18.2.2008 | 20:00
Hlekkir hagsmunasamtaka
Mér þykir því miður það vera of algengt að ég lesi fréttir svipaðar þessari. Hagsmunasamtök lýsa sig mótfallin breytingum á starfsumhverfi umbjóðenda sinna og síðan koma alhæfingar eins og þessi:
"Fræðimenn séu sammála um að ungum börnum henti best að læra í leik og skapandi starfi, en leikskólar skipuleggi lærdómsumhverfi barna út frá þeirri hugmyndafræði." (Feitletrun er blogghöfundar.)
Niðurstöður rannsókna í þessum efnum hafa vissulega verið mismunandi og sumar jafnvel verið á þann veg að leikskóli sé alls ekki hollur ungum börnum, og geti aukið hegðunarvandamál, en látum það liggja á milli hluta. Nýlega gluggaði ég t.d. í rannsókn sem sagði að vissulega kæmu börn sem væru í leikskóla yfirleitt betur út hvað varðaði orðaforða, en börn sem ekki væru í leikskóla, en að sama skapi væri hegðunarvandamál mun útbreiddari hjá þeim börnum sem hefðu verið í leikskóla.
Hins vegar er að mínu mati órökrétt að láta eins og allt sé í himna lagi og engu þurfi að breyta, það eina sem vanti til að allt sé í fremstu röð sé aukið fjármagn, en það finnst mér oft einkenna málflutning hagsmunasamtaka, sambærilegra á við Félag leikskólakennara.
Hér í Kanada byrjar skólaganga við 4. ára aldur (ég er að fara að senda frumburðinn í skóla næsta haust). Það kallast "junior kindergarten", 5. ára er "senior Kindergarten" og síðan hefst fyrsti bekkur. "Junior" og "senior kindergarten" eru þó ekki skyldunám og er foreldrum í sjálfs vald sett hvort að þeir sendi börn sín eða ekki. Yfirgnæfandi fjöldi foreldra kýs þó að gera svo, enda er námið gjaldfrjálst. Foreldrar geta síðan oft ráðið (ekki í öllum skólum) hvort að börnin þeirra taki þátt í svokallaðri "French Immersion, jafnvel frá og með "senior kindergarten". Þetta þýðir þó ekki að kennsluaðferðir í "kindergarten" séu alfarið þær sömu og í hinum "eiginlega" skóla, en muninn þekki ég ekki nægilega vel. En þetta er innan hins "hefðbundna" skólakerfis.
En seinast þegar ég vissi stóð Kanada Íslandi ekki að baki í alþjóðlegum samanburði á skólasviðinu, nema að síður væri.
Ég held að það sé þörf á því að ræða þessi mál og fá fram ólíkar skoðanir og örlítil tilraunastarfsemi og aukið valfrelsi séu líkleg til að vera af hinu góða.
Þess vegna held ég að tillaga Sjálfstæðismanna sé af hinu góða. Henni ætti að hrinda í framkvæmd í nokkur ár og síðan að meta hvernig til hefur tekist. Hvernig foreldrar kunna við fyrirkomulagið, hvernig það skilar börnunum í hinn "hefðbundna" skóla og hvernig kennarar meta fyrirkomulagið. Einnig má velta því fyrir sér hvort að rétt sé t.d. að börnin hafi tvo kennara, annan "leikskólamenntaðan" en hinn með "hefðbundna" kennslumenntun.
En látum ekki eins og engu megi breyta.
![]() |
Leikskólakennarar andvígir 5 ára bekkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.2.2008 kl. 01:11 | Facebook
Athugasemdir
Kindergarten nafnið bendir nú reyndar til þess að þau skólastig eigi meira sameiginlegt með því sem við þekkjum sem leikskóla heldur en venjulegum grunnskólum. Kindergarten nafnið kemur frá Fröbels, þetta voru einskonar leikgarðar sem voru einir af undanförum leikskóla.
