13.3.2008 | 19:23
Við óþokkarnir sem teljum bara fram fjármagnstekjur
Ég settist niður nú seinnipartinn og gekk frá Íslenska skattframtalinu mínu. Það var eins og mörg undanfarin ár frekar létt verk og löðurmannlegt.
Það fer ekki mikið fyrir tekjum hjá mér á Íslandi, ja nema auðvitað blessuðum fjármagnstekjunum. Þær eru svo sem ekki gífurlegar en fjármagnstekjuskatturinn sem ég greiði dugar líklegast ekki til að greiða niður mjólk úr einni kú, þó að um einhverja tugi þúsunda sé að ræða.
En undanfarin ár hefur verið miklar umræður um þá sem eingöngu telja fram fjármagnstekjur. mér segir svo hugur að margir af þeim hópi séu rétt eins og ég, ekki með neinar launatekjur á Íslandi þar sem þeir búi erlendis.
Ég held að þetta séu því nokkuð ýktar áhyggjur sem margir hafa af þessum hópi.
Það er líklega frekar erfitt að búa á Íslandi í dag, án þess að hafa launatekjur í einni eða annarri mynd, þ.e.a.s. ef menn eru ekki í vinnu, þá þiggja þeir einhvers konar bætur.
Sjálfsagt hafa einhverjir einstaklingar framfæri sitt af því að kaupa og selja hlutabréf og önnur verðbréf, en ég hef ekki trú á því að það sé stór hópur manna sem þurfi að hafa stórar áhyggjur af.
En það er ekki ólíklegt að þetta komist aftur í umræðuna núna á "skattskilatímabilinu".
P.S. Hér í Kanada látum við Bjórárhjónin að sjálfsögðu fagmenn sjá um það að telja fram, enda hefur yfirvöldum hér tekist að gera framtalið hér svo flókið og leiðinlegt, að það er vel þess virði að borga nokkur hundruð dollara fyrir það að sleppa við þann ófögnuð.
Þeim tíma er betur varið með börnunum.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.