29.1.2008 | 18:36
Skref í rétta átt, en ennþá hróplegt ranglæti
Það er fyllsta ástæða til að fagna þingsályktunartillögu sem Kristján Þór Júlíusson hefur lagt fram, þess efnis að þeir einstaklingar sem standi utan trúfélaga fái meira að segja um ráðstöfun "sóknargjalda" sem falin eru inn í álagningu á Íslendinga. Sjá má frétt á Vísi um þetta mál.
Gallinn er hinsvegar að þessi breyting gengur allt of skammt.
Hvað um að gera þessar álögur sýnilegri og að þeir sem utan trúfélaga standa þurfi ekki að greiða nein slík gjöld? (eða fái upphæðina endurgreidda).
Hvernig er hægt að verja fyrirkomulag þar sem hið opinbera tekur slíkt gjald af öllum, og ef þeir vilja ekki greiða til "sóknar", þá skuli þeir gott vel borga til háskóla eða einhvers annars?
Hvað varð um sjálfsákvörðunarrétt þegnanna?
Hví skyldu þeir sem ekki eru í trúfélögum vera skyldaðir til að borga til háskóla eða líknarfélaga fremur en aðrir þegnar landsins?
Heitir þetta ekki að mismuna fólki, lagðar eru álögur á þá sem ekki eru í trúfélögum umfram aðra?
Hvernig hljómar nú aftur klásúlan í stjórnarskránni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tek undir með þér heilshugar. Það að þetta mál sé að koma fram og skapi umræðu um þessi mál er fagnaðarefni. Þetta litla skref í rétta átt en eiginlega viðurkenning á því hve afspyrnu óréttlátt þetta kerfi er. Það mætti halda að ekki þyrfti að taka tillits til trúlausra, að þeir væru hópur sem væri ómarktækur því ekki fær hann að ráðstafa þessum fjármunum eins og hann vill. Nei - ef fólk er trúlaust þá verður það að greiða til einhvers háskóla eða líknarfélags.
Það sem fólk virðist ekki átta sig á að undir réttum kringumstæðum eiga trúlausir að fá þessa peninga endurgreidda undantekningalaust. Það er óforsvaranlegt að trúlausir séu sá hópur sem ekki fær að ráðstafa þessum fjármunum sjálfur.
Trúaðir er með sín trúfélög og sækja þjónustu og annað til þess trúfélags og fá því eitthvað fyrir sóknargjöldin en trúlausir mega bara éta það sem úti frís. Þeir fá ekkert fyrir sóknagjöldin sín, nema hugsanlega að þeir séu í einhverjum háskóla eða fá þjónustu frá því líknarfélagi sem þeir láta sóknargjöldin sín renna í.
Meira að segja lífskoðunarfélag eins og Siðmennt verður að bíta í það súra að fá ekki skráningu "trúfélags" (Siðmennt stendur fyrir Húmanisma, ekki neina trú) því þau trúa ekki að ímyndaða veru á himnum. Meðan geta klikkaðir költ-leiðtogar fengið nokkra með sér og stofnað trúsöfnuð og gert það sem þeir vilja - þess vegna keypt sér bíl fyrir sóknagjöldin eða viðeigandi "gimp" útbúnað.
Já - það er merkileg þessi veröld...
Jón Magnús, 29.1.2008 kl. 20:12
Persónulega finnst mér eðlilegt að félög eins og Siðmennt fái ekki stöðu "trúfélags", enda KR og Valur líklega ekki lengra frá því að vera "trúfélög" heldur en það.
Persónulega finnst mér það hálf hjákátlegt þegar Siðmennt er að "kópíera" athafnir ríkiskirkjunar með forskeytinu "borgarleg".
En það er auðvitað sanngirniskrafa að þeir sem kjósa að standa utan trúfélaga losni undan þeirri kvöð að greiða "sóknargjald", hvort sem að það rennur til góðs málefnis eður ei.
G. Tómas Gunnarsson, 30.1.2008 kl. 03:48
Enda finnst mér það bjánalegt líka en ef trúfélög fá peninga útfrá lífskoðunum meðlima sinna þá ætti Siðmennt að fá það líka, sérstaklega þegar þeir hafa óskað þess. Mér finnst að þetta ætti ekki að heita trúfélagsskráning heldur eitthvað allt annað. T.d. lífsskoðunarskráning?
Jú, menn geta haft mismundandi skoðun og fundist það asnalegt að Siðmennt sé að kópera kristnar athafnir ríkiskirkjunar en margt af þessum athöfnum er valkostur fyrir fólk sem getur ekki hugsað sér að vera undir kirkjunni t.d. með fermingar en vill samt fá veislu/gjafir o.s.frv. Persónulega finnst mér það hræsni ef trúlaus unglingur fermist bara fyrir gjafirnar og jafningjaþrýsting en það er þó skárra ef hann fermist borgaralega. Fólk má ekki gleyma því að kirkjan velur ekki þennan aldur að ástæðulausu 13-14 unglingar eru afskaplega mikil "hópdýr" á þessum aldri og fæst þeirra kjósa að fara eitthvað gegn straumnum.
Annars væri mesta réttlætið væri náttúrulega fólgið í því að leggja þetta system bara niður og láta þá sem eru í kirkjunni, öðrum söfnuðum og Siðmennt borga fyrir sínar athafnir sjálfir í staðinn fyrir að ríkið sé eitthvað að vasast í þessu. En við erum því miður ekki nálægt því eins og sést.
Jón Magnús, 30.1.2008 kl. 15:17
"...margt af þessum athöfnum er valkostur fyrir fólk sem getur ekki hugsað sér að vera undir kirkjunni t.d. með fermingar en vill samt fá veislu/gjafir o.s.frv."
Hljómar fyrir mér eins og að sagt sé: Valkostur fyrir þá sem vilja ekki vera kristnir en vilja samt fá peninginn.
Verð að segja að það þykir mér slæm "siðmennt" og nákvæmlega jafn slæmt að fermast vegna gjafa/peninga eða jafningjaþrýstings hvort sem það er gert borgaralega eður ei og skil reyndar ekki hvers vegna samtök eins og Siðmennt nota orðið ferming. Hvers vegna er það ekki bara "gjafapartý fyrir vini og ættingja"?
Hitt er svo annað mál að mér þykir Siðmennt að mörgu leyti inna af hendi ágætt starf, eins og ég heyri af því. Til dæmis er heimspekikennsla fyrir unglinga tvímælaslaust af hinu góða. Ef til væri réttara að hafa einfaldlega útskrift úr heimspekiskóla Siðmenntar, en ekki kalla þetta fermingu, en það er í sjálfu sér ekkert sem mér kemur við, en mér þykir "borgarleg ferming" hreinlega eitthvert "skrýpi".
En ég er sammála því að auðvitað fer best á því að ríkið hætti að innheimta sóknargjöld og trúfélög og önnur samtök innheimti þetta sjálf.
Hvernig þætti fólki ef ríkið innheimti félagsgjöld fyrir stjórnmálaflokka, en þeir sem kysu að standa utan þeirra greiddu samsvarandi upphæði til háskólans?
G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2008 kl. 19:07
Ég get alveg verið sammála þér þarna. Þetta fermingastúss allt saman er ein stór hræsni. Borgaraleg ferming gæti t.d. heitið Mannvígsla Siðmenntar - æi samt asnalegt.
Annars finnst mér þetta s.s. allt í lagi - þetta gæti verið betra en svona er þetta meðan fermingar eru stór hluti af þessu árgangi og þá finnst mér að það þurfi að bjóða upp á eitthvað svipað fyrir þá sem geta ekki hugsað sér að fá kristna fermingu. Óþarfi að segja við þá unglinga "Jæja þá, þá færðu bara ekki neitt!" og þeir þurfa síðan að horfa á jafnaldra sína fá fínar gjafir o.s.frv.
Ekki nema von þá að trúlausir unglingar taki allt í einu trú þegar þau standa frammi fyrir valinu fullt af gjöfum vs. engar gjafir. Þau eru nú einu sinni mannleg.
Jón Magnús, 1.2.2008 kl. 14:30
Mér sýnist nú við vera á nokkuð sama "plani". En það má auðvitað deila um hvaða nauðsyn það er að hafa einhverja "manndómsvígslu" með gjafaflóði. Sömuleiðis hvort að það sé þá rétta "baráttuaðferðin" ef einhverjum ofbýður að útbúa nokkurs konar eftirlíkingu, þó með öðrum formerkjum sé.
En baráttumálið er auðvitað að allir sitji við sama borð, og sóknargjöld séu felld niður fyrir þá sem ekki tilheyra trúfélögum.
G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2008 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.