6.3.2008 | 21:36
10 ástæður fyrir því að lækka ekki vexti
Það hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að lækka vexti á Íslandi, sjálfur get ég ekki séð að það sé fýsilegt um þessar mundir, þó að allir vilji að sjálfsögðu borga minna af skuldunum sínum en,
Sparnaður á Íslandi er alltof lítill. Það getur varla talist hvetjandi til sparnaðar að lækka af því ábatann. Stundum er þarft að setja þá sem spara í fyrrirúm, en ekki þá sem skulda.
Þegar skuldatryggingarálag Íslenskra banka er næstum jafnhátt og vaxtaprósentan eða hærra, þá er eriftt að mæla með því að vextir séu lækkaðir.
300.000 íbúa þjóð sem kaupir jafn marga Range Rovera og Danir og Svíar samanlagt er ekki að senda sú skilaboð að vextir séu of háir. Það að segja: Það eru engir eins og Íslendingar lækkar ekki vextina..
300.000 íbúa þjóð sem reiknar með þvi að selja jafn marga Land Cruisera og Bretar er ekki að senda sú skilaboð að vextir séu of háir. Það að segja: Það eru engir eins og Íslendingar lækkar ekki vextina..
Þegar menn úr söludeild Mercedes lýsa því hvað þeir séu steinhissa á sölunni á Íslandi, bendir það ekki til að vextir séu of háir. Það að segja: Það eru engir eins og Íslendingar lækkar ekki vextina..
300.000 íbúa þjóð þar sem atvinnuleysi er innan við 1% og hefur flutt inn u.þ.b. 30.000 erlenda starfsmenn er ekki að senda sú skilaboð að vextir séu of háir.
Í landi þar sem húsnæðisverð hefur u.þ.b. tvöfaldast á fáum árum er ákaflega erfitt að draga þá ályktun að vextir séu of háir.
Í landi þar sem sólarlandaferðir og aðrar utanlandsferðir seljast sem aldrei fyrr, er erfitt að sjá að vextir séu alltof háir.
Mikið launaskrið hvetur ekki til vaxtalækkana.
Viðvarandi viðskiptahalli gefur ekki vísbendingar um að vextir séu of háir.
Hér á eftir eru nokkrar fréttir af netmiðlum, annað hvort frá þessu ári, eða seint á því síðasta. Þær lýsa ekki þjóð sem óttast vaxtagreiðslur og reynir að forðast þær. Þvert á móti.
Skuldir heimilanna aukast enn, Íslendingar kaupa jafn marga Range Rovera og Danir og Svíar, Land Cruiserar fyrir 6 milljarða, engin kreppa í lúxusbílasölu, nýkir bílar seldust vel í janúar, metsala hjá Toyota, almenningur upplifir ekki kreppu, um 8000 Íslendingar erlendis í mars, launavístölur hækka
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Facebook
Athugasemdir
Þú veist að þetta er "Undraland" og hefur kannski alltaf verið. Hugsanlega ráða væntingar um fallandi gengi miklu um kaup á bílum ofl. þess háttar, að því gefnu að þeir sem kaupa fjármagni ekki kaupin á lánum. Ég held að m.v. þær aðstæður sem nú ráða séu háir vextir eða jafnvel hækkandi vextir ekki hvati hjá fólki til að spara. Fæstir hafa orðið trú á því að gengið haldi öllu lengur og fólk er að "hamstra" á "góða" genginu. Seðlabankinn þarf að slaka á verðbólgumarkmiði sínu og hefja vaxtalækkunarferlið og reyna að tryggja undirmarkmið sitt, gengið. Það verður að hleypa einhverju verðbólguskoti í gegnum hagkerfið til að leiðrétta þessa vitleysu. Annars verður ketilsprenging. Við verðum að aðlaga raungengið til að eiga einhverja möguleika til að lifa á þessum útnára.
Hagbarður, 6.3.2008 kl. 23:19
Ef fólk sparar ekki, þá sparar það ekki. Ég man til dæmis ekki eftir óðaverðbólgunni hér rétt fyrir 1982, en hef heyrt um hana. Þá var hreinlega slæm hugmynd að spara.
Sumt fólk man þá tíð, og hegðar sér enn í samræmi við hana, og hefur kennt börnunum sínum að hegða sér þannig, giska ég á.
Ásgrímur Hartmannsson, 7.3.2008 kl. 00:26
Bestu þakkir fyrir innleggin.
Að lækka vexti og "taka verðbólguskot", hljómar grunsamlega líkt og tökum peningana af sparifjáreigendum í mínum eyrum, þeir hafa hvort sem er ekkert með þá að gera. Það eru líka miklu fleiri atkvæði að hafa hjá þeim sem skulda.
Hitt kann að vera að það þurfi hins vegar að hleypa af "gufunni" og sparifjáreigendur séu best til þess falnir að "brenna sig". Þeir munu þá líklega í vaxandi mæli fara með fé sitt úr landi, alla vegna þeir sem það geta. Gamla fólkið og aðrir þeir sem eftir sitja "gefa" eftir ávöxtun sína eða jafnvel hluta af höfuðstölnum.
