Grátið í glerhúsinu

Ég sagði það hér í fyrir stuttu að mér litist miðlungi vel á nýjan meirihluta í Reykjavík.  Þó sýnu betur en þann sem er að fara frá og er reiðubúinn til að gefa nýjum meirihluta séns á því að láta verkin tala.  Upphafið, það er lækkun fasteignaskatta er af hinu góðu og er vonandi að haldið verði áfram á þeirri braut.

Annað líst mér síður á, s.s. "kofamenninguna" sem er að festa sig í sessi í Reykjavík.

En það hefur líka verið fróðlegt að fylgjast með reiði fráfarandi meirihluta og stuðningsmanna þeirra.  Heiftin virðist vera mikil og ég er ekki frá því að biskupinn myndi segja að hún væri hatrömm.

Það var ótrúlegt að sjá í fréttum hvernig forsvarsmenn "Tjarnarkvartettsins" (sem nú er orðinn að Dúett í borgarstjórn) tjáðu sig um skrílslætin á áhorfendapöllunum.  Þau virtust vera ánægð með framkomu mótmælenda og í raun lítast vel á skrílræðið.

Reyndar er ótrúlegt að hlusta á lýðskrum eins og þegar sagt er að það ætti að kjósa í Reykjavík í dag, án þess að taka það fram um leið að það sé engin heimild fyrir því í sveitarstjórnarlögum.  Það er einfaldlega (alla vegna sem ég best veit) ekki hægt að "rjúfa borgarstjórn".

Málflutningur eins og sá að Ólafur eigi ekki að vera borgarstjóri vegna þess hve hann hafi fá atkvæði á bakvið sig, verður léttvægur þegar hann kemur frá flokkum sem höfðu á síðasta kjörtímabili, borgarstjóra sem ekki sat í borgarstjórn, hafði aldrei verið til þess kjörinn.  Líklega eru Samfylkingarmenn á Akureyri heldur ekki sammála því að stærri flokkurinn eigi að hafa bæjarstjórann alltaf, allan tímann.

Þegar forsagan er höfð til hliðsjónar þarf svo ef til vill engum að koma á óvart að ekki sé samstaða hjá þeim skipa framboðslista F-listans, í hvaða flokki sem það er svo í núna.  Það er líklega best að orða það sem svo að nú sé fólkið sem klauf sig frá Frjálslynda flokknum (en hélt sætunum sínum í borgarstjórn, þó svo að sumir þeirra hafi áður skrifað "lærðar" greinar um hve slíkt framferði væri siðlaust) sé klofið.

Auðvitað er endurtekin lausung í borgarstjórn ekki af hinu góða og ekki til eftirbreytni.  En það verður hver að velja sér samstarfsmenn sem þeir kjósa og telja að þeir geti með komið sínum málefnum á framfæri.

Það er best að gefa hinum nýja meirihluta frið til starfa, "Tjarnardúettinn" og þeir borgarfulltrúar sem með þeim starfa í minnihluta sjá um að veita þeim öflugt aðhald og svo gefa borgarbúar álit sitt í kosningum árið 2010.

Vonandi verða ekki frekari umskipti þangað til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband