga skatta á eldsneyti er ef til vill sísta hugmyndin af þessum þremur, en það er fátt sem fær mig til að andmæla skattalækkunum við núverandi álagningarstig.
Mér telst nú til að þetta séu aðgerðir upp á 25 milljarða, en ekki 18. eins og talað er um í fréttinni, en eitthvað myndi nú að sjálfsögðu skila sér í auknum virðisaukaskatti annarsstaðar.
En eins og fyrirsögnin segir, er þetta aðeins helmingurinn af ágætum tillögum, því það vantar alveg að minnast á hvar eigi að skera niður fyrir þessum skattalækkunum. Það hefði verið mun sterkari leikur af hálfu Framsóknar ef slíkar tillögur hefðu fylgt.
En, það er í sjálfu sér ekki nein ástæða til þess að örvænta þó að slíkar tillögur hafi ekki komið fram, því af nógu er að taka.
Sjálfum dettur mér fyrst í hug framlög til landbúnaðar, en þar er nú líklega eitthvað erfitt um vik, þar sem mest er þar líklega bundið niður í samninga, en það má byrja strax að ákveða niðurskurð þegar samingstíma lýkur. En góður niðurskurður í landbúnarkerfinu gæti lagt til stóran part af því fjármagni sem þarf til að "brúa" þennar skattalækkanir.
Ég held að umfangsmikill niðurskurður í menningarframlögum væri líka vel við hæfi.
Til greina kæmi auðvitað að tilkynna að fallið hafi verið frá því að alþingismenn ráði sér aðstoðarmenn. Ef drifið yrði í því að breyta eftirlaunafrumvarpinu mætti sömuleiðis spara töluverðar fjárhæðir.
Því miður er of seint að hætta við Héðinsfjarðargöng og tónlistahús í Reykjavík, en þar eru einmitt verkefni sem hefðu fallið vel að niðurskurði.
Blása mætti af framboð Íslands til Öryggisráðsins. Þó að vissulega "tapist" á því miklir peningar er betra að afskrifa þá en að halda áfram að henda fé í hítina.
Auðvitað er freistandi að minnast á að spara mætti í almennum rekstri ríkisins, fækka starfsfólki og þar fram eftir götunum, en það er nú óþarfi að flytja inn í einhverjar skýjaborgir.
En það er löngu tímabært að fara að skera fitu af hinu opinbera sem hefur safnast á það sem aldrei fyrr í góðærinu.
En ágætar tillögur um skattalækkanir, nú vantar tillögurnar um útgjaldalækkanir.
Vilja fella niður neysluskatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.