Það verður hins vegar að fara að kenna Íslendingum að það er eðliegt að spara og skuldsett fyrirtæki og einstaklingar er ekki "náttúrulegt" ástand og það sem stefna ber að.
Hvort að rétti tíminn til þess sé núna, veit ég ekki. Ef til vill er með þetta eins og skattalækkanirnar, eitthvað sem allir vilja, en bara ekki núna.
G. Tómas Gunnarsson, 7.3.2008 kl. 05:21
Sæll
Ég er sammála þér að sparnaður er engan veginn nægjanlegur hér á landi. Það virðist vera eitthvað að í þjóðarsálinni. Ráðdeildarsemi og fyrirhyggja er ekki það sem gildir hér. "Samanburðarhagfræðin" gegnsýrir þjóðfélagið, nýr jeppi í innkeyrslunni við hliðina, þrýstir á um ný bílakaup og helst að toppa nágrannann með fjórhjóli eða vélsleða og vélsleðakerru í leiðinni. Dæmi um neyslugleðina er t.d. biðröðin sem ég sá þegar Toysarus var opnuð hérna á síðasta ári. Biðröðin nokkur hundruð metrar með tilheyrandi umfreðarteppum á Manhattan Höfuðborgarsvæðisins. Allir að gera góð kaup.
Það var fín færsla hjá þér um daginn um mótvægisaðgerðirnar í BNA. Kannski fróðlegt að bera þær saman við aðgerðirnar sem enn eru ekki nema að litlu leyti komnar af stað hér á landi vegna aflasamdráttarins. Áherslurnar aðrar hér á landi en í BNA. Þar er reynt að koma fjármálakerfunum í gang, enda vita þeir sem víst að þær eru æðar efnahagslífsins. Hér felast aðgerðirnar í að mála skúra og fjölga lögreglumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum á landsbyggðinni. Engar raunhæfar aðgerðir til að styðja við grunnþætti atvinnulífsins.
BNA-menn og Íslendingar eiga það sammerkt að hegðun þeirra einkennist af neyslu. Það sem skilur okkur hinsvegar að er að þeim er annt um að geta framleitt og selt eitthvað sem ekki virðist vera skráð í "manuala" ráðamanna hér á landi. Sterk króna og háir vextir ganga að endingu frá innlendri framleiðslu og koma í veg fyrir að við getum nýtt það sem við kannski höfum hlutfallslega yfirburði í ef raungengið væri eitthvað í líkingu við það sem það á að vera. Lágur dollar á eftir að styrkja BNA-efnahagslíf og bæta samkeppnisskilyrði útflutningsfyrirtækja þar í landi, þó svo að verðbólga geti vaxið þar eru áhrif verðbólgunar þau að einhverjar tilhliðranir verða á neyslu.
Hagbarður, 7.3.2008 kl. 10:27
Sæll,
Þetta er allt rétt nema þá helst það að það er innbyggður skyldusparnaður hjá öllum launþegur þessa lands þ.e. það sem greitt er til lífeyrissjóðana. Það er svo allt önnur umræða hvort það sé gott eða slæmt eða hvort menn og konur fá einhverntíman aftur það sem þangað er greitt.
Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 12:24
Það er alveg rétt að lífeyrissparnaður Íslendinga er mikils virði og stendur undir þó nokkrum hluta þeirra velmegunar sem þeir njóta. En þeir hafa ekki aðgang að honum nema að uppfyltum skilyrðum, þ.e. að hafa náð ákveðnum aldri.
En lífeyrissjóðir þurfa líka að ávaxta sig til að standa undir skuldindingum sínum, og þurfa því að hafa ávöxtun sem er vel yfir verðbólgu.
Ég hef nú ekki nema mátulegar áhyggjur af þvi að hratt hafi verið gengið um þær gleðidyr sem Toy R Us opnaði. Leikföngin þar eru ekki keypt á afborgunum (þó að yfirdráttur kunni vissulega að koma þar við sögu) og eru ekki jafn dýr og leikföngin sem fjallað er um í þessari frétt, sem er af mbl.is í dag.
Það er líklega rétt að það þykir ekki fínt að spara, jafnvel svolítið "skrýtið", það geri ekki nema sérvitringar. Ég er ekki frá því að minn hugsunarháttur hafi verið nokkuð nálægt því þegar ég bjó á Íslandi.
Sem betur fer breytist hugsunarhátturinn og nú er ég þeirrar skoðunar að það sem vanti mest í Íslenskt menntakerfi, sé fjármálakennsla, t.d. í framhaldsskólum.
Fjármál 102, 202 og 302 væri ábyggilega ekki slæm viðbót.