Egill Óskarsson, 18.2.2008 kl. 20:06
Já, "kindergarten" er vissulega komið úr þýsku, en hér er þetta notað fyrir nokkurs konar "forskóla". Ég ætla ekki að fullyrða neitt um kennsluaðferðir en ég veit hinsvegar að það sem lagt er áhersla á í mörgum þeirra er eftirfarandi, þó að það kunni að vera eitthvað mismunandi eftir skólum:
Svo má ekki gleyma því að frá 6 ára aldri geta börnin hafið frönskunám, ef foreldrarnir kjósa svo (líka eitthvað mismunandi eftir skólum).
Hversu líkt þetta er Íslenskum leikskólum ætla ég ekki að dæma um, enda þekki ég ekki vel til þeirra.
G. Tómas Gunnarsson, 18.2.2008 kl. 20:22
Er ekki svolítið hæpið að halda því fram að athugasemdir leikskólakennara séu byggðar á einhverskonar verndarhugsun, ekki síst í ljósi þess að það er nú ekki beinlínis eins og það blasi við verkefnaskortur á þeim bænum.
Sem betur fer hafa leikskólakennarar á Íslandi ekki dottið ofan í þann pytt að láta hagsmuni stéttarinnar ráða för í umræðum um fagleg málefni skólastarfsins heldur hefur þeim þvert á móti borið gæfa til að hafa fókusinn á skjólstæðingum sínum, börnunum okkar. Því miður er ekki hægt að egja það um allar aðra kennarastéttir á Íslandi. Leikskólakennarar eru heldur ekki að missa fókusinn í þessu tilfelli, heldur einungis að benda á að þetta sé ef til ekki lausnin á vanda grunnskólans, þ.e. að færa þangað sífellt yngri börn.
Niðurstöður hvaða rannsóknar þú vitnar til veit ég ekki en það kæmi mér ekki á óvart ef rannsakandinn, og sá sem dregur þar ályktanir af niðurstöðum og leggur mat á hvaða hegðun telst vandamál og hvaða hegðun heppileg, sé einmitt uppruninn úr grunnskólanum, þar sem börn eiga að sitja kyrr, þegja og hlusta. Það er einmitt þannig sem grunnskólinn, þessi sem var fundin upp fyrir árhundruðum virkar. Vandamálið er bara að hann hefur aldrei virkað fyrir börn, hvað þá leikþyrsta smákrakka. Formið hentar ágætlega í háskólum en jafnvel þar hefur átt sér stað mikil þróun á undanförnum árum, sem miðar aðalega að því að bæta við nýjum miðlunarleiðum og virkja sköpunarkraft og leikgleði nemendanna. Slíkt virðist skipta mun meira máli í háskólanámi, heldur en það að nemendurnir sitji hreyfingarlausir í sætum sínum og haldi munninum lokuðum út allar 40 mínúturnar.
Um það snýst þessi frétt kæri Tómas
Gunnar Axel Axelsson, 18.2.2008 kl. 21:02
Kæri Gunnar,
Ég veit ekki úr hvaða umhverfi rannsakandinn kemur, en vissulega eru niðurstöðurnar miðaðir við hvernig hegðun er í grunnskólum eins og þeir eru almennt skipulagðir "í dag". Það er enda erfitt að miða við annað en þann raunveruleika sem við blasir.
Ég sé líka að ég hef ekki sétt heimasíðu rannsóknarinnar inn, en hana má finna hér. Stutta frétt um rannsóknina í NYT má finna hér.
Að mínu mati er full þörf á frekari þróun og umfram allt fleiri valmöguleikum fyrir börn á leikskólaaldri. Ég tel það alveg ljóst að þótt margt hafi skipast til betri vegar á undanförnum áratugum, er kerfið eins og það er byggt upp í dag ekki að skila þeim árangri sem þarf.
Þó að vissulega sé fjármagns vant, sérstaklega á þennslutímum, þarf augljóslega að hugsa dæmið upp á nýtt.
G. Tómas Gunnarsson, 19.2.2008 kl. 01:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.