Stakir steinar valda æsingi

Það er oft merkilegt hvað dálkurinn "Staksteinar" í Morgunblaðinu getur fengið annars hina rólyndustu menn til að stökkva upp á nef sér.  Sjálfur sé ég ekki Morgunblaðið, og þar af leiðandi ekki "Staksteina", en það fer ekki fram hjá mér hvaða æsingi þeir valda og má oft lesa um þá á netinu.

Sjaldan eða aldrei hafa þeir þó valdið eins miklum æsingi og nú fyrir nokkrum dögum þegar fjallað var um "Samtök herstöðvarandstæðinga" og "Keflavíkurgöngur".

Mátti lesa vandlætingu yfir þeim skrifum víða um netið, m.a. hjá þeim félögum Ögmundi Jónassyni og Árna Þór Sigurðssyni.

Árni skrifar m.a.:

"Staksteinahöfundur (sem að venju kýs að fela andlit sitt og vega úr launsátri – eins og það er nú stórmannlegt!!) lætur að því liggja að þúsundir Íslendinga sem um árabil hafa barist fyrir herlausu landi, hafi gengið erinda fjöldamorðingja í Sovétríkjunum.  Hafi gengið gegn erlendum her í landinu í þágu þeirra sem drápu óbreytta borgara í Berlín 1953, í Búdapest 1956 og Prag 1968.  Og í þágu þeirra sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af mannavöldum.  Að herstöðvaandstæðingar hafi viljað koma á slíku samfélagi hér á landi! Trúir höfundur Staksteina þessu virkilega sjálfur?

Herstöðvaandstæðingar hafa árum saman barist fyrir friði og félagslegu réttlæti í alþjóðamálum meðan Morgunblaðið hefur stutt dyggilega við hvers kyns ofríkis- og heimsvaldastefnu undir forystu Bandaríkjanna.  Herstöðvaandstæðingar vilja friðsamlega sambúð þjóða og vilja draga úr ógninni sem þjóðum heims stafar af herskárri stríðsstefnu pótintáta auðvaldsins vestan hafs.  Morgunblaðið talar fyrir stríðsrekstri Bandaríkjanna og væri þá allt eins hægt að saka blaðið um að bera ábyrgð á fjöldamorðum í Afganistan og Írak og grimmúðlegri meðferð fanga – en það verður ekki gert hér."

Og Ögmundur lætur sitt ekki eftir liggja:

"Um þessa einstaklinga og hvað fyrir þeim vakti segir m.a. í Staksteinum:

"Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.
Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.
Þetta voru hugsjónir herstöðvarandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi."

Þetta eru kaldar kveðjur til Árna Björnssonar,Vigdísar Finnbogadóttur, Halldórs Laxness, Jakobínu Sigurðardóttur, Ragnars Stefánssonar, Jóhannesar úr Kötlum, Svövu Jakobsdóttur, Guðmundar Böðvarssonar, Guðrúnar Helgadóttur, Guðmundar Georgssonar, Jónasar Árnasonar, Gils Guðmundssonar, Birnu Þórðardóttur, Einars Ólafssonar, Ingibjargar Haraldsdóttur, Jóns Torfasonar, Kristínar Halldórsdóttur, Ragnars Arnalds…….. og allra hinna; listamannanna, stjórnmálamannanna, launafólks og mannréttindasinna, allra þúsundanna sem tóku þátt í baráttunni fyrir herlausu Íslandi, ýmist með þátttöku í Keflavíkurgöngum eða með öðrum hætti.

Ég hef aldrei verið gefinn fyrir beitingu meiðyrðalöggjafar – nema þá til að hrekja gróflega upplognar sakir. En á það ekki við í þessu tilviki?"

Það má taka undir það með þeim félögum að það kanna að vera nokkuð gróft að setja alla þá sem gengu "Keflavíkurgöngur" undir einn hatt.  Ástæður fyrir því að menn fóru í þessar göngur hafa ábyggilega verið af mismunandi toga, sumir voru ef til vill þjóðernissinnar, aðrir þoldu ekki erlenda menn eða erlend menningaráhrif, einhverjir voru "friðarsinnar" og eflaust má finna fleiri ástæður en aðrir voru án efa kommúnistar og höfðu það sem sína æðstu ósk að koma á "sovétskipulagi" á Íslandi að fyrirmynd Stalíns og annara "alþjóðlegra hetja" sósíalismans.

Ekki þekki skoðanir allra sem Ögmundur nefnir þarna í pistili sínum, en hitt tel ég á allra vitorði hvaða hug Halldór Laxness bar til Sovétríkjanna og þess skipulags sem þar ríkti.  Þó að hann seinna hafi afneitað þeim.  Ögmundur nefnir líka Jóhannes úr Kötlum, sem orti "Sovét Ísland óskalandið, hvenær kemur þú?", eitthvað rámar mig líka í lofkvæði um Stalín eftir hann.

Það eru líka fæstir í vafa um það hverjir hefðu "hagnast" mest á því á kalda stríðs árunum ef bandaríski herinn hefði verið gerður brottreka frá Íslandi, það hefðu verið hin sömu Sovétríki.  GIUK hliðið svokallaða hefði veikst, kafbátar Sovétsins átt greiðari leið frá Murmansk og tenging á milli Bandaríkjanna og Evrópu til vopna og liðsflutninga ef í harðbakkann slægi orðið erfiðari og hættulegri.

Það þarf því ekki að velkjast í miklum vafa í þágu hvaða ríkis það hefði verið ef herinn hefði farið.

Það var líka gjarna sama fólkið sem "predikaði" um nauðsyn þess að herinn hyrfi á brott og talaði fjálglega um "einhliða afvopnum" og það væri "betra að vera rauður en dauður".  Í þágu hvaða ríkis skyldi það nú hafa verið?  Hvaða ríki hefði notið ávinnings ef það hefði gengið eftir?

Eins og ég sagði áður, þá kann það að vera nokkuð gróft að setja alla herstöðvarandstæðinga undir einn hatt, en slíkt er ekki einsdæmi í umræðu í pólítík.  En hitt verða gömlu "kommarnir" að athuga, að þó að þau tímamót hafi orðið að ekki sé lengur her á Íslandi og þess ekki talinn þörf, í það minnst ekki sem stendur, þá núllstillir sagan sig ekki.  Kalda stríðið var blákaldur veruleiki fyrir u.þ.b. 15 árum, hafði þá staðið frá 1917 eða 44, svona eftir því hvernig sagan er skoðuð.  Þeir voru líka býsna margir sem vildu koma á sovétskipulagi á Íslandi, það er enginn goðgá að ætla að hlutfall þeirra hafi verið drjúgum hærra innan "Keflavíkurgöngugarpa" en á meðal þjóðarinnar.

En "Sovét Ísland óskalandið", hefur ekki komið og kemur vonandi ekki úr þessu, en það er ekki hægt að líta fram hjá því að það voru margir sem börðust fyrir því.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband