24.1.2008 | 19:04
Ungliðahreyfingar skrílræðisins
Það er í seinn hryggilegt og skelfilegt að horfa upp ungliðahreyfingar flokka sem telja sig lýðræðissinnaða, gefa sig skrílræðinu á vald.
Það er skiljanlegt að þeim sem ýmsum öðrum mislíki að nýr meirihluti taki við í Reykjavík. Það er sömuleiðis eðlilegt að þeir kjósi að koma fram mótmælum þegar nýi meirihlutinn tekur við.
En slík mótmæli eiga að sjálfsögðu að fara fram þannig fram að þau trufli ekki störf borgarstjórnar sem kjörin er með lýðræðislegum hætti. Líklega hefðu þau mótmæli orðið áhrifameiri ef þau hefðu farið fram með þöglum og kurteisum hætti.
Skrílræðið má aldrei taka yfir.
Ungliðahreyfingarnar skulda almenningi afsökunarbeiðni á framferði sínu.
Nema auðvitað að þær hafi kosið að standa fyrir skrílræðið?
Segja atburðina í Ráðhúsinu sögulega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það tala allir um að lýðræði og tjáningafrelsi sé í landinu en þegar hópur fólks er með hávær mótmæli þá er umræðan komin út í það að fólk sé með skrílslæti.
Fólk getur mótmælt á margan veg og því er það leiðinlegt að sjá viti borna menn tala um skrílslæti því þeir eru ekki sammála hegðun mótmælenda. Íslensk mótmæli eru nær alltaf hógvær og skila engu, kominn tími til að menn taki aðeins á þessu.
Hinki, 25.1.2008 kl. 04:12
Þessi mótmæli skiluðu heldur engu og skrílræði er andstæða lýðræðis og á ekkert skylt við tjáningarfrelsi.
Hvort sem menn eru með eða á móti nýjum meirihluta í borgarstjórn breytir það því ekki að þeir 8 borgarfulltrúar sem mynda hann eru rétt kjörnir til starfa í borgarstjórn. Sá meirihluti er því lýðræðislega kjörinn og er myndaður á löglegan hátt.
Allir hafa rétt til að tjá sig, en það tjáningarfrelsi gildir ekki á borgarstjórnarfundum eða t.d. á Alþingi.
Ég er því þeirrar skoðunar að skrílslæti þau sem urðu á áhorfendapöllum í Ráðhúsinu í dag, séu ungliðahreyfingunum sem skipulögðu þau til skammar.
G. Tómas Gunnarsson, 25.1.2008 kl. 04:54
Þó að bókstafurinn segi að meirihlutinn sé lýðræðislega kjörinnþá þýðir það ekki að lýðurinn hafi ráðið sem er það sem lýðræði á að snúast um. Mér þykir það ekki eðlilegt að þeir tveir flokkar sem njutu minnst fylgis í síðustu kosningum hafi myndað meirihlutastjórn með þeim stærsta á þessu kjörtímabili. Og í þessu tilfelli kemur fram að F listinn hafi náð fram mörgum af sínum málefnum í samningi flokkanna og var það víst álíka mikið og D listinn. En hins vegar er það mjög bogið að flokkur með svo lítið fylgi hafi svo mikil völd. Ég tala nú ekki um þegar borgarstjórinn sjálfur er eini maðurinn í þessum flokki sem er í borgarstjórn. Þettar er einfaldlega ekki eðlilegt og 75% borgarbúa virðist vera sammála og að þessi meirihluti sé ekki sá rétti og það ætti að vera nóg fyrir meirihlutann að íhuga að láta undann er það ekki? Er það ekki lýðræði? Lýðurinn hefur meira að segja en bara á kjördag og það er orðið tímabært að við íslendingar áttum okkur á því. Stjórnvöld eiga að óttast almenning en ekki öfugt. Þau eru að vinna fyrir okkur en ekki öfugt.
En þýðir það að fyrst þessi mótmæli trufluðu borgarstjórnarfund að það réttlæti þessa valnýðslu hjá D listanum og F manninum? Það er merkilegt að lesa hverja bloggfærsluna á fætur annari sem kvartar bara yfir mótmælunum og segir þetta fólk ekki vilja lýðræði. Eins og ég segi þó að bókstafurinn segi þetta rétt þá er það lýðræðislega ekki rétt. Þetta fólk hefur ekki fylgi lýðsinns og því væri réttast að slíta þessari borgarstjórn og boða til nýrra kosninga til að róa þessa dramatík áður en Þetta verður að svo mikilli vitleysu að enginn mun geta skilið neitt í neinu sem gerist þarna.
Það sem þessir mótmælendur hafa fram yfir þessi bloggmótmæli við mótmælunum er þó að þau eru að reyna að gera það sem þau telja vera rétt og berjast fyrir sínu lýðræði. Við megum líka ekki gleyma að við þurfum að berjast fyrir lýðræðinu. Það þarf nú ekki mikið að gerast svo að við myndum missa það þó að felstir geti ekki ímyndað sér að það gæti gerst en það er alls ekki útilokað þó að við séum á Íslandi. En nóg blaður frá mér. Hættið þið líka að blaðra og takið ábyrgð á ykkar frelsi eins og mótmælendurnir gerðu.
Sigurður J Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 05:30
Málið er það að eins og oft má líta á málin frá fleiri en einni hlið en það þarf þó að gera það innan lagabókstafsins ef vel á að fara.
Auðvitað má sömuleiðis segja að rökréttast sé að sá flokkur sem nýtur langmestrar hylli borgarbúa í kosningum eigi að koma að stjórn borgarinnar með afgerandi hætti. Sömuleiðis má auðvitað segja að nú sé staðan sú að í minnihluta séu þeir flokkar sem mynduðu meirihluta síðasta kjörtímabil, í formi R-listans. Þeir flokkar hlutu minnihluta atkvæða í síðustu kosningum og því má með nokkru sanni segja að rökrétt sé að þeir flokkar séu ekki við völd. Allir sem taka þátt í og fylgjast með stjórnmálum vita að það er ekki farið eftir skoðanakönnunum heldur kosningum.
Síðan má auðvitað segja að F-listinn/Íslandshreyfingin sé orðinn nokkuð skrýtin samsuða. Auðvitað má deila um hvort að það sé lýðræðislegt eður ei að einstaklingar sem buðu sig fram fyrir Frjálslynda flokkinn en sögðu sig úr honum eigi rétt á því að halda sæti sínu. Slíkt framferði taldi Margrét siðleysi þegar Gunnar Örlygsson fór á milli flokka, en siðferðið hafði breyst eitthvað þegar hún sjálf sagði sig úr Frjálslynda flokknum og stofnaði og var í forsvari fyrir annan flokk. Það sama gildir um Ólaf F. Magnússon og einhverja fleiri á F-listanum.
En það breytir því ekki að að þau hafa lögin sín megin, borgarfulltrúar teljast kosnir sem einstaklingar þó að þeir hafi setið á listum einhverra flokka. Þeim ber eingöngu að fara eftir sinni sannfæringu.
Það skiptir engu máli þó að nú hafi F-listinn (hvaða flokki sem þau tilheyra nú) klofnað. Borgarfulltrúum ber að mynda meirihluta og það hafa Ólafur og Sjálfstæðisflokkurinn nú gert. Það er eini starfhæfi meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur.
Þannig virkar lýðræðið, þannig eru leikreglurnar. Þeim verður ekki breytt með hrópum, köllum eða öðrum skrílslátum. Hins vegar getur hver sem er hafið baráttu fyrir breyttum leikreglum, hvort sem er innan starfandi stjórnmálahreyfinga eða með því að stofna nýjar. Það er betri leið heldur en skrílslæti og ofbeldi.
G. Tómas Gunnarsson, 25.1.2008 kl. 05:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.