22.1.2008 | 05:26
Kjörtímabil myndhöggvaranna
Það er allt útlit fyrir að það yfirstandandi kjörtímabil verði fengsælt fyrir myndhöggvara í Reykjavík. Líklega þarf að móta þrjár brjóstmyndir af borgarstjórum. Reyndar var tala borgarstjóra sú sama á síðasta kjörtímabili.
Það er nefnilega ekki rétt að útlit sé fyrir að það verði 4. borgarstjórar á yfirstandandi kjörtímabili. Hið rétta er að líkur eru á því að sami maðurinn gegni embættinu tvisvar. En það er í sjálfu sér nokkuð merkileg staðreynd í sjálfu sér.
En það þýðir að á tveimur kjörtímabilum hafa 6. einstaklingar gegnt embættinu(ef allt þetta gengur eftir), en ekki sjö eins og margir halda fram. Munurinn er þó að þeir einstaklingar sem gengdu embættinu á síðasta kjörtímabili voru bornir fram af sama meirihlutanum.
En það er vissulega merkilegt að fylgjast með þessari baráttu sem ríkir um borgina. Það er líka stórkostlegt að fylgjast með þeim sem glöddust svo ákaflega yfir "kænsku" sinna manna fyrir hundrað dögum. Nú eru þeir með brigslyrðin á hraðbergi og eiga ekki orð yfir þá ósvífni og ómerkileg heit að Ólafi hafi þóknast að skipta um samstarfsmenn.
Sjálfur verð ég þó að segja að mér líst miðlungi vel á þennan nýja meirihluta, en hann getur þó varla orðið verri en sá sem nú hrökklast frá eftir 100 daga. Sá meirihluti virtist mér ekki geta tekið á neinum málum af myndugheitum. Hvort að rífa ætti tvö hús eður ei, vafðist svo fyrir borgarfulltrúunum að þeim þótti nærtækast að menntamálaráðherra ákveddi hvernig skyldi að málum staðið.
Annars velti ég því fyrir mér hvort að "húskofarnir" hafi ef til vill átt stóran þátt í því að skipt var um meirihluta. Var "stökk" Dags fram fyrir "skurðgröfurnar" ef til vill viðleitni til að halda Ólafi góðum?
En því miður virðist "húskofamenningin" festast í sessi með þessum nýja meirihluta, ekkert verður gert í flugvallarmálinu og varla kemur kælirinn aftur í ÁTVR.
En á jákvæðu nótunum er að Reykvíkingar munu líklega njóta lægri fasteignaskatta en ella hefði orðið og fyrirheit um að allt verði lagt á borðið hvað varðar OR/REI lofar sömuleiðis góðu. Reyndar held ég að nú skapist tækifæri til að taka vel til í kringum Orkuveituna þegar arfleifð Björns Inga og Alfreð kastar ekki lengur skugga yfir meirihlutann.
En það er næsta víst að það verða stálin stinn í borgarstjórn á næstunni. Það mátti skynja gríðarlega reiði í herbúðum fráfarandi meirihluta og hvöss skot á heilbrigði Ólafs. Þau skot bergmála svo frá "fótgönguliðunum" hér og þar og má búast við meiru í þá átt. Ólafur býr þó svo vel að hafa einn borgarfulltrúa, í það minnsta svo að ég viti til, uppáskrifað heilbrigðisvottorð sem hann skilaði inn.
En ég get að mörgu leyti tekið undir áhyggjur þeirra sem telja að þetta verði til að veikja traust á borgarstjórninni almenn og stjórnmálamönnum, brambolt í þessa veru er til þess fallið.
En nýji meirihlutinn verður að láta verkin tala, það er eina leiðin til að skapa traust. Slíkt kemur ekki með fé og nýjum fötum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.