G. Tómas Gunnarsson, 7.3.2008 kl. 15:45
Á tímum óðaverðbólgu hér á landi í eina tíð var auðvitað slæm hugmynd að spara þar sem fjármunirnir brunnu upp óverðtryggðir í bönkum. Verðtryggð ríkisskuldabréf voru góður kostur þá og eru það enn. Nú er hins vegar hægt að breyta spöruðum krónum í erlendan gjaldeyri á bankareikningi t.d. dollara eða evrur og það er ágætis sparnaðar aðferð í dag.
Málið með vaxtalækkun er það að vaxtamunur hér á landi er líklega einn sá hæsti í þeim heimshluta sem við viljum miða okkur við og það er vel hægt að lækka útlánsvexti mikið án þess endilega að lækka innlánsvexti hlutfallslega jafnmikið og hafa vaxtamuninn samt á einhverju eðlilegu normi miðað við nágrannalöndin. Íslenskir bankar hafa hins vegar stundað rányrkju í veskjum landsmanna þannig að nú aka þeir ekki til rassgatinu nema viðskiptaþrælarnir borgi með alls konar upplognum kostnaðargjöldum eins og færslugjöldum, seðilgjöldum, lengri-opnunartíma-gjöldum, svona-gjöldum og hinsegin-gjöldum þannig að eðlilegur rekstrarkostnaður bankanna sem hlutfall af vaxtamuni þekkist ekki lengur á Íslandi eins og víðast annars staðar í heiminum. Það er hallærislegt að bera í bætifláka fyrir þann "löglega" nauðungarþjófnað sem bankarnir komast upp með úr vasa almennings með því að ástandið sé þannig að það sé óráð að lækka vextina vegna neyslu og neysluskulda. Flottræfilsgræðgi ákveðins hóps hér á landi sem kaupir þessa rándýru snobb-bíla hefur ekkert með almenning að gera heldur er þarna langmest um að ræða forstjóra, framkvæmdastjóra og alls konar millistjórnendur sem komist hafa í hærri launaflokka sem skósveinar milljarðaþjófanna við stjórn fyrirtækjanna. Almenningur þarf á vaxtalækkun að halda því það er hinn almenni launþegi sem stendur undir endalausum þjóðarsáttum sem flottræfilsliðið tekur engan þátt í og þar með eru taldir forystumenn launþegasamtaka sem samþykkja klinkið handa launaþrælunum því sjálfir eru þeir í flottræfilsliðinu.
Næstu nauðsynlegu skref í íslensku efnahagslífi er að leggja niður seðlabankann sem er stærsta krabbameinið í íslensku efnahags- og velferðarkerfi, tryggja framtíð íbúðalánasjóðs sem heldur á móti græðgisvæðingu bankanna og sækja um aðild að Evrópusambandinu ekki seinna en strax!
corvus corax, 7.3.2008 kl. 15:57
...gleymdi einu: afnema verðtryggingu strax með lögum og tryggja að aldrei megi taka hana upp aftur.
corvus corax, 7.3.2008 kl. 15:59
Að leggja fé inn á gjaldeyrisreikninga býður ekki upp á góða ávöxtun, nema að gengið sé fallandi.
Ég held reyndar að vaxtamunur sé ekki svo gríðarlega frábrugðin því sem gerist ananarsstaðar, en það er rétt að Íslenskir bankar eru duglegir við að klípa af lánum. T.d. með lántökugjöldum sem eru auðvitað ekkert annað en nokkurs konar forvextir.
Ef það væri eingöngu "eitthvað græðgispakk og skósveinar þeirra" sem væru í "neyslunni", þá væri þetta ekki sem væri risa áhyggjuefni. Ef kaupendur ættu almennt fyrir þessu "dóti" væru þetta nokkuð í góðu lagi.
Ég held að áhrif inngöngu í ESB séu stórlega ofmetin. Í fyrsta lagi eru vextir nauðsynlega þeir sömu frá landi til lands í ESB. Vextir á Íslandi myndu því líklega enn vera hærri en í flestum öðrum löndum ESB, þó að þeir yrðu lægri en þeir eru nú. Verð á matvælum er heldur ekki hið sama í öllum löndum ESB. Lækkunin yrði því ekki eins mikil og af er látið, þó að aukin innflutningur myndi án efa lækka verð. Aukin innflutning er auðvelt að heimila án þess að ganga í ESB.
Afnám verðtryggingar er engin trygging fyrir lægri raunvöxtum. Þvert á móti er ýmislegt sem bendir til þess að afnám hennar gæti hækkað vexti, þar sem óvissan er meiri.
Hitt er svo annað mál að það má vissulega deila um uppbyggingu vísitalna, og hvers vegna Íslendingar virðast nota aðra mælikvarða en flestar aðrar þjóðir.
G. Tómas Gunnarsson, 7.3.2008 kl. 17:46
Ég er sammála þér að það þyrfti að kenna fólki fjármál á unglingsaldri. Gæti best trúað því að slíkt gæti breytt "eyðslu/yfirdráttar/kreditkorta/reddast á morgun" hugsunarhættinum.
Hagbarður, 7.3.2008 kl. 17:